Saturday, December 31, 2011

Áramót

já, nú er árið 2011 að verða búið...
viðburðaríkt, fjölbreytt, frábært, rólegt, fallegt, erfitt, skemmtilegt, yndislegt og gott ár að kveðja okkur:-)
verður gaman að sjá hvað nýja árið ber í skauti sér:-)

Ég er búin að upplifa margt á þessu ári, hef verið að rifja það upp og setti saman smá áramótaannaál:-)
finnst nefnilega gaman að lesa seinna hvað hefur á daga mína drifið í gegnum árin:-)

Vil samt byrja á að tala aðeins um áramótin 2010 þar sem þau líkjast mjög þessum áramótum:-)
Við Gunnar Aðalsteinn vorum saman á síðsta degi árins 2010 og fyrsta dag ársins 2011. Hann gisti hér aðfaranótt gamlársdags, þ.e. 30. des og við höfðum það notalegt saman það kvöld. Gunnar vaknaði snemma á gamlársdagsmorgun glaður og hress svo gamla frænka dreif sig framúr og sinnti honum þar til Lára vaknaði og svo fóru þau heim um hádegið. Jói, Lára og Gunnar komu svo aftur til okkar á nýjársdag og Gunnar gisti hjá okkur 1. og 2. jan 2011. Jói og Lára voru líka hér þann tíma en þau komu og fóru vegna vinnu og fleira. Já þetta voru yndislegar og góðar samverustundir:-)

Hefst þá annállinn fyrir árið 2011:

Janúar og febrúar: Ég átti góðar samverustundir með fjölskyldu og vinum. Ég átti 5 ára Gohonzon afmæli 1. jan og fór á nýjársgongyo, fór á fundi, kyrjanir og í bíó. Byrjaði aftur að stunda reglulega líkamsrækt og hreyfingu eftir smá letikast, enda þýddi ekkert annað en að standa sig þar sem ég var annar af tveimur liðsstjórum í vinnunni í vinnustaðaleik Lífshlaupsins. Fjölskyldan fór út að borða á Hamborgarafabrikkunni í tilefni eins árs afmæli Gunnars Aðalsteins sem átti afmæli 11. febrúar. Laugardaginn 19. febrúar var fjöldakyrjun og kynningarfundur hjá búddistum í SGI á Íslandi og þar var ég með mína fyrstu reynslu á stórum sameiginlegum fundi um það hvað búddisminn hefur gert fyrir mitt líf og upplifun mína af búddisma. Laugardaginn 26. febrúar útskrifaðist ég loksins með diplómagráðu í meistaranáminu, hélt smá veislu hérna heima og fór svo með dömunum í vinnunni á Góugleði í fyrsta skipti, mikið fjör, góður matur, appelsínugult þema og ball með Páli Óskari:-)

Mars, apríl og maí: fór á skrínlagningu, var mikið í ábyrgð í búddismanum, fór í starfsmannaviðtal, páskafrí, djamm, bíóferðir, tölvuhangs, farið í afmæli og heimsóknir, leikfimi, kyrjanir, fundir, búðarrölt, kaffihúsaferðir, passaði Gunnar Aðalstein og átti góðar samverustundir með fólkinu mínu:-)

Júní: Föstudaginn 3 júní var starfsdagur í vinnunni sem gekk vel og seinnipartinn var farið í óvissuferð með vinnufélögum.
Við hittumst hjá Kríunesi(sem er í Vatnsendahverfinu) um kl 18:00 og gengum af stað, fórum í þrautir og spurningakeppni og komum við í hesthúsi sem ein úr hópnum á. Síðan héldum við áfram gönguferðinni og enduðum heima hjá skólastjóranum þar sem við fengum okkur að borða, spjölluðum og hlógum mikið. Um kl 22:00 kom leynigestur kvöldsins sem var Sigríður Klingenberg hin eina sanna. Hún var með spil og steina sem hún lét okkur draga, las úr bókinni sinni, spáði fyrir okkur, hreinsaði áruna, útskýrði spilin og steinana, sagði ýmislegt jákvætt, fallegt, alvarlegt, búddískt, hvetjandi og fyndið um lífið og tilveruna, djókaði og fíflaðist og þjappaði hópnum saman. Morguninn eftir tók ég þátt í Kvennahlaupinu, var ánægð með mig að fara 7 km eftir frekar litla þjálfun og kom í mark á fínum tíma, fór á kyrjanir, fundi, afslöppun, djamm, leikfimi, sumar og sól:-)

Júlí: Keyrði í glampandi sólskini og logni til Stykkishólms, tók Baldur yfir Breiðafjörð og fór á fjölmennt og skemmtilegt ættarmót í sveitinni á Barðströnd, var í sumarfríi, hélt tvisvar sinnum upp á 35 ára afmælið mitt, í fyrra skiptið var lítil veisla hér heima fyrir nánustu fjölskyldumeðlimi og tveim dögum seinna var ég með partý í sal niðri í bæ fyrir vini og ættingja. Það var stórskemmtilegt og fjörugt djamm. Í lok júlí fórum við vinkonurnar í frábæra sumarbústaðaferð þar sem við vöktum fram á nótt við spilamennsku, heitapottsferð, spjall og krúsing. Ég var líka í sólbaði, afslöppun, kyrjaði, fór út að skokka og í gönguferðir, undirbjó mig undir 10 km hlaupið og passaði yndislega litla frænda minn. Við horfum mikið á Stubbana, fórum á róló og í gönguferðir, veltum okkur í grasinu, hlógum, lékum okkur, áttum kennslustundir við eldhúsborðið, hann er mjög duglegur að mata sig sjálfur með skeið og áttum góðar og notalegar stundir:-)

