Monday, February 01, 2016

Minningarorð um Jóa afa



Elsku afi minn.
Þú hefur verið til staðar í lífi mínu í næstum 40 ár en nú er komið að kveðjustund...
Svo margar góðar minningar koma upp í hugann, einkum þær sem tengjast dvölinni í Litluhlíð þar sem við barnabörnin komum á sumrin, hittum afa og ömmu og fengum hlaupa frjáls um í sveitinni, upp í hlíð og niður í fjöru, umgangast húsdýrin og fara í sund og týna bláber..
 Mér eru minnistæðar allar bílferðirnar sem við fórum um ströndina, keyrðum í Vaðalinn til  að kíkja á starfsemina þar, skruppum niður í fjöru þar sem kríurnar flugu reiðar yfir höfði okkar, fórum í heimsókn á bæina í kring, keyrðum í sjoppuna til Svenna á Múla að kaupa gotterí og  rúntuðum um sveitina með tónlist Gylfa Ægissonar á kassettu í bílgræjunum og sungum hástöfum með. Það var líka mikið sport að fá að sitja í hliðarsætinu á dráttarvélinni.

Ég man þegar þú settir upp rólurnar í fjárhúsinu fyrir okkur krakkana, það var rosalega gaman að róla hátt upp í loftið. Eitt sumarið var ég að hjálpa þér að hreinsa netin úti á hlaði og minnir að þú hafir borgað mér smá aur fyrir vinnuna. Man líka þegar þú slóst túnin með orfi og ljá og við krakkarnir gengum á eftir og rökuðum með hrífu og þegar verkinu var lokið lagðir þú áherslu á að snúa tindunum á hrífunni niður annars kæmi rigning...
Mér er minnistætt  þegar þú komst með belgina úr sjóferðum og ég og Ágústa skemmtum okkur vel við að hoppa og skoppa á þeim út um allt bæjarhlað.. Man líka að þú hengdir upp reyktan rauðmaga sem við fengum að smakka og harðfisk inni í skúr og ég sé þig fyrir mér þegar þú barðir harðfiskinn með hamri á steini til að mýkja hann áður en þú gafst okkur bita.
Já afi minn, það er margar góðar og fallegar bernskuminningar sem fara um hugann og ég er  þakklát fyrir þessar dýrmætu samverustundir.
Svo fluttuð þið amma suður og byggðuð hús í Logafoldinni þegar Foldahverfið var að byggjast upp og þú fórst að vinna á Essó á Ártúnshöfða og það var alltaf spennandi að kíkja til þín í vinnuna..
Á meðan þú hafðir heilsu til fórstu á vorin aftur í sveitina á heimaslóðirnar og varst fram á haust til að komast á sjóinn og í réttirnar..
Eftir að ég fullorðnaðist kíkti ég stundum á þig á sumrin þegar ég var á ferðalagi fyrir vestan og einnig voru haldin nokkrum sinnum ættarmót í Litluhlíð sem gaman var að koma á... 
Það eru líka margar minningar og samverustundir sem tengjast Logafoldinni, ég kom oft í heimsókn og átti alltaf stuðning og athvarf hjá ykkur ömmu þar..
Það var fastur liður á jóladag að koma í jólaboð í Logafoldina og hélst sú hefð fram til jóla 2015 þegar haldið var þrítugasta og síðasta jólaboðið þar á bæ..

Elsku afi ..
Hjartans þakkir fyrir að hafa verið til staðar fyrir mig og sýnt mér stuðning og aðstoð, bæði á góðum stundum sem og á erfiðum tímum...
Ég óska þér alls hins besta í nýja lífinu og veit að þú ert í góðum félagskap með Kollý ömmu og ættingjum þínum og vinum sem eru farnir úr þessu lífi.
Kær kveðja
Þín Sandra