Saturday, December 31, 2011

Áramót

já, nú er árið 2011 að verða búið...
viðburðaríkt, fjölbreytt, frábært, rólegt, fallegt, erfitt, skemmtilegt, yndislegt og gott ár að kveðja okkur:-)
verður gaman að sjá hvað nýja árið ber í skauti sér:-)

Ég er búin að upplifa margt á þessu ári, hef verið að rifja það upp og setti saman smá áramótaannaál:-)
finnst nefnilega gaman að lesa seinna hvað hefur á daga mína drifið í gegnum árin:-)

Vil samt byrja á að tala aðeins um áramótin 2010 þar sem þau líkjast mjög þessum áramótum:-)
Við Gunnar Aðalsteinn vorum saman á síðsta degi árins 2010 og fyrsta dag ársins 2011. Hann gisti hér aðfaranótt gamlársdags, þ.e. 30. des og við höfðum það notalegt saman það kvöld. Gunnar vaknaði snemma á gamlársdagsmorgun glaður og hress svo gamla frænka dreif sig framúr og sinnti honum þar til Lára vaknaði og svo fóru þau heim um hádegið. Jói, Lára og Gunnar komu svo aftur til okkar á nýjársdag og Gunnar gisti hjá okkur 1. og 2. jan 2011. Jói og Lára voru líka hér þann tíma en þau komu og fóru vegna vinnu og fleira. Já þetta voru yndislegar og góðar samverustundir:-)

Hefst þá annállinn fyrir árið 2011:

Janúar og febrúar: Ég átti góðar samverustundir með fjölskyldu og vinum. Ég átti 5 ára Gohonzon afmæli 1. jan og fór á nýjársgongyo, fór á fundi, kyrjanir og í bíó. Byrjaði aftur að stunda reglulega líkamsrækt og hreyfingu eftir smá letikast, enda þýddi ekkert annað en að standa sig þar sem ég var annar af tveimur liðsstjórum í vinnunni í vinnustaðaleik Lífshlaupsins. Fjölskyldan fór út að borða á Hamborgarafabrikkunni í tilefni eins árs afmæli Gunnars Aðalsteins sem átti afmæli 11. febrúar. Laugardaginn 19. febrúar var fjöldakyrjun og kynningarfundur hjá búddistum í SGI á Íslandi og þar var ég með mína fyrstu reynslu á stórum sameiginlegum fundi um það hvað búddisminn hefur gert fyrir mitt líf og upplifun mína af búddisma. Laugardaginn 26. febrúar útskrifaðist ég loksins með diplómagráðu í meistaranáminu, hélt smá veislu hérna heima og fór svo með dömunum í vinnunni á Góugleði í fyrsta skipti, mikið fjör, góður matur, appelsínugult þema og ball með Páli Óskari:-)

Mars, apríl og maí: fór á skrínlagningu, var mikið í ábyrgð í búddismanum, fór í starfsmannaviðtal, páskafrí, djamm, bíóferðir, tölvuhangs, farið í afmæli og heimsóknir, leikfimi, kyrjanir, fundir, búðarrölt, kaffihúsaferðir, passaði Gunnar Aðalstein og átti góðar samverustundir með fólkinu mínu:-)

Júní: Föstudaginn 3 júní var starfsdagur í vinnunni sem gekk vel og seinnipartinn var farið í óvissuferð með vinnufélögum.
Við hittumst hjá Kríunesi(sem er í Vatnsendahverfinu) um kl 18:00 og gengum af stað, fórum í þrautir og spurningakeppni og komum við í hesthúsi sem ein úr hópnum á. Síðan héldum við áfram gönguferðinni og enduðum heima hjá skólastjóranum þar sem við fengum okkur að borða, spjölluðum og hlógum mikið. Um kl 22:00 kom leynigestur kvöldsins sem var Sigríður Klingenberg hin eina sanna. Hún var með spil og steina sem hún lét okkur draga, las úr bókinni sinni, spáði fyrir okkur, hreinsaði áruna, útskýrði spilin og steinana, sagði ýmislegt jákvætt, fallegt, alvarlegt, búddískt, hvetjandi og fyndið um lífið og tilveruna, djókaði og fíflaðist og þjappaði hópnum saman. Morguninn eftir tók ég þátt í Kvennahlaupinu, var ánægð með mig að fara 7 km eftir frekar litla þjálfun og kom í mark á fínum tíma, fór á kyrjanir, fundi, afslöppun, djamm, leikfimi, sumar og sól:-)

