Thursday, July 30, 2020

jamm

nú hefur því miður komið bakslag undanfarna daga í baráttunni við Covid hér á landi;-(
Það eru komin 29 innanlandssmit og 10 ný virk smit frá landamæraskimun..
Núna eru  39 manns eru í einangrun,  1 á sjúkrahúsi og 215 manns í sóttkví...
og það er komin upp hópsýking á Akranesi.
Einhverjir smituðust á íþróttamótum, sumir frá einstaklingum sem voru að koma frá útlöndum og enn aðrir innanlands og það er verið að leita af smitberum og tenglsum á milli þesssara smita...

Uppsafnaður fjöldi smita frá 15. júni erlendis frá skiptast þannig að 23 eru með virk smit, 2 eru að bíða eftir niðurstöðu og 96 voru með gömul smit og mótefni gegn veirunni...

 Á hádegi á morgun  taka gildi hertar aðgerðir innanlands og á landamærum vegna COVID-19
sem nær frá og með 31. júlí 2020 og gildir til 13. ágúst 2020.
Stjórnvöld endurmeta þörf á takmörkuninni eftir því sem efni standa til, þ.e. hvort unnt sé að aflétta henni fyrr eða hvort þörf sé á að framlengja gildistíma hennar. Takmörkun á samkomum tekur til landsins alls.

 Ákvörðunin er í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis sem heilbrigðisráðherra hefur samþykkt. Hertar aðgerðir fela meðal annars í sér:

• Takmörkun á fjölda sem kemur saman miðast við 100 einstaklinga. Börn fædd 2005 eða síðar eru undanskilin.

• Hvar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi verði viðhöfð sú regla að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga.

• Þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga er krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn. Þetta á t.d. við um almenningssamgöngur, þ.m.t. innanlandsflug og farþegaferjur, og starfsemi s.s. hárgreiðslustofur og nuddstofur.

• Vinnustaðir, opinberar byggingar, verslanir og þjónustufyrirtæki sem eru opin almenningi skipuleggi starfsemi sína í samræmi við ofangreint og tryggi að ekki séu fleiri en 100 einstaklingar í sama rými og að í minni rýmum séu ekki fleiri en svo að hægt sé að tryggja 2 metra fjarlægð milli einstaklinga.

• Verslanir, opinberar byggingar og þjónustufyrirtæki sem eru opin almenningi tryggi aðgang að handsótthreinsi fyrir almenning og starfsmenn við innganga og í grennd við yfirborð sem margir snerta s.s. snertiskjái og afgreiðslukassa, sinni vel þrifum og sótthreinsun yfirborða eins oft og unnt er og minni almenning og starfsmenn á einstaklingsbundnar sóttvarnir með merkingum og skiltum.

• Sundlaugar og veitingastaðir tryggi að gestir geti haft 2 metra bil á milli sín í öllum rýmum með fjöldatakmörkun í samræmi við stærð hvers rýmis.

• Sóttvarnalæknir leggur til að starfsemi sem í eðli sínu felur í sér að gestir noti sameiginlegan búnað s.s. íþróttastarf, líkamsræktarstöðvar, spilakassar og spilasalir geri hlé á starfsemi eða sótthreinsi slíkan búnað milli notenda.

• Sóttvarnalæknir leggur til að söfn, skemmtistaðir og aðrir opinberir staðir geri hlé á starfsemi sé ekki hægt að tryggja að farið sé eftir fjöldatakmörkun eða að bil milli ótengdra aðila sé yfir 2 metrum.

Aðgerðir á landamærum
Notkun tvöfaldrar sýnatöku, við komu og á degi 4-6 hefur verið útvíkkuð. Allir sem til landsins koma frá áhættusvæðum og dvelja hér 10 daga eða lengur fara í fyrri sýnatöku á landamærum og viðhafa í kjölfarið heimkomusmitgát þar til niðurstaða fæst úr seinni sýnatöku.

