Friday, December 30, 2022

Notalegt

 að vera í jólafríi😀. 

Við náðum að gera ýmislegt skemmtilegt í skólanum á aðventunni, nemendur í 5. bekk voru með Lúsíusýningar í salnum, börn og fullorðnir fengu jólamat, nemendur í 1. bekk ásamt nokkrum nemendum á elstu deild leikskólans fengu að heyra jólasögu í salnum og nemendur á miðstigi voru með jólakózý og bíómynd í salnum. Síðasta daginn fyrir jólafrí var haldið jólaball fyrir alla nemendur í nokkrum hollum og í hádeginu komu allir starfsmenn saman á sal og fengu góðan jólamat og jólagjafir😊

Ég fór með samstarfsfélögum í frístundinni á skemmtilegan jólahitting 10. desember. Við hittumst í Minigarðinum, horfðum á fótboltaleik, fengum okkur að borða, fórum í pakkaleik og enduðum svo í minigolfi, mikið stuð, hlátur og stemming það kvöld😎

Rétt fyrir jól fengum við þær fréttir (sem komu ekki á óvart) að mygla hafi fundist í húsnæði frístundarinnar og verður fróðlegt að sjá hvað gerist í þeim málum eftir áramót.. Einnig eigum við eftir að fá frekari fréttir af myglumálum í skólanum..

Miðvikudaginn 21. des hitti ég Heiði vinkonu í okkar árlega jólahitting. Að þessu sinni fórum við á veitingastað niðri í bæ, fengum okkur góðan mat og kaffi og skiptumst á gjöfum, fínasta samverustund:-)

Það er búið að vera mikið um allskonar veikindi í þjóðfélaginu í nóvember og desember og verður væntanlega áfram næstu vikur, Kóvid, flensa, magapestir, öndunarfærasýkingar. RS vírus, streptókokkar og nóróveira og ástandið á bráðmóttökunni, spítölum, heilsugæslunni og Læknavaktinni hefur aldrei verið svona slæmt...

Á föstudagskvöldinu 16. des byrjaði að snjóa og þegar við vöknuðum morguninn eftir var allt á kafi í snjó. Fórum út á bílaplan og þar náði snjórinn mér upp á hnjám! Það var allt meira og minna ófært á stórhöfuðborgarsvæðinu og ekkert annað að gera en að taka því rólega heima með kakó og sjónvarpsglápi.. Daginn eftir kom grafa til að moka bílaplanið og götuna þannig að við komumst  sem betur fer í vinnuna á mánudeginum.. Það er líka búið að vera mikið frost 2-25 gráður í nokkrar vikur, en það á sem betur fer að hlýna eftir áramót.. En veðrið og snjókoman hefur sett mikið strik í reikninginn víða um land undanfarna daga, einkum þó á Suðurlandi, Austfjörðum, Suðvesturlandi og Suðausturlandi, ófærð, rafmagnsleysi,  samgöngur á landi og lofti farið úr skorðum og fólk hefur sumstaðar þurft að moka sig út úr húsum sínum😒 Og ekki er allt búið enn því það er spáð mikilli snjókomu og vindi í nótt, fyrramálið og um miðnætti annaðkvöld svo fólk er beðið um að sinna ferðalögum og erindum í dag og óvist er hvernig fer á morgun með brennur, flugeldaskot og áramótapartý og hittinga..

Aðfangadagur var rólegur, við vorum tvö í kotinu, fengum okkur lambahrygg og meðlæti og horfðum á sjónvarpið.. 

26. des var hér fullt hús af fólki í jólamat og pakkastuði. Ég, Gunni, mamma, Jói, Gunnar, Birgir, Sara, Balti og Alexander(synir Söru). Við borðuðum hamborgarahrygg, meðlæti og ís og svo var mikið stuð hjá fjórum drengjum 6-12 ára að opna pakkana😁


 

Ég fékk fínustu gjafir: gjafakort, sængurföt, bækur, vettlinga, sápu, krem, veski, ilmkúlur, sælgæti, kerti og servéttur.. takk fyrir mig..

