Saturday, May 16, 2020

starfið í skólanum komið í gang og er næstum eins hjá nemendum eins og það var áður en verkföll og farsóttir tóku yfir lífið..
 Aðalbreytingin er að viðburðir, heimsóknir, ferðir,  sýningar og útskriftir eru haldnar án foreldra og utanaðkomandi aðila og ekki eru haldin foreldraviðtöl.
Hjá starfsfólkinu er minna um fundi og viðburði, þeir fáu kennarafundir sem haldnir eru fara fram í gengum netið og fólkið skiptist á að fara í kaffi og matartíma og ef það eru margir að fara á sama tíma þá  skiptir fólk sér á nokkur svæði.
Starfið gengur sinn vanagang, ég er einkum að aðstoða nemendur í 1, 2 og 3. bekk við allskonar verkefni og athafnir, ýmist í hóp eða einstaklingslega, ásamt því að sinna frímínútnagæslu inni og úti.

Jói bauð okkur í rólegt og gott afmæliskaffiboð þann 6. maí, þar sem ég, mamma, Gunni, Jói, Katrín, Gunnar og Birgir voru samankomin, fínustu veitingar og fínasta samverustund:-)

Ég kíkti til Heiðar vinkonu í pizzu og vidjó kvöld laugardaginn 9. maí, áttum góða samverustund :-)

Fór til tannsa 13. maí og í klippingu í gær..
Settum lit í rót og klipptum helminginn af þessum lubba sem hafði vaxið vel í samkomubanninu:-)


jamm, gaman að þessu:-)


á mánudaginn verða sundlaugarnar opnaðar aftur og 25. maí verða  líkamsræktarstöðvar, pöbbar og skemmtistaðir opnaðir ásamt því að 200 manns mega koma saman...
15.júni verða ferðatakmarkanir rýmkaðar og fleiri ferðamenn mega koma til landsins

Nýjustu tölur á covid.is eru eftirfarandi:
1802 eru með staðfest smit, 1782 hafa náð bata, 10 eru  í einangrun, 729 eru í sóttkví, 10 eru látnir, 0 eru á sjúkrahúsi og 0 í gjörgæslu, 19.802 hafa lokið sóttkví og 56.219 sýni hafa verið tekin..

Já, vonandi gengur áfram vel að hafa stjórn á veirunni og ástandinu þegar reglur um samkomubönn og ferðatakmarkanir verða rýmkaðar í skrefum og áföngum.

læt þetta nægja í bili...
Hafið það gott um helgina og í komandi viku...

Saturday, May 02, 2020

allt rólegt hér.


Hef verið að vinna frá 08:00- 14:00 eða til 16:00 undanfarnar tvær vikur.
Í síðustu viku voru flestir starfsmenn og kennarar byrjaðir að vinna fullan vinnutíma, það voru haldnir fjarfundir og undirbúningur hafinn fyrir 4. maí þegar fullt skólastarf hefst að nýju.
Það var  m.a. verið  að þrífa bækur, undirbúa kennslu og námsmat, þrífa skólann að innan og utan, taka til í stofum og geymslum og henda fullt að drasli sem hefur safnast upp í gegnum árin...

Já, nú á að taka upp þráðinn í skólastarfinu eins og það var fyrir verkföll og farsótt, mötuneytið verður opið, skólasund, leikfimi og list og verkgreinar verða kenndar, hópar blandast og fara á milli stofa, frímínútur og kaffitímar verða eins og venjulega, 10. bekkur verður útskrifaður, verðandi 1. bekkur kemur í heimsókn, við fórum í vettvangsferðir og svo mætti lengi telja..
Í stuttu máli verða engar takmarkanir hjá nemendum, en það verður strangara hjá fullorðna fólkinu.. Við verðum að passa fjöldatakmörk og fjarlægðarmörk á kaffistofu og í almennum rýmum, fundirnir  verða áfram fjarfundir, heimsóknir og viðvera foreldra verður takmörkuð t.d á fundum, viðburðum og útskrift 10. bekkjar. 
En þó verður það þannig að kennarar og starfsfólk fer á milli bekkja og stofa eins og áður.
 Eins og ég og fleiri stuðningsfulltrúar sem  aðstoða í nokkrum bekkjum...
En að sjálfsögðu verður áfram áhersla á góðan handþvott og sprittnotkun hjá öllum og extra þrif í skólanum..
Já þetta verða viðbrigði og næsta vika verður erfið en það er bara rúmlega mánuður eftir af skólanum og svo kemur sumarfrí:-)

Við ætlum að fara aðeins hægar að stað í frístundinni til að byrja með, höfum hópana aðskilda innanhúss og það verða hópstjórar með sinn hóp í sínu rými eins og verið hefur, pössum fjarlægðarmörk og fjöldtakmörk og takmörkum aðkomu foreldra eins og áður..

Já, þessi bylgja faraldursins virðist vera á hraðri niðurleið hér á landi, það hafa  greinst 0-4 smit á dag undanfarna daga sem er flott, en það þarf fara mjög varlega í að aflétta takmörkunum og eru yfirvöld og Almannavarnir að standa sig vel í þessum málum.
Það hafa verið haldnir daglegir blaðamannafundir í sjónvarpi og útvarpi kl.14:00 síðan í lok febrúar þar sem þríeykið, Alma landlæknir, Víðir yfirlögregluþjónn og Þórólfur sóttvarnalæknir og gestir hafa farið yfir stöðuna og gefið upplýsingar, tillögur að afléttingu og góð ráð og finnst mér þessir fundir góðir  og nauðsynlegir þó ég hafi ekki getað horft á þá nema stöku sinnum...

Þannig að næstu varfærnu skref sem verða tekin á mánudaginn felast einkum í því að skóla-frístunda- tómstunda og íþróttastarf barna byrjar aftur án takmarkana, fjöldatakmarkanir fara úr 20 upp í 50 manns, heimsóknir á elli og hjúkrunarheimili verða leyfðar með ströngum skilyrðum, þannig að einn aðili má fara í heimsókn í einu, ýmis söfn verða opnuð og margskonar þjónusta sem krefst nálægðar verður opnuð, s.s. tannlæknar, nuddstofur, sjúkraþjálfun og hárgreiðslustofur og er ég búin að fá tíma hjá bæði tannsa og klipparanum um miðjan maí;-)

Í gær var 1. maí og var engin kröfuganga og dagskrá í tilefni dagsins niðri í bæ að þessu sinni heldur fór dagskráin fram á netinu og í sjónvarpinu...

Nýjustu tölur af farsóttinni eru eftirfarandi:
49.135 sýni hafa verið tekin, 1798 staðfest smit, 1689 hafa náð bata,  99 eru í einangrun, 631 er í sóttkví, 19.112 hafa lokið sóttkví, 10 hafa látist, 3 eru á sjúkrahúsi, 0 á gjörgæslu og 0 í öndunarvél...

Jamm, læt þetta nægja í bili....