Thursday, July 13, 2023

Fimmtudaginn

 22. júní tók ég þátt í Miðnæturhlaupi Suzuki. Það var mikil rigning og smá vindur þegar ég lagði af stað úr Mosó og mér leist nú ekki alveg nógu vel á veðrið en þegar ég kom í Laugardalinn var smá úði á köflum og lítill vindur og þannig hélst það út hlaupið sem betur fer og ég fór mína 5 km á 48-49 mínútum. Þetta var skemmtilegt hlaup, góð stemming,  mikið af fólki og alltaf gaman að taka þátt. Í  ár var 30 ára afmæli hlaupsins svo það var enn skemmtilegra þar sem flott  medalía, kökusneið, lítill snakkpoki, prótínbarstöng og orkudrykkur beið okkar þegar við  komum í mark😀

29. júní fórum við Gunni á nýjustu Indiana Jones myndina. Hún var skemmtileg, fyndin og spennandi og líkist gömlu myndunum, mæli með henni:-)

Miðvikudaginn  5. júlí hitti ég Elínu vinkonu mína sem býr í Finnlandi og dætur hennar en þær eru að ferðast um Ísland þessa dagana. Ég sótti þær á gistiheimilið og við fórum í Kringluna, kíktum í búðir,  fengum okkur að borða og áttum góða samverustund 😉


Undanfarna daga hefur verið yndislegt veður og  mikil sumarblíða í bænum, glampandi sól, 15-20 stiga hiti, þurrt og ýmist logn eða smá vindur. Ég hef verið dálítið útivið síðustu daga, farið í sund, sólbað og gönguferðir hér í kring, gengið niður að sjó og sest á stein í fjörunni, hlustað á hafið og fuglasöng, farið hring í Álafosskvosinni og laugardaginn 8. júlí var komið að gönguferð og smá klifri í Úlfarsfelli. Ég fer alltaf gönguleiðina skógræktarmegin þar sem er malarstígur og í þetta skipti var ég í góðu stuði, komst í fyrsta skipti loksins alla leið upp á toppinn og var nokkuð ánægð með mig þegar ég var komin upp, þreytt og sveitt😎



Jamm, hef líka dundað mér við eitt og annað, farið í klippingu, skroppið til mömmu í mat og kaffisopa, kíkt í búðir og farið með bílinn í skoðun.. 

Það byrjaði allt að skjálfa hér í síðustu viku það komu stórir og litlir jarðskjálftar frá 5.-10. júlí en svo byrjaði að gjósa á Reykjanesinu 10. júlí á svipuðum slóðum og gosin síðustu tvö ár.. Þetta er lítið gos núna en engin veit hvað það stendur lengi. Sem betur fer er þetta ekki öskugos eins og var þegar Eyjafjallajökull gaus um árið, en það er mikil gasmengun í þessu gosi við Litla-Hrút núna. Þótt það sé leiðinlegt að eiga á hættu að fá gosmengun yfir bæinn er það samt skárra en þessir jarðskjálftar og margir þ.á.m. ég voru fegnir þegar byrjaði loks að gjósa..

Læt þetta nægja í bili, vona að þið eigið góða daga..