Í gær var jólakaffiboð hjá Sigga Barða(bróðir mömmu) og fórum við mamma þangað. Þetta var fyrsta jólaboðið eftir Covid og var fínt að hitta fólkið og spjalla aðeins:-)

Rólegheit í dag og svo erum við boðin til Jóa og co annaðkvöld í mat :-)

Læt þetta nægja í bili, hafið það sem best um áramótin og farið varlega..

Sandra lata..

Tuesday, December 06, 2022

ýmislegt

 fljótlega eftir vetrarfrí var viðgerðum að ljúka á neðri hæð skólans og nú eru ritari og stjórnendur aftur fluttir í rýmin sín. Ennþá eru framkvæmdir í gangi bæði í rými á neðri hæð sem og á efri hæð þar sem 4. og 5. bekkur er með stofur og eru þau nú með aðstöðu í Herkastalnum og verða þar allavega fram að jólum..

31. október hitti ég gömlu kórfélaga mína úr Borgarkórnum:-)   Það hefur verið hefð í þónokkur ár að hittast í desember,og syngja saman jólalögin sem við sungum á sínum tíma  en þar sem Sigvaldi kórstjóri og Lína voru að fara í nokkra mánaða ferð erlendis í byrjun nóvember  ákváðum við að hittast snemma þetta árið..Vorum 20-25 manna hópur sem hittist heima hjá Sigvalda, sungum, fengum okkur kaffi og meðlæti og áttum skemmtilega stund saman:-)

Gaman að segja frá því að í byrjun nóvember vann frístundaheimilið sem ég vinn hjá verðlaun fyrir að vera fyrirmyndar starfsstaður sem og hástökkvari ársins hjá Reykjavíkurborg😀 eftir niðurstöður skoðnakannana meðal foreldra og starfsmanna . Við fengum heimsókn frá Skóla- og frístundasviði á vinnustaðinn þar sem við fengum afhent viðurkenningaskjöl, blóm og köku:-)  



Ég og Heiður áttum kózýkvöld 19. nóv, fengum okkur pizzu og horfðum á ágætis jólamynd á Netlix:-)

Laugardaginn 26. nóv fórum við með strákana í bíó og fengum okkur svo að borða á Stælnum:-) Birgir mátti  gista hjá vini sínum og var spenntur fyrir því svo við keyrðum hann þangað en Gunnar kom með okkur í Mosó og gisti hér.. Um hádegi daginn eftir skutlaði Gunni honum heim þar sem Gunnar átti að keppa í fótboltaleik síðar um daginn. Við fórum svo og horfðum á leikinn og Gunnar skoraði flott mark úr aukaspyrnu:-) leikurinn var spennandi og liðin skiptumst á mörkum, en niðurstaðan var að Gunnar og félagar töpuðu með einu marki..

Föstudaginn 2. des var komið að jólamatnum með vinnufélögum í grunnskólanum :-) Að þessu sinni fórum við á veitingastaðinn Haust í Þórunnartúni..  Vorum þarna rúmlega 50 manna hópur, góð mæting, enda ekki búið að vera jólahittingur síðan 2019.. Mættum á milli 18:00 og 19:00, fengum góðan mat og það var ágætis úrval á þessu jólahlaðborði. Vorum líka með happdrætti og skemmtiatriði og sátum í góðu yfirlæti, söngur, spjall og hlátur til rúmlega 23:00:-)

Sunnudaginn 4. des var komið að jólasöngsdegi með Mosfellskórnum😉 Sungum fyrst hálftíma prógramm úti í jólagarðinum í Mosó kl 16:00 í smá úða og kulda og var ég orðin frosin á tánum eftir það:-) Síðan lá leiðin í Ikea þar sem við sungum klukkutíma prógramm og var ég komin heim um kvöldmatarleytið útsungin eftir ágætis dag.. En það gekk allt vel, góð mæting hjá kórfélögum og hljóðkerfið virkaði vel eftir smá stillingar..

Jamm, svona er nú staðan í sveitinni þessa dagana, erum búin að setja nokkrar jólaseríur í gluggana sem er notalegt í þessu myrkri. Það er búið að vera fínt veður undanfarnar vikur, hiti, rigning, sól, vindur og logn, en það er eitthvað að breytast núna, komið smá frost, kuldi og héla og það á bara að aukast næstu daga;-(

Nóg í bili, farið vel með ykkur

Sandra lataskata..