Tuesday, June 17, 2014

Hitt og þetta

Vil byrja á að óska öllum til hamingju með daginn, það er víst 17. júní í dag, hæ, hó og jibbý jei:-)
Er bara heima  í rólegheitum, vinna á morgun eftir langt og gott helgarfrí...
Vinna, já, nú eru 10 ár síðan ég útskrifaðist úr Kennó, ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða:-)
Kenndi 5 ár í grunnskóla og er á fimmta kennsluárinu mínu í leikskóla, bara ágætis árangur það og ætli maður haldi ekki eitthvað áfram í þessum kennslugeira, allavega á meðan áhuginn og viljinn er til staðar:-)

Hef haft eitt og annað fyrir stafni undanfarið, ýmsir viðburðir og samverustundir með fjölskyldu og vinum..
Föstudaginn 2. maí var óvissuferð með vinnunni.  Það var starfsdagur frá 08:00- 16:00 og svo kom rúta eftir vinnu og við keyrðum af stað út í óvissuna:-)
Stoppuðum  fyrst fyrir utan Litlu Kaffistofuna og þar fórum við í leiki og myndatöku. Svo var haldið áfram yfir Hellisheiðina og keyrt að  Skemmtigarðinum í Hveragerði:-)
Þar beið okkar leikja- og þrautabraut, m.a. risastórt púsl, spilakapall og stórt sippuband:-)
Það var skipt í tvö lið og svo var keppni í rúman klukkutíma, mikið hlegið, hvatt áfram, samvinna og almenn gleði:-)
Svo var farið aftur í rútuna, fliss, drykkir, myndataka, grín og glens, keyrt framhjá Hafravatni og Grafarholti og endað í Árbænum heima hjá einni úr vinnunni, þar sem beið okkar matarveisla og ágætis partý til miðnættis:-)

Fór í  fínustu afmælisveislu hjá Jóa bróðir 7. maí, við borðuðum úti í garði á fallegu og mildu vorkvöldi, fórum svo inn og fengum kaffi og köku:-)
Laugardaginn 10. maí kom Gunnar Aðalsteinn í gistingu og "Júróvisjon partý", við horfðum að sjálfsögðu á Pollapönk og sungum og klöppuðum með:-)

Helgina 23. -25. maí fóru Jói og Lára í utanlandsferð og var litli prins hér í Mosó á meðan:-)
Við gerðum margt skemmtilegt þessa daga, á föstudagskvöldinu voru rólegheit, fengum okkur að borða, horfðum á teiknimynd og fórum svo í háttinn.
Vöknuðum á laugardagsmorgun, tókum því rólega, skutluðum Gunna svo niður í bæ í hádeginu,  í framhaldi fórum ég og Gunnar á KFC í Mosó þar sem hann fékk aðeins að leika sér í leiktækjum á meðan ég pantaði barnabox. Komum  aðeins við heima til að fá okkur að borða, fórum svo og náðum í mömmu og skelltum okkur í  þrjú bíó að sjá Undraveröld Ibba:-)
Eftir myndina skutluðum við mömmu heim og áttum svo rólegt laugardagskvöld, vidjógláp og leika sér..

Á sunnudagsmorgun fóru nafnarnir í sund og ég svaf aðeins lengur á meðan, svo fórum við í Skemmtigarðinn í Smáralind, gengum um, skoðum nokkur tæki og fórum í klessubílana, þar sem Gunnar stjórnaði bílnum með glæsibrag:-)
Að þessu loknu röltum við aðeins um Smáralind, kíktum á mjög flotta Legosýningu og enduðum svo á Pizza Hut þar sem við fengum gómsæta pizzu:-)
Að Smáralindarferð lokinni keyrðum við litla prins til systir hennar Láru þar sem hann var fram á þriðjudag...

Síðastliðinn föstudag fór ég í fjörugt og skemmtilegt partý með vinnufélögum, mikið hlegið, sungið og grínast, vorum með erlenda gesti sem hafa verið í samstarfsverkefni með okkur í 2-3 ár, voru hér á landi í síðustu viku og enduðu vikuna og verkefnið á kynningu í leikskólanum mínum og svo kveðjupartý um kvöldið:-)

Á laugardaginn tók ég  þátt í Kvennahlaupinu í sjötta skipti, fór 5 km núna, bara nokkuð sátt miðað við litla æfingu í vetur:-)

Jæja, læt þetta nægja í bili, eigið góðan dag og stutta vinnuviku:-)

Risaknús;-)
Sandra lata...