Ágúst: Leti, sofið út, vinkonuhittingur, farið á kaffihús og heimsóknir, lesið, kyrjað, tekið til, hangið í tölvunni, farið í sund og leikfimi, horft á vídeó, farið í bíó, bæjarrölt og undibjó mig undir verkfall leikskólakennara sem ekkert varð svo úr. Laugardaginn 6. ágúst fór ég út að borða með vinkonum í tilefni afmælis Heiðar vinkonu sem endaði með "stóla og súludansi" á diskóteki niðri í bæ:-) Laugardaginn 20.ágúst vaknaði ég snemma í frábæru veðri, sól og sumri. Ég fékk mér að borða, fór í sturtu, klæddi mig í hlaupagallann og fór svo niður í miðbæ þar sem samkomin voru fleiri þúsund manns, hlauparar, starfsfólk og áhorfendur, þar sem ég var að taka þátt í 10 km hlaupi í Reykjavíkurmaraþoninu. Hlaupið gekk vel, mikil stemming og fjör og ég kom í mark á harðaspretti á svipuðum tíma og í fyrra, glöð og ánægð með mig. Seinnipartinn fór ég svo í brúðkaup hjá Védísi frænku minni og Breka. Athöfnin var falleg, hjartnæm og glaðleg, grín inn á milli í ræðu prestsins og Ragnheiður Gröndal og Friðrik Dór sungu falleg og yndisleg lög. Að athöfn lokinni var haldið í félagsheimili Fáks í Víðidal sem sem var haldin um 170 manna veisla. Þetta er eitt af skemmtilegri brúðkaupum sem ég hef farið í, það var mikið hlegið, fyndar ræður og skemmtiatriði og svo var dansað langt fram á nótt í frábærri stemmingu undir tónum hljómsveitarinnar Sixties. Við vorum með þeim seinustu að fara heim rétt fyrir klukkan 3 en fórum samt á undan brúðhjónunum:-)

September og október: Fór í villt partý hjá vinnufélögum, tók að mér að sjá um sérkennslu í vinnunni og fór á erfitt, merkilegt og flott búddistanámskeið á Hótel Hamri við Borgarnes. Þann 11. september áttum við Mosófólkið svo góðan og skemmtilegan dag með Gunnari Aðalsteini. Við vorum nefnilega að fara í fyrsta skipti með hann í Húsdýragarðinum svo þetta varð hálfgerð ævintýraferð:-)
Við sáum dýrin, kíktum í Vísindatjaldið, fengum okkur að borða í kaffihúsinu, skelltum okur í lestarferð og lékum okkur í leiktækjunum í Fjölskyldugarðinum. Ég veit ekki hver skemmti sér best, en þetta var æðisleg upplifun, mikið að sjá og skoða, það var gott veður og ferðin gekk mjög vel og það var mikið hlegið og brosað:-)

Nóvember: Byrjaði að undirbúa jólin, keypti nokkrar jóla og afmælisgjafir, yndisleg fjölskylduferð niður á Austurvöll að horfa á þegar ljósin á jólatrénu voru tendruð og svo kaffihúsaferð á eftir, skemmtilegur saumaklúbbur hjá Ármúlagellunum, náttfatadagur í vinnunni, partý og heimsóknir.

Desember: Fékk fastráðningasamning í vinnunni, vinavika í vinnunni, jólamatur og skemmtun með vinnufélögum, jólaball, notaleg aðventa og jólaundirbúningur, hitti Hebu, Elínu og krakkana sem voru í heimsókn á landinu, fór í heimsóknir til fólks sem ég hef ekki séð lengi, jólasveinaferð, jólakort, jólasaumaklúbbar, klipping, tannlæknir, bakaði smákökur nokkrum sinnum, bókalestur, jólaboð, yndislegt aðfangadagskvöld, jólapakkaflóð, afslöppun, snjómokstur, sjónvarpsgláp, bíóferð, búddistafundur, nóg að borða, rólegheit og notalegar samverustundir með fjölskyldu og vinum:-)

Eins og ég sagði í upphafði þá eru þessi áramót svipuð seinustu áramótum að sumu leyti og því ætla ég að ljúka annálnum á því að segja frá 30. des-31. des 2011.
Í gærkvöldi eyddum við Gunnar Aðalsteinn saman kvöldinu, en að þessu sinni vorum við heima hjá honum þar sem Jói og Lára voru á spilakvöldi hjá vinum sínum:-)
Við Gunnar Aðalsteinn skemmtum okkur vel, horfðum saman smástund á myndina ET, lásum sögu upp í rúmi, sungum og lékum okkur í bílaleik:-)

Ekki fékk ég að sofa út í dag 31. des, því klukkan 09:00 í morgun var grafa úti á bílaplani að byrja að skafa planið:-)
Það voru allir íbúarnir sem náðist í ræstir út til að moka og færa bílana og vorum við úti í næstum klukkutíma. Ég náði nokkrum myndum af þessu "hópefli" og setti þær í myndasafnið..
Að þessu loknu fórum við í búðina til að klára að kaupa í matinn og svo lagði ég mig aftur eftir hádegið:-)

Jæja krúttin mín:-)
Ég þakka ykkur kærlega fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða og vona að þið eigið farsælt, gott, fallegt, viðburðarríkt og frábært ár framundan og gangi ykkur allt í haginn á árinu 2012:-)
Gangið hægt um gleðinnar dyr og skemmtið ykkur vel og fallega í kvöld:-)



Risaknús og kossar..
Sandra