Saturday, February 10, 2024

Góðan

 daginn og gleðilegt nýtt ár. 

Gamlársdagur/ kvöld var rólegt, ég kíkti til múttu í kaffi, við Mosóbúarnir elduðum fínasta lambahrygg og meðlæti, horfðum á sjónvarpið og flugeldana og fórum svo að sofa einhverntíma eftir miðnætti😏.

Við vinnufélagarnir í frístundinni áttum góða samverustund þann 10. janúar, hittumst í Minigarðinum, fengum okkur að borða og spjölluðum og hlógum fram eftir kvöldi.. 😃

Ég hitti vinkonur mínar þær Heiði og Magdalenu föstudaginn 26. janúar. Við hittumst á veitingastað í Kringlunni, sátum þar og borðuðum og töluðum í rúmlega klukkustund og fórum svo í Kringlubíó á rómantíska gamanmynd, áttum góða samverustund þetta kvöld😄

Daginn eftir var stjórnarfundur í kórnum, það var margt og mikið að ræða, skipuleggja og ákveða og á endanum stóð þessi góði fundur í tæplega 3 tíma..

Miðvikudagurinn 31. jan var langur dagur, mætti í skólann rétt fyrir 08:00 og var þar til tæplega 14:00, þaðan fór ég yfir í frístundina og vann þar til rúmlega 18:00, þar sem það var starfsmannafundur eftir lokun...

Gunnar okkar á 14 ára afmæli á morgun😍 mikið líður tíminn hratt..

Framundan hjá mér er m.a. klipping, kórpartý, leikhúsferð og vetrarfrí..

Jæja, lífið og dauðinn, fólk kemur og fer og dauðinn spyr ekki um aldur, stað eða stund..

Í liðinni viku fékk ég dánarfréttir💓 af þremur einstaklingum sem ég þekki, þar af voru tvær frekar óvæntar. Blessuð sé minning þeirra.

Fyrsta tilkynningin var af mjög óvæntu andláti fyrrverandi samstarfskonu sem ég vann með í nokkurn tíma, en hún sem hætti vegna aldurs fyrir örfáum árum. Önnur tilkynningin um andlát var fjörgamall sveitungi minn, en þriðja dauðsfallið var 45 ára gamall barnsfaðir frænku minnar sem lést óvænt heima hjá sér..  

En nú víkur sögunni af náttúruhamförunum á Reykjanesi og Suðurnesjum..

Það er búið að gjósa á Reykjanesskaga af og til síðustu þrjú ár en það hafa verið svokölluð "túristagos" og ekki verið miklar afleiðingar af þeim fyrir íbúa, innviði og húsnæði en nú er staðan önnur.

Atburðarrásin hófst má segja þann 10. nóvember 2023 þegar mjög öflug jarðskjálftahrina skók Reykjanesið og Grindavík sem endaði með því að rýma þurfti Grindavík og allir íbúar fóru burt úr bænum..

Næstu vikur var bærinn að mestu leyti lokaður en svo kom að því að íbúar gátu dvalið þar smá tíma, farið í húsin og tekið dót og einhver atvinnu starfsemi komst í gang, þrátt fyrir miklar skemmdir í bænum, götur og hús með miklar sprungur og jarðsig og hættuleg að fara um bæinn..

Það byrjaði að gjósa 18. des sem setti allt úr skorðum og engin mátti vera í bænum, en það gos stóð stutt og gerði ekki mikinn usla nema að rafmagn fór af Grindavík..

Næstu daga var ekki mikið um að vera í bænum, hann var ýmist opinn eða lokaður og byrjað var að fylla upp í stórar götusprungur og eitthvað uppbyggingarstarf hafið. Þann 10. janúar endaði því miður ein slík sprunguviðgerð með andláti þar sem viðkomandi féll ofan í sprunguna og lést..

En svo 14. janúar byrjaði aftur að gjósa og þá varð mikil eyðilegging þar sem hraun rann bæði yfir Grindavíkurveg og vatnleiðslur þar, en einnig inn í Grindavík þar sem þrjú hús brunnu og fóru undir hraun..sem betur fer voru engir íbúar í bænum þar sem búið var að rýma hann..

Þetta gos stóð einnig stutt en skaðinn var skeður..Sem betur fer var búið að reisa varnargarða rétt hjá Grindavík og þeir björgðu aðeins því hraunið hefði runnið lengra inn í bæinn ef þeir hefðu ekki verið..

Hluti af bænum er mjög illa farinn, ónýt hús, mannvirki, götur og umhverfi og það fær enginn að búa þar núna, bara fara og tæma íbúðir og ná í dót og atvinnurekendur eru sumir fluttir með starfsemi annað, ríkið ætla að kaupa ónýtar eignir af íbúum svo þeir geti flutt og keypt hús annarsstaðar..

 Svo kom enn eitt áfallið 8. febrúar þegar það byrjaði að gjósa enn einu sinni á sömu gossprungu og áður..Þetta var líka mjög stutt gos en þá rann hraun yfir Grindavíkurveg(á öðrum stað),  yfir veginn að Bláa lóninu og yfir mjög stóra heitavatnsæð sem flytur vatn til Suðurnesja..

Þannig að ástandið í dag er mjög alvarleg, það er hitavatnslaust hjá c.a. 30.000 íbúum Suðurnesja og það tekur nokkra daga að koma vatninu á aftur, viðgerð hófst strax en það tekur allt tima, kalda vatnið fór ennig af tímabundið í gær vegna bilunar en það er komið í lag, ásamt því að rafmagnið kemur og fer á Suðurnesjum..

Já, þetta er ekki gott, en svona er nú staðan.. 

Nóg í bili, 

Sandra lata...