Þessu til viðbótar hefur Landspítalinn tekið upp hættustig og verða heimsóknir mjög takmarkaðar á spítalanum, á sambýlum og elli-og hjúkrunarheimilum.

Það er líka byrjað að skima handahófskennt á höfuðborgasvæðinu og á Akranesi, þar sem hver sem er getur átt von á því að fá boð í skimun/sýnatöku. Þetta er gert til að sjá hversu útbreitt innanlandssmitið er og verið að leita af þeim sem hafa sýkst jafnvel án þess að vita það..

Einnig hafa verið gefin út tilmæli um að fólk safnist ekki saman í útilegum og jafnvel fresti þeim ásamt því að íþróttaviðburðum fullorðina verði frestað.

Það er að sjálfsögðu búið að aflýsa fullt af bæjarhátíðum, tónleikum, skemmtunum og viðburðum út af ástandinu..

Jamm, það er verslunamannahelgi framundan og margir á faraldsfæti en vonandi verður fólk bara sem mest heima, en það er betra að grípa inní strax áður en ástandið versnar...
og áður en skólastarfið byrjar því það verður nú eitthvað ef það þarf að herða reglur enn frekar þegar það hefst...
Meira síðar...
Sandra

Monday, July 27, 2020

Ferðalag

Ég og mamma fórum Snæfellsneshringinn um helgina:-)
Ég hef ekki komið á þær slóðir í 30 ár og það var gaman að sjá og upplifa þetta fallega og fjölbreytta landslag:-)

Við lögðum af stað um eittleytið á föstudaginn í góðu veðri, sól og litlum vindi..
Stoppuðum í Borgarnesi, fengum okkur orlyfisk og franskar á Grillhúsinu og tókum bensín..
Keyrðum svo áfram og tókum klósettpásu í gestastofu Snæfellsness..
Skömmu síðar komum við að Vegamótum sem heitir núna Hótel Rjúkandi, fórum þar inn og fengum okkur kaffi og köku:-)

Síðan héldum við áfram sem leið lá og fórum sunnanvert nesið og fyrir jökul:-)
Það var stoppað á Búðum, keyrt niður að Arnarstapa og að lokum kíktum við á Hellna:-)
Um það leyti var komin aðeins meiri vindur en það hélst þurrt þar til seint um kvöldið..

Vorum komnar á Hellissand um kl 18:30..
Þar eiga Steingerður og Árni hús sem stendur við sjóinn og fengum við góðar móttökur, kvöldmat og gistingu:-)
Þetta er í fyrsta skipti sem ég kem í heimsókn til þeirra á þennan stað..

Steingerður og Árni keyptu gamla skemmu sem er rétt hjá húsinu og eru að gera hana upp og í portinu við skemmuna er listasýning..

 Tókum því rólega um kvöldið, horfðum á sjónvarpið og spjölluðum...

Vaknaði morguninn eftir og þá var veðrið orðið aðeins verra, skýjað, smá rigning og þónokkur vindur...
Fór í stuttan göngutúr í rokinu og tók nokkrar myndir..

Eftir hádegið fórum við í skoðunarferð um listasýninguna og skemmuna og síðan fórum við
öll í bíltúr um nágrennið, sáum Öndverðanes, Rif og Ólafsvík og enduðum svo á því að fá okkur kaffi og kökur á kaffihúsinu Gilbakka á Hellissandi:-)

Borðuðum kvöldmat og svo voru rólegheit fram eftir kvöldinu....

