Sunday, October 20, 2024

Jamm

 nú er kórinn að æfa fyrir tónleika fyrir félagsstarf eldri borgara í Mosó sem verða haldnir í Hlégarði 18. nóvember😉 Eftir það tekur einkum við jólasöngur og svo eftir áramót æfum við einhver ný og eldri lög fyrir vortónleikana sem verða í maí:-)

Eins og gengur eru nokkrir meðlimir hættir😔 vegna ýmissa ástæðna en við fengum nokkra nýja  í staðinn😊

Sunnudaginn 22. sept fórum við Gunni í gönguferð á Úlfarsárfell. Í þetta sinn fórum við í fyrsta skipti aðra gönguleið, fínasta gönguleið, en ég var eitthvað illa upplögð og komst ekki alla leið upp á toppinn, vantaði ekki mikið uppá, það gengur bara betur næst, en Gunni hélt áfram og komst alla leið😎

Laugardaginn 28. sept fór ég til Heiðar vinkonu minnar, við fengum okkur Nings og horfðum á grínmynd, fínasta samverustund:-)

Laugardaginn 5. okt kom Gunnar okkar í heimsókn og gistingu.😀  Gunnar hefur áhuga á eldamennsku sem er frábært og eftir sundferðina eldaði hann fínasta hakkrétt og meðlæti og svo áttum við kózý kvöld, horfðum saman á bíómynd og fórum svo að sofa..

 
 
Gunnar fór um hádegið daginn eftir og um kvöldið kom Birgir okkur í heimsókn og gistingu😃 því það var starfsdagur í skólanum hans á mánudeginum.. Birgir er orðin svo duglegur að lita og teikna, hann dundaði aðeins í listsköpun og svo fórum við að sofa..


Laugardaginn 12. október var komið að haustpartýi kórsins😀. Ég var tengiliður stjórnar við partýnefndina og tók smá þátt í undirbúningi og frágangi..Nefndin mætti um klukkan 18:00 í sal í Mosó og svo týndist fólkið inn um klukkutíma seinna.  Það var bleikt þema, allir komu með eitthvað á borðið, það var söngur, leikir og almenn gleði fram yfir miðnætti.. Svo gengum við frá og ég var komin heim rúmlega 01:00.. mjög skemmtilegt kvöld í góðra vina hópi.


 

Föstudaginn 18. október var komið að haustpartýi í vinnunni😉. Það var haldið í Seljahverfi heima hjá aðstoðarskólastjóranum.. Ég mætti rétt fyrir 19:00 og þar var mikið stuð, flottur trúbador sem hélt uppi söng og stuði og við sungum mikið og hátt og dönsuðum með.. Síðan var farið í spurningaleik og karókí.. Það var fínn matur, nautasteik og meðlæti, nammi og snakk. Ég fór heim rúmlega 21. 00 eftir skemmtilega samverustund í góðra vina hópi:-)


Já, hvað annað er að frétta..  jú ríkisstjórnin er sprungin, allt í háaloft og fýlu í stjórnmálunum og það verða Alþingiskosningar 30. nóvember😏

Framundan hjá mér er m.a. klipping, vetrarfrí og jólahlaðborð 29. nóv og 30. nóv með vinnunni og saumaklúbbnum😋

Nóg í bili, njótið komandi viku og farið vel með ykkur..


Saturday, September 07, 2024

föstudaginn

 9. ágúst hittumst við Heiður vinkona í hádeginu niðri í bæ, fórum á veitingastaðinn Kopar sem er við höfnina, sátum þar góða stund og gengum svo yfir á Lækjartorg, fengum okkur kaffi og köku á kaffihúsi og sátum úti í góða sumarveðrinu í hátt í tvo tíma😎

Mánudaginn 12. ágúst var haldið upp á 9 ára afmæli Birgis okkar í Geitlandinu, við kíktum þangað seinnipartinn í súpu, brauð, kaffi og kökur, fínasta veisla og fullt af gestum..😉


Mætti í vinnuna 15. ágúst þar sem voru starfsdagar fyrstu vikuna. Það var ýmislegt að gera, telja bækur, námsgögn og ritföng, færa húsgögn milli stofa, fundir, námskeið, fyrirlestrar, ljósrita og plasta námsgögn og margt fleira:-)

Ég er núna í fyrsta 1. bekk að aðstoða nokkur börn😉, er einkum með 2 drengi sem ég fylgi allan daginn og er líka í frístundinni 3 daga í viku..

Við eru 6 starfsmenn, 3 kennarar og 3 stuðningsfulltrúar, í 1. bekk þar sem eru 42 börn og veitir ekki af. Einnig koma aðrir starfsmenn að bekknum, s.s. þroskaþjálfar og sérkennarar..

