Saturday, June 12, 2021

Um

 miðjan apríl voru Jói og strákarnir sendir í sóttkví vegna stórs hópsmits hjá nemendum og starfsfólki á leikskólanum hans Birgis. Birgir okkar (5 ára) greindist svo með Covid tveim dögum seinna 😢 og þá voru þeir allir komnir í rúmlega tveggja vikna einangrun. En sem betur fer var hann næstum einkennalaus og  hress og kátur allan tímann. Aðrir í nærfjölskyldunni greindust sem betur fer neikvæðir..

En nú eru allir fjölskyldumeðlimir ýmist hálf- eða fullbólusettir og ástandið hér á Fróni lítur vel út.. 

Tölur dagins:

104 eru í sóttkví, 43 eru í einangrun, 1 er á sjúkrahúsi og engin smit greindust í gær. 

317.082 skammtar alls af bóluefni hafa verið gefnir,  214.971 einstaklingar hafa fengið að minnsta kosti einn skammt og 128.645 einstaklingar eru fullbólusettir. 

Það á að létta á takmörkunum 15. júní og gildir það til 29. júní en eftir þann tíma er stefnt á að aflétta öllum takmörkunun ef allt gengur vel..

Í dag miðast samkomutakmarkanir við 150 manns..

 Helstu breytingar á samkomutakmörkunum eftir 15. júní:

  • Almennar fjöldatakmarkanir 300 manns. Börn fædd 2015 og síðar áfram undanþegin.
  • Nándarregla einn metri í stað tveggja.
  • Sitjandi viðburðir: Engin krafa um nándarmörk. Áfram grímuskylda og að hámarki 300 manns í hverju sóttvarnahólfi. Með sitjandi viðburðum er átt við leikhús, íþróttaviðburði, athafnir trúar- og lífsskoðunarfélaga, ráðstefnur og fundir.
  • Veitingastaðir: Opnunartími veitingastaða lengist um klukkustund, frá kl. 23 til miðnættis. Gestir þurfa að hafa yfirgefið staðinn fyrir kl. 01.00.

 Auk þess er grímuskyldu  að mestu leyti aflétt, búið er að opna sundstaði og líkamsræktastöðvar án takmarkana og skólastarfið þessa síðustu daga var að mestu leyti án takmarkana og gilti það bæði um nemendur og starfsfólk og því máttum við starfsfólkið loksins hafa sameiginlega viðburði, fundi og fara í ferðalag. Það var líka gaman að geta loksins farið með nemendum í ferðir, haldið leiksýningar, haft þemadaga og boðið foreldum á skólaútskriftir :-) Til merkis um það hversu skrýtin þessi skólavetur var má til gamans geta að við sem unnum í 1. bekk í vetur vorum að hitta foreldra í fyrsta skipti á skólaslitum..

Já, árin líða hratt. Gunnar útskrifaðist úr 5. bekk á fimmtudaginn og Birgir útskrifaðist úr leikskólanum í gær og byrjar í grunnskóla í haust😀

Í gær fór ég með vinnufélögunum í flotta og skemmtilega vorferð:-)

Dagurinn byrjaði á því að við mættum um kl. 08:00, unnum í c.a. tvo tíma, fengum okkur svo morgunmat, spjölluðum  og fórum í leiki í skólanum. Síðan var öllum smalað upp í rútu og leiðin lá upp að Gljúfrasteini, heimili Halldórs og Auðar Laxness. Við skoðuðum safnið, fórum svo í yfirbyggt gróðurhús í Mosó, fengum okkur meira að borða og tókum því rólega í c.a. tvo tíma. Þá var aftur farið í rútuna og endað niðri í Nauthólsvík í hús sportkafarafélagsins(sama hús og ég hélt upp á 30 ára afmælið mitt) og þar var mikið fjör, matur, tónlist, spjall, trúbador, söngur, dans, hlátur, grín og almenn gleði😁.

Jamm, var komin heim um níuleytið, þreytt og ánægð eftir langan og frábæran dag..

Nóg í bili, hafið það sem best um helgina..