Júlí: Keyrði í glampandi sólskini og logni til Stykkishólms, tók Baldur yfir Breiðafjörð og fór á fjölmennt og skemmtilegt ættarmót í sveitinni á Barðströnd, var í sumarfríi, hélt tvisvar sinnum upp á 35 ára afmælið mitt, í fyrra skiptið var lítil veisla hér heima fyrir nánustu fjölskyldumeðlimi og tveim dögum seinna var ég með partý í sal niðri í bæ fyrir vini og ættingja. Það var stórskemmtilegt og fjörugt djamm. Í lok júlí fórum við vinkonurnar í frábæra sumarbústaðaferð þar sem við vöktum fram á nótt við spilamennsku, heitapottsferð, spjall og krúsing. Ég var líka í sólbaði, afslöppun, kyrjaði, fór út að skokka og í gönguferðir, undirbjó mig undir 10 km hlaupið og passaði yndislega litla frænda minn. Við horfum mikið á Stubbana, fórum á róló og í gönguferðir, veltum okkur í grasinu, hlógum, lékum okkur, áttum kennslustundir við eldhúsborðið, hann er mjög duglegur að mata sig sjálfur með skeið og áttum góðar og notalegar stundir:-)

Ágúst: Leti, sofið út, vinkonuhittingur, farið á kaffihús og heimsóknir, lesið, kyrjað, tekið til, hangið í tölvunni, farið í sund og leikfimi, horft á vídeó, farið í bíó, bæjarrölt og undibjó mig undir verkfall leikskólakennara sem ekkert varð svo úr. Laugardaginn 6. ágúst fór ég út að borða með vinkonum í tilefni afmælis Heiðar vinkonu sem endaði með "stóla og súludansi" á diskóteki niðri í bæ:-) Laugardaginn 20.ágúst vaknaði ég snemma í frábæru veðri, sól og sumri. Ég fékk mér að borða, fór í sturtu, klæddi mig í hlaupagallann og fór svo niður í miðbæ þar sem samkomin voru fleiri þúsund manns, hlauparar, starfsfólk og áhorfendur, þar sem ég var að taka þátt í 10 km hlaupi í Reykjavíkurmaraþoninu. Hlaupið gekk vel, mikil stemming og fjör og ég kom í mark á harðaspretti á svipuðum tíma og í fyrra, glöð og ánægð með mig. Seinnipartinn fór ég svo í brúðkaup hjá Védísi frænku minni og Breka. Athöfnin var falleg, hjartnæm og glaðleg, grín inn á milli í ræðu prestsins og Ragnheiður Gröndal og Friðrik Dór sungu falleg og yndisleg lög. Að athöfn lokinni var haldið í félagsheimili Fáks í Víðidal sem sem var haldin um 170 manna veisla. Þetta er eitt af skemmtilegri brúðkaupum sem ég hef farið í, það var mikið hlegið, fyndar ræður og skemmtiatriði og svo var dansað langt fram á nótt í frábærri stemmingu undir tónum hljómsveitarinnar Sixties. Við vorum með þeim seinustu að fara heim rétt fyrir klukkan 3 en fórum samt á undan brúðhjónunum:-)