Í gærmorgun vaknaði ég snemma og fór í skoðunarferð um bæinn með Steingerði og Mola og tók fleiri myndir:-)

Eftir hádegskaffið fórum við að hugsa okkur til hreyfings enda veðrið búið að lagast mikið og lögðum við af stað um 13:30.
Keyrðum norðurleiðina, renndum í gegnum Grundarfjörð og fórum svo til Stykkishólms:-)
Komum aðeins við í bakarínu og keyptum kaffi...

 fórum skoðunarferð um bæinn, keyrðum svo til baka, fórum Vatnaleið, komum við á Vegamótum í kaffi og köku og vorum þá komnar hringinn:-)

Komum í bæinn um sexleytið, þreyttar og ánægðar með skemmtilega ferð og góðar samverustundir:-)

Í dag kíkti ég í Costco, keypti smávegis, kom svo við á þvottaplaninu og skolaði dauðu flugurnar, fuglaskítinn og sjósaltið af bílnum...

Jamm, fín helgi að baki og gott að komast aðeins í sveitina...
nóg í bili..
Sandra lúna...

Thursday, July 23, 2020

Síðastliðinn

þriðjudag fórum við Mosóbúarnir í bíltúr um Hvalfjörðinn:-)
Kíktum á skrýtin stein sem heitir Steðji og var gamall áningastaður áður fyrr..

Svo stoppuðum við í Hvítanesi þar sem herinn hafði aðstöðu í stríðinu og má þar sjá m.a. rústir af gamla bænum sem stóð þarna, herbyrgi sem stendur enn nokkuð heilt, gamla bryggju sem er hrunin og húsgrunna þar sem braggarnir stóðu.
Hef aldrei komið þarna áður og það var gaman að sjá þennan stað:-)

Jói, Gunni, Birgir og Gunnar lögðu af stað í dag í nokkra daga strákaferð. 
Þeir leigðu sér stóran húsbíl með öllu inniföldu og voru litlu drengirnir orðnir frekar spenntir fyrir ferðinni :-)


Ég og mamma ætlum að fara á morgun í smá ferðalag um Snæfellsnes:-)

Nú er aðeins búið að breyta framsetningu um tölulegar upplýsingar um veiruna á covid og eru nú eingöngu birtar tölur um staðfest smit, þá sem hafa veikst eða eru veikir en ekki teknar með tölur um gömul smit eins og áður og því lækkar heildartalan...
Einnig verður sú breyting eftir helgi að nýjar tölur verða ekki birtar á hverjum degi eins og nú er, heldur bara á þriðjudögum og föstudögum..

Þetta er heildartölur frá 28. febrúar 2020.
Staðfest smit 1841, batnað 1823, í einangrun 8, í stóttkví 78,  lokið sóttkví 23.008, 0 á sjúkrahúsi og gjörgæslu, 10 hafa látist, það hafa verið tekin 50.290 sýni á landamærum og 68.813 sýni hafa verið tekin innanlands og nýgengi er 2,2(virk smit sl. 14 daga á 100.000 íbúa).

Frá 15. júni þegar rýmkaðar voru reglur um opnun landamæra og skimum á landamærum var tekin upp hafa  komið upp 11 innanlandssmit, en ekki hefur komið upp nýtt innanlandssmit síðan 2 júlí..
 Það hafa komið upp 20 virk smit erlendis frá, þ.e. jákvæð sýni á landamærum, og 93 gömul og óvirk smit þar sem viðkomandi er með mótefni hafa fundist í landamæraskimun...

Jamm, svona er Ísland í dag...
Fleiri fréttir síðar....

Monday, July 13, 2020

það

er búið að vera mjög gott veður undanfarna daga, sól, 15-20 stiga hiti og lítill vindur:-)
en nú er útlit fyrir rigningu næstu daga...
Ég hef farið aðeins í gönguferðir í þessu sumarveðri, bæði hér í nágrenninu og líka aðeins lengra í burtu...
2. júli fór ég í smá gönguferð í Úlfarsáfelli í flott veðri:-)

5. júlí fórum ég og Gunni á Þingvelli, langt síðan við höfum komið þangað.
Það er mikið búið að breytast aðstaðan á þessu svæði, nú kostar 750 að leggja í bílastæði, það eru 3-4 stór bílastæðaplön, bæði fyrir ofan og neðan Almannagjá, búið að byggja útsýnispall, klósett, þjónustumiðstöð og veitingaskála og búið að girða af mestallan gróður meðan göngustígum.
En það er bara fínt að vernda svæðið fyrir ágangi og hafa fína aðstöðu...
Það var slatti af fólki á svæðinu, bæði íslenskir og erlendir túristar...

