Smá fræðsla
um hugtakið "Tíu heimarnir" sem við tölum oft um í búddismanum:-)
Þetta eru 10 mismunandi lífsástönd sem fyrirfinnast í líkamlegu og andlegu lífi allra mannvera. Tíu heimarnir koma fram, sem viðbrögð okkar við umhverfinu. Tíu heimarnir hafa flestir jákvæðar og neikvæðar hliðar, og það er sama í hvaða ástandi maður er, þá á alltaf að reyna að horfa á jákvæðu hliðarnar. Það er t.d. hægt að vera í helvítisástandi en samt líða vel..
Markmiðið er að reyna að komast í tíunda heiminn, virkja og sýna Búddaeðlið og viðhalda því ástandi, en eins og við vitum þá gengur lífið upp og niður og við göngum í gegnum alla heimana einhvern tímann og það er jafnvel hægt að vera í nokkrum þeirra samtímis.
Markmiðið með því að ástunda búddisma Nichiren Daishonin er ekki sá að losa sig við neinn af þessum heimum, heldur að gera búddaeðlið virkt í þeim öllum.
Tíu heimarnir
1. Helvíti (Jigoku): er lægsta lífsástand mannsins.
Neikvætt: Mannveruna vantar lífsorku og frelsi. Ástandinu er viðhaldið með reiði og gremju út í það sem eyðir lífsorkunni.
Jákvætt: Víkkar sjóndeildarhringinn og knýr mann upp á við.
2. Hungur (Gaki):
Neikvætt: Þrá, hungur og grægði. T.d. þrá eftir auði, völdum, eða að stjórna öðrum. Þetta ástand getur leitt til þjáninga, heftingar á vexti og þroska og sjálfstortímingar vegna stjórnsleysis og óseðjandi hungurs.
Jákvætt: Vilji til að skapa eitthvað, þrá að láta í ljós þakklæti, ástúð og umhyggju og þrá eftir réttlæti og uppljómun.
3. Dýrseðli (Chikuso):
Neikvætt: Mannveran stjórnast af fáfræði, þekkingarleysi og eðlisávísun.
Frumskógarlögmálið er í gildi. Þetta ástand birtist gjarnan á vinnustað og í stjórnmálum.
Jákvætt: Einstaklingurinn gætir sín á hættum lífsins og sér um sína.
4. Reiði (Shura): Ástand sem stjórnast af sjálfselsku. Fólk, sem temur sér reiði lifir oft í þeirri blekkingu að það sé æðra öðrum, en í raun er líf þeirra innst inni, lítilfjörlegra og þrengra en annarra.
5. Rósemi (Nin): Þetta ástand er mannlegast og það lífsástand sem fólk þráir oftast.
Neikvætt: Erfitt að halda þessu ástandi lengi í einu og ekki æskilegt því fólk getur orðið ábyrgðarlaust og kærulaust til lengri tíma. Hugsanir á borð við:"Þetta reddast allt”, eða “það kemur ekkert fyrir mig”, geta tekið yfir.
Jákvætt: kyrrð og ró, og að ná valdi yfir þrám og eðlishvötum.
6. Algleymi (Ten): Í þessu ástandi er manneskjan létt í hjarta og fullnægð, hefur fengið
fengið óskir sínar uppfylltar, og hvert augnablik er stórkostlegra en það síðasta. Lífsástand sem flestir sækjast eftir.
Neikvætt: Mannvera í svona ástandi getur auðveldlega hrapað niður í heim hungurs ef hún gætir sín ekki. Algleymisástandið eyðir lífsorku manna.
Jákvætt: eru gleði gagnvart lífinu (ekki varanleg), þakklæti og auðvelt að taka ákvarðanir.
7. Fræðsla (Shomon): Með þessu ástandi er upphaflega átt við, að hlusta á kenningar búdda. Einstaklingur, sem er í fræðsluheimi einbeitir sér að námi og fræðslu.
Neikvætt: getur leitt til hroka og yfirborðsmennsku.
Jákvætt: við getum notfært okkur aukna þekkingu til gæfu fyrir mannkynið.
8. Innsæi (Engaku): líkist að mörgu leyti fræðsluheimi en innsæi er auk þess sjálfsvakning í lífi okkar eða umhverfi. Þeir sem eru í þessu ástandi hafa mikið innsæi í vissa þætti tilverunnar.
Neikvætt: Hætta á að líta niður á annað fólk og jafnvel sniðganga það, hlusta gjarnan á aðra aðeins til að gagnrýna það sem þeir segja og halda sínum eigin skoðunum til streitu.
9. Bodhisattva (Bosatsu): Þetta ástand er stundum nefnt gæskuástandið, því það miðar að því að lina þjáningar annarra. Búddaeðlið birtist í Bodhisattvaheiminum.
Neikvætt: fólk eyðir stundum upp sinni eigin lífsorku.
Einstaklingar sem eru í þessum heimi geta átt það á hættu að álíta sig öðrum æðri.
Jákvætt: markmið er að veita öðrum manneskjum varanlega hamingju og sýna umhyggju, virðingu og skilning.
10. Búddaeðli (Butsu): Til að lifa hamingjusömu og fylltu lífi, sem er óhagganlegt, þurfum við trausta og trygga undirstöðu. Slíka undirstöðu er að finna innra með okkur og hvergi annars staðar. Þetta er kjarni lífsins eða búddaeðlið, sem við höfum öll innra með okkur.
Þessi óendanlega lífsorka er í öllum mönnum og hana er hægt að virkja með því að ástunda búddisma Nichiren Daishonin. Þessi orka er svo kraftmikil, að hún getur breytt öllum neikvæðum viðhorfum fyrstu níu heimanna til jákvæðrar afstöðu. Að breyta eitri í meðal.
Vona að þið hafið gagn og gaman af:-)
Njótið helgarinnar.
Sandra