September og október: Fór í villt partý hjá vinnufélögum, tók að mér að sjá um sérkennslu í vinnunni og fór á erfitt, merkilegt og flott búddistanámskeið á Hótel Hamri við Borgarnes. Þann 11. september áttum við Mosófólkið svo góðan og skemmtilegan dag með Gunnari Aðalsteini. Við vorum nefnilega að fara í fyrsta skipti með hann í Húsdýragarðinum svo þetta varð hálfgerð ævintýraferð:-)
Við sáum dýrin, kíktum í Vísindatjaldið, fengum okkur að borða í kaffihúsinu, skelltum okur í lestarferð og lékum okkur í leiktækjunum í Fjölskyldugarðinum. Ég veit ekki hver skemmti sér best, en þetta var æðisleg upplifun, mikið að sjá og skoða, það var gott veður og ferðin gekk mjög vel og það var mikið hlegið og brosað:-)

Nóvember: Byrjaði að undirbúa jólin, keypti nokkrar jóla og afmælisgjafir, yndisleg fjölskylduferð niður á Austurvöll að horfa á þegar ljósin á jólatrénu voru tendruð og svo kaffihúsaferð á eftir, skemmtilegur saumaklúbbur hjá Ármúlagellunum, náttfatadagur í vinnunni, partý og heimsóknir.

Desember: Fékk fastráðningasamning í vinnunni, vinavika í vinnunni, jólamatur og skemmtun með vinnufélögum, jólaball, notaleg aðventa og jólaundirbúningur, hitti Hebu, Elínu og krakkana sem voru í heimsókn á landinu, fór í heimsóknir til fólks sem ég hef ekki séð lengi, jólasveinaferð, jólakort, jólasaumaklúbbar, klipping, tannlæknir, bakaði smákökur nokkrum sinnum, bókalestur, jólaboð, yndislegt aðfangadagskvöld, jólapakkaflóð, afslöppun, snjómokstur, sjónvarpsgláp, bíóferð, búddistafundur, nóg að borða, rólegheit og notalegar samverustundir með fjölskyldu og vinum:-)

Eins og ég sagði í upphafði þá eru þessi áramót svipuð seinustu áramótum að sumu leyti og því ætla ég að ljúka annálnum á því að segja frá 30. des-31. des 2011.
Í gærkvöldi eyddum við Gunnar Aðalsteinn saman kvöldinu, en að þessu sinni vorum við heima hjá honum þar sem Jói og Lára voru á spilakvöldi hjá vinum sínum:-)
Við Gunnar Aðalsteinn skemmtum okkur vel, horfðum saman smástund á myndina ET, lásum sögu upp í rúmi, sungum og lékum okkur í bílaleik:-)

Ekki fékk ég að sofa út í dag 31. des, því klukkan 09:00 í morgun var grafa úti á bílaplani að byrja að skafa planið:-)
Það voru allir íbúarnir sem náðist í ræstir út til að moka og færa bílana og vorum við úti í næstum klukkutíma. Ég náði nokkrum myndum af þessu "hópefli" og setti þær í myndasafnið..
Að þessu loknu fórum við í búðina til að klára að kaupa í matinn og svo lagði ég mig aftur eftir hádegið:-)

Jæja krúttin mín:-)
Ég þakka ykkur kærlega fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða og vona að þið eigið farsælt, gott, fallegt, viðburðarríkt og frábært ár framundan og gangi ykkur allt í haginn á árinu 2012:-)
Gangið hægt um gleðinnar dyr og skemmtið ykkur vel og fallega í kvöld:-)



Risaknús og kossar..
Sandra

Monday, December 26, 2011

Jólin

eru yndisleg:-)
leti, svefn, lestur góðra bóka, jólaboð, nóg að borða, samverustundir og rólegheit..

Aðfangadagskvöld var skemmtilegt, yndislegt, notalegt, hlátur, gleði, samvera og frábær upplifun:-)

Vorum 8 saman heima hjá Jóa bróður, Láru og Gunnari Aðalsteini, ásamt þeim var ég, mamma, Gunni, Jón og Sif (foreldrar Láru). Við borðuðum gómsætan mat, súpu og hamborgarhrygg ásamt meðlæti og jólaöli og fengum svo konfektköku og kaffi í lok kvöldsins. Það var pakkaflóð undir trénu og ég held að Gunnar Aðalsteinn hafi verið rólegastur af okkur í pakkafjörinu:-)
Hann var rólegur, glaður og yndislegur allt kvöldið, hafi gaman af dótinu sem hann fékk, en var orðinn frekar þreyttur, eins og reyndar fleiri í fjölskyldunni þegar veislunni var að ljúka um kl 11:30:-)

jamm þetta var yndislegt kvöld, mikið hlegið, spjallað og borðað og ég hef aldrei verið svona lengi frameftir á aðfangadagskvöld, sem var bara ágætis tilbreyting, en ég var samt alveg búin að því þegar ég kom heim eftir miðnætti:-)

Tók fullt af myndum sem má finna á myndasíðunni undir albúminu "24 des 2011".