Við lögðum fyrir ofan gjánna, hjá Hakinu þar sem þessi útsýnispallur er...
gengum svo niður Almannagjá,  fórum svo á neðra svæðið, kíktum á Peningagjá og svæðið í kringum kirkjuna, sáum grafreit Einars Benediktssonar og Jónasar Hallgrímssonar..
og gengum svo til baka upp gjánna:-)

Áttum góða samverustund í geggjuðu veðri, sól, 20 stiga hiti, smá gola og fín hreyfing á flottum stað :-)

Í gær var haldið upp á 5 ára afmæli Birgis:-)

Byrjuðum daginn á því að fara út að borða á Fabrikkunni;
Jói, Katrín, Gunnar, Birgir, ég, mamma, Gunni, Björn, Heiða, Alexander og Ársól, alls 11 manns...
Birgir fékk óskalag og afmælisís í boði hússins:-)
Síðan var haldið í Ásgarðinn þar sem tók við smá kaffiboð, kaka og afmælispakkastuð:-)
 Birgir var ánægður með daginn og fékk fullt af dóti; fjarstýrðan bíl, hlaupahjól, hjálm og hlífðarbúnað, bangsa, joggingheilgalla, risaeðlulita-og þrautabók, spil, segulkubba, bolta og ofurhetjukall:-)
Gunnar fékk líka nokkrar gjafir, handklæði, bangsa, pening og stuttermabol:-)
Fín samverustund þennan dag:-)

Fór með bílinn minn í gærkvöldi á verkstæði til að láta endurryðverja hann, ákvað að gera það núna, enda komin tími til..
Þetta er alryðvörn, þ.e. undirvagn og inn í allar hurðar..
Fæ hann seinnipartinn á morgun:-)

Nýjustu fréttir af veirunni:
Það virðist vera lítið um innanlandssmit sem er frábært, einhver smit ný og gömul greinast á landamærum, en fólk er sent í sóttkví og einangrun.

Í dag tóku nýjar reglur gildi, svokallað heimkomusmitgátt..
Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, að tillögu sóttvarnarlæknis, að frá og með 13. júlí nk. skuli þeir sem eru búsettir hér á landi eða eru íslenskir ríkisborgarar og hafa valið að fara í sýnatöku við komuna til landsins viðhafa svokallaða heimkomusmitgát í fimm daga eða þar til niðurstöður úr síðari sýnatöku liggja fyrir. Er þetta gert til að minnka líkurnar á að röng niðurstaða á prófi á landamærum geti leitt til stærri hópsmita á Íslandi.

Tölur dagsins af covid.is:
í einangrun: 15 manns og í sóttkví eru 77 manns.
Frá 28. febrúar eru 1900 staðfest smit og 1871 manns er batnað, 0 á sjúkrahúsi, það hafa verið tekin 67.866 sýni innanlands og  22.941 einstaklingar hafa lokið sóttkví.

Frá 15. júni, hafa verið tekin 34.864 sýni á landamærum og af þeim hafa 12 manns verið með virkt smit, 64 manns með mótefni og 3 einstaklingar bíða eftir niðurstöðum úr skimun...

Jamm, svona er nú staðan í dag....
Er að hugsa um að fara í smá gönguferð á eftir í sól og sumaryl:-)
Eigið góða viku..
Sandra í sumarfríi..