Kærar þakkir fyrir allar gjafirnar og kortin:-)
fékk allskonar dót í jólagjöf: bækur, bæði Arnald og Yrsu, náttföt, sokka, hárband, eyrnalokka, ilmvatn, sápur, sjampó, hárnæringu, hand og líkamskrem, baðsalt, líkamsskrúbb, helling af konfekti og allskyns nammi, tónlistardiska, kertastjaka, styttu, myndakort, köku og gjafakort:-)

Vaknaði um hádegi á jóladag við símhringingu frá fólkinu mínu í Noregi, þaðan var allt gott að frétta og allir hressir og glaðir:-)

Var að dunda í tölvunni í gær, setja inn myndir og fleira, lagðist svo aftur upp í rúm, las aðeins og lagði mig og fór svo að taka mig til fyrir jólaboðið hjá afa.

Fór í sturtu, klæddi mig og setti á mig glingur, náði í mömmu og við fórum saman í veisluna. Komum frekar snemma að þessu sinni og fáir komnir, en svo týndust ættingjarnir inn einn af öðrum:-)
fengum hangikjet og meðlæti, konfekt, kaffi og ís..

Börnin voru kát og fjörug en ég náði þó nokkrum myndum af þessum elskum við ýmsa iðju, t.d. að hoppa í rúminu, leika sér, horfa á sjónvarpið, í fanginu á foreldrunum eða afa og ömmu, við matarborðið og á hlaupum um ganginn:-)

Myndirnar má sjá á myndasíðunni hér til hliðar.
Þar má líka sjá myndir frá jólaboðinu í fyrra sem ég af einhverri ástæðu hafði ekki sett inn fyrr...

Jamm þetta var fínasta jólaboð og gaman að hitta ættingja sem maður hittir ekki svo oft:-)

Veðrið er búið að vera hálfskrýtið, það hefur skipst á rigning, skafrenningur, þýða, hálka, haglél og frost. Núna er allt hvítt úti, smá vindur og kalt..

Í dag er mikill letidagur, ætla ekki út úr húsi, er á náttfötunum, hangandi í tölvunni, er að þvo þvott, lesa Arnald og ætla kannski að leggja mig meira:-)

Svo er bara vinna strax á morgun svo það er um að gera að taka því rólega í dag, en það verður lengra jólafrí á næsta ári:-)

Læt þetta nægja í bili, hafið það gott í dag og farið varlega í umferðinni..

Vil enda á leiðsögn frá Ikeda forseta SGI um gleði og bjartsýni..

5.nóvember

Það er mikilvægt að lifa gleðiríku lífi. Með sterkum anda bjartsýni, þurfum við stöðugt að geta beint hugum okkar í bjarta, jákvæða og ábatasama átt og hjálpa þeim sem í kringum okkur eru að gera slíkt hið sama. Við ættum að leggja okkur fram við að öðlast lífsástand þar sem við finnum fyrir gleði sama hvað gengur á.

Þýtt úr For today & tomorrow, daily encouragement, Daisaku Ikeda

Saturday, December 24, 2011

aðfangadagur

Krúttin mín nær og fjær:-)

Ég óska ykkur gleðilegrar hátíðar. Ég vona að þið finnið hvíld, frið, kærleika, gleði, ró og hamingju og að þið eigið yndislegt kvöld með fjölskyldu, vinum, ykkur sjálfum og/eða öðrum:-)
Njótið þess nú að borða góðan mat og annað góðgæti, gefa og fá fallega pakka, og hvíla ykkur á sál og líkama :-)

Risajólaknús til ykkar;-)
Kveðja
Sandra

Friday, December 23, 2011

Þorláksmessa

jamm, þetta er allt að koma:-)

Komin í smá jólafrí, jólin á morgun, notalegar stundir og samvera með fjölskyldu, nóg að borða, jólagjafir, nýbakaðar smákökur í boxi, konfekt, kaffi, bókalestur, þvottur, svefn og leti framundan næstu 3 daga:-)

Vona að þið njótið kvöldsins hvað svo sem þið eruð að bardúsa s.s. í skötuveislu, í friðargöngu, búðarrápi, elda matinn, á kaffihúsi, í afslöppun, að skreyta jólatréð, pakka inn gjöfum, þrífa, glápa á sjónvarpið eða bara eitthvað allt annað:-)

vil setja hér inn eitt flott lag með snillingunum í Baggalúti í tilefni dagsins:-)



vil enda á fallegri leiðsögn frá Ikeda.

25.desember

Ef manneskja er svöng, ættum við að gefa henni brauð. Ef það er ekki til brauð, getum við að minnsta kosti gefið orð sem næra. Við manneskju sem lítur illa út eða er líkamlega veikbyggð, getum við leitt samæðurnar að einhverju umræðuefni sem lyftir anda hennar og fyllir hana af von og þeirri ákveðni að láta sér batna. Gefum hverri manneskju sem við hittum eitthvað: gleði, kjark, von, uppörvun, lífsspeki, visku, sýn fyrir framtíðina. Við skulum alltaf gefa eitthvað.

Þýtt úr For today & tomorrow, daily encouragement, Daisaku Ikeda

If a person is hungry, we should give them bread. When there is no bread, we can at least give words that nourish. To a person who looks ill or is physically frail, we can turn the conversation to some subject that will lift their spirits and fill them with the hope and determination to get better. Let us give something to each person we meet: joy, courage, hope, assurance, or philosophy, wisdom, a vision for the future. Let us always give something.

hafið það gott og passið ykkur á jólastressinu, umferðinni og vonda veðrinu...
kv. sandra jóló:-)

Tuesday, December 20, 2011

jæja

þá mega jólin koma:-)

Öllum jólaundirbúningi er lokið hér á bæ, búið að þrífa, skreyta jólatréð og setja undir það nokkra pakka, jólakort innanlands og pakkar til útlanda löngu farnir í póst, jólaskrautið komið á sinn stað, búið að halda jólasaumaklúbb og fara í jólasveinaferð til vina, búið að kaupa allar jólagjafir og pakka þeim inn, ég er búin að baka nokkrum sinnum en það var nú fljótt að klárast næstum jafnóðum:-)
langt síðan við höfum klárað undirbúning svona snemma og ég hef notið aðventunnar óvenjulega lengi og vel þetta árið sem er bara notalegt og skemmtilegt:-)
og nú er bara allt í rólegheitum hér í sveitinni:-)

Að þessu sinni verðum við á aðfangadagskvöld hjá Jóa bróður, Láru og Gunnari litla frænda(22 mánaða) sem verður án efa skemmtileg, öðruvísi og yndisleg upplifun og stemming:-)
að fylgjast með litlum og skemmtilegum ungum manni að opna pakka, ásamt eldra fólkinu líka að sjálfsögðu:-)
já það er þónokkur tilhlökkun í Mosóbúum fyrir þessu kvöldi:-)

Læt þetta nægja í bili..
eigið yndislega viku og njótið samverustunda með fjölskyldu, vinum og vinnufélögum, þetta eru nefnilega dýrmætar minningar sem við sköpum og eignumst á hverjum degi:-)

Vil enda á leiðsögn frá Ikeda:

7. desember

Það er hjartalag okkar sem breytir hjartalagi annarra. Vinskapur breytir fólki. Ferðalangar sem draga herðaslár sínar yfir sig og berjast ákveðið á móti köldum vindi slaka sjálfkrafa á og yfirbragð þeirra og framkoma breytist þegar sólin yljar þeim.