Wednesday, July 01, 2020

Á mánudaginn

var mjög gott veður, sól og 20 stiga hiti:-)
Ég ákvað að fara í smá ferðalag út fyrir bæinn, byrjaði á að fara Hellisheiðina og beygði svo inn á Þrengslin í áttina að Þorlákshöfn.
Fór ekki alla leiðina þangað, heldur keyrði til Eyrarbakka, settist þar aðeins í fjöruna og horfði út á sjóinn:-)
Fór svo yfir á Stokkseyri, keyrði um bæinn, tók myndir af Þuríðarbúð og fékk mér svo að borða í Skálanum fínasta orlyfisk og franskar...

Frá Stokkseyri lá leiðin til Selfoss, síðan tók Hellisheiðin við og svo endaði ég ferðalagið á að fara Hafravatnsleið heim í Mosó, fínasti bíltúr í góðu veðri:-)
Tók nokkrar myndir á leiðinni sem má sjá á myndasíðunni:-)

Í gær fórum ég og mamma í fataleiðangur í Kringlunni og keypti hún sér kjóla og leggings:-)
Á leiðinni heim fengum við okkur að borða á Grillhúsi Guðmundar og vorum við einu kúnnarnir á staðnum...

Í dag fór ég á hárgreiðslustofuna og fékk mér fína sumarklippingu, settum lit í rót og tókum vel af lubbanum:-)
Kom svo aðeins við í búð, kíkti til mömmu í kaffi og þegar ég kom heim var komin sól svo ég ákvað að fara yfir götuna í sundlaugina, hlammaði mér í nuddpottinn og lét buna vel á bakið og axlirnar:-)
Jamm, það er yndislegt að vera í sumarfríi:-)

En að máli málanna þessa dagana....
Síðan 15. júní þegar landið var opnað meira fyrir túristum hafa greinst um 10-12 ný virk smit í samfélaginu, þar af 5-6 innanlandssmit og af þeim er eitt 3. stigs smit;-(
Það hafa fundist fleiri smit en það eru svokölluð gömul smit sem þýðir að viðkomandi smitar ekki lengur....

Í þessum hópi sem er með virkt smit innanlands má m.a. finna verkstjóra í unglingavinnunni, starfsmenn í ráðuneyti og leikmenn í íslenskum karla- og kvennafótboltaliðum...
Það hafa rúmlega 400 manns verið sendir í sóttkví um allt land vegna þessara smita því landsmenn hafa stærra tengslanet en erlendir ferðamenn og veiran er fljót að breiðast út..

Þessi smit finnast ekki öll við skimum á landamærum(neikvætt sýni), heldur koma fram eftir nokkra daga og þá er viðkomandi jafnvel búin að hitta fjölda manns áður en hann fer aftur í skimun og í framhaldi í einangrun eða sóttkví..

En það er margt reynt til að sporna við þessu og nú er sóttvarnarlæknir að útbúa tillögur um að herða reglurnar aftur.
Til að byrja með beinast þær að Íslendingum sem koma heim og einnig þeim sem búa á Íslandi með því að skima á landamærum, senda svo fólk í 4-5 daga sóttkví og svo aftur í skimun...
Þetta er ekki komið í gagnið en stefnt er á að koma því á fljótlega....

Ennfremur átti að slaka á samkomubanni um miðjan júlí þannig að 2000 manns máttu koma saman í stað 500 eins og nú er, en það er búið að hætta við það....
Einnig er starfsfólk á heilsugæslustöðvum hvatt til að taka fleiri sýni hjá fólki til að sjá hvort smitum í samfélaginu sé að fjölga....

Nýjustu tölur af covid.is:
11 einstaklingar eru í einangrun, 434 manns er í sóttkví, 1847 staðfest smit, 1823 er batnað, 0 á sjúkrahúsi, 22.507 hafa lokið sóttkví, 65.897 sýni hafa verið tekin innanlands og 15.197 sýni hafa verið tekin í landamæraskimun....

Fleiri fréttir síðar...
Ætla að leggjast núna í sófann og glápa á kellingaþátt:-)