Þýtt úr For today & tomorrow, daily encouragement, Daisaku Ikeda

It is our hearts that change others' hearts. Friendship changes people. Travelers who pull their capes over their shoulders and brace themselves determinedly against the cold wind naturally relax and change their outlook and actions when warmed by the sun.

Saturday, December 10, 2011

það

var mikil vinkonudagur í dag:-)

fór í hádeginu á kaffihús niðri í bæ til að hitta vinkonur mínar þær Heiði og Guðrúnu. Hún Gyða er líka í saumaklúbbnum en forfallaðist því miður.
Við vorum nefnilega að halda árlega jólasaumaklúbbinn eða "litlu jólin" okkar í dag:-)
Við fengum okkar að borða og sátum í góðum gír í rétt um tvo tíma, hlógum, spjölluðum, skiptumst á jólapökkum og höfðum það kózý:-)

Að því loknu fóru þær stöllur á búðarráp á Laugaveginum en ég hélt áfram í meiri vinkonuhitting og lagði leið mína upp í Breiðholt heim til Þórunnar sem ég hitti oft í "gamla daga":-)

Vinkonur mínar Heba og Elín búa í Finnlandi en eru í heimsókn þessa dagana á Fróni með börnin sín og við hittumst sem sagt í dag heima hjá Þórunni:-)
það var mjög gaman að hitta þær allar, hlæja saman, kjafta, borða kökur og fylgjast með börnunum sem eru á aldrinum 7 mánaða til 3 ára:-)
ég tók líka nokkrar myndir sem má finna á myndasíðunni..

ég var með þeim í c.a. tvo tíma, fór svo heim, lagði mig og horfði svo á sjónvarpið...

Jamm góður, skemmtilegur og yndislegur dagur að kveldi komin og samverustundir dagsins safnast í minningarbankann:-)

Vil enda á gullkorni um vinkonur eftir Arthur Benson úr bókinni Vinir.

" Af því þú átt þér vinkonu, er líf þitt virkara, fyllra og yndismeira fyrir það að hún er til, hvort heldur hún er þér nær eða fjær. Sé hún nærri þá er það best, en sé hún fjarri er hún þó enn í huga þér og hugur þinn fylgir henni, þú heyrir frá henni, skrifar henni, deilir með henni lífinu og lífsreynslunni, lýtur henni og virðir hana, dáir og elskar."

Wednesday, December 07, 2011

bara jólastuð hér á bæ þessa dagana:-)

bara rólegt hjá mér núna og allt í flæði, vinna á daginn og svo oftast rólegheit á kvöldin, en þó er stundum eitthvað um að vera á kvöldin og um helgar, t.d. búddistafundir, sameiginlegar kyrjanir, búðarferðir, saumaklúbbar og fallegar samverustundir með fjölskyldu og vinum:-)

Við erum líka óvenju snemma í jólaundirbúningi þetta árið sem er mjög gaman og notalegt:-)

ég er búin að kaupa hluta af jólagjöfunum, búin að senda pakkana til Noregs, búin að skrifa nokkur jólakort og bakaði eitthvað af smákökum áðan en helmingur af skammtinum er búinn:-)

um síðustu helgi tókum við svo til hérna heima og settum upp jólaskraut og falleg jólaljós en jólatréð bíður enn niðri í geymslu:-)

Framundan er eitt og annað, s.s. jólasaumaklúbbur, afmæli, klipping og búddistafundur:-)

Mér líður mjög vel þessa dagana, er róleg og í góðu jafnvægi sem er yndisleg tilfinning og nýt aðventunar óvenjulega vel núna:-)

eg er líka komin með fastráðningu í vinnunni sem veitir mér öryggistilfinningu og eru góðar fréttir á þessum tímum:-)

Læt þetta nægja í bili.
vona að ykkur líði vel, séuð hamingjusöm og heil heilsu og njótið aðventunnar, þrátt fyrir kulda, myrkur og neikvæðar sjónvarpsfréttir;-)

Jólakjólakveðja
Sandra sátta