Sunnudaginn  18. ágúst fórum ég, Gunni, Jói og Gunnar á Alien Romulus sem var ágætis afþreyingarmynd og er meira í ætt við gömlu góðu Alien myndirnar.. 

Laugardaginn 31. ágúst var svo komið að árlegu sumarbústaðaferðinni með vinkonum mínum þeim Valdísi og Heiði😃. Lögðum af stað í hádeginu í roki og rigningu, stoppuðum í Krónunni á Höfða og versluðum í matinn, keyrðum svo Hellisheiðina, stoppuðum í Hveragerði og fengum okkur í gogginn í Mathöllinni og vorum komnar í bústaðinn um kaffileytið.. 

Veðrið var frekar leiðinlegt, en við létum það ekki á okkur fá, fengum afmælisköku í tilefni afmælis Heiðar, fórum í heita pottinn í mikilli rigningu og svo í gufubaðið, elduðum góðan mat, fengum okkur kokteil, kex, osta, snakk og nammi og spiluðum skemmtilegt spil😉


Fórum í bælið um eittleytið, sváfum út, borðuðum morgunmat, tókum til og vorum komar í bæinn um kaffileytið á sunnudeginum, gaman saman og kozý samverustund:-)

Nú byrjar kórstarfið í næstu viku, aðalfundur og æfing á miðvikudaginn og því var kórstjórnarfundur í dag til að leggja línurnar fyrir veturinn og ákveða dagskrá fyrir aðalfundinn..

Jamm, rútínan að komast á fullt og ég hef verið pínu þreytt síðustu daga, enda viðbirgði að vera búin í sumarfríi og byrja að vinna fulla vinnudaga..

Hafið það gott og njótið ykkar..

Tuesday, July 30, 2024

Það

 er búið að vera frekar leiðinlegt veður í sumar, mikið um rigningu og vind og fáir sólardagar😞.. 

Ég er búin að lesa nokkrar bækur í fríinu og er nú búin að lesa 31 bók frá áramótum.. Einnig hef ég farið aðeins í gönguferðir (engar fjallgöngur samt), skellt mér í heita pottinn og gufuna, horft á sjónvarpið, bæði á sjónvarpsþætti og Ólympíuleikana, farið með bílinn bæði í þjónustuskoðun þar sem m.a. var gert við bremsurnar og í aðalskoðun og skroppið í klippingu .

Átti rólegan afmælisdag, fékk fínustu afmælisgjafir (peninga, veggmynd, sokka og skál), fékk mikið af fallegum kveðjum, skilaboðum, sms og símtölum og svo  bauð mamma mér á kaffihús í tilefni dagsins😊

Við Gunni fórum á 3 klukkutíma bíómyndina: Horizon: An American Saga – Chapter 1, með Kevin Costner sem er fínasta mynd😄. 

Fór í cozýkvöld til Heiðar vinkonu minnar 12. júlí, við pöntuðum okkur pizzu, skiptumst á afmælisgjöfum og horfðum á nýjustu : Beverly Hills Cop: Axel F myndina á Netflix sem er ágætis grínmynd:-)

Birgir okkar varð 9 ára þann 16. júlí. Hann var á ferðalagi með Láru, Gunnari, Jóni, Steina og Margréti  á afmælisdaginn, en kom í bæinn nokkrum dögum seinna.  Ég og Gunni kíktum í heimsókn til hans sunnudaginn 21. júlí og náðum að gefa honum afmælisgjafirnar😀. Jói, Birgir og Gunnar flugu svo til Portúgals 23. júlí og koma heim um Verslunarmannahelgina..

Síðastliðinn föstudag var flott sumarveður, hiti og sól og við mamma notuðum tækifærið og skruppum í smá bíltúr og fórum á kaffi Kjós, sátum úti á palli og fengum okkur vöfflur og heitt súkkulaði😎

Jamm, rólegheit hér í sveitinni og lítið að frétta..

Nóg í bili, er að fara að horfa þátt á Netflix..

 

Thursday, July 04, 2024

Sunnudaginn

 9. júní kíktum ég og Gunni í heimsókn til Jóa, Gunnars og Birgis sem voru í sumarbústað við Hreðavatn.  Við  fengum gott veður, sól, sumar og hiti, grilluðum, fórum að veiða, sátum á pallinum og strákarnir fóru að vaða og synda í vatninu og við áttum fínustu samverustund😎..

 Fórum svo aftur í bæinn á þriðjudeginum, en Jói og strákarnir voru lengur..

Föstudaginn 14. júní hitti ég Elínu vinkonu mína og dætur hennar sem voru á landinu í nokkra daga. Kíkti til þeirra í kaffi og spjall:-)

Sunnudaginn 16. júní  fór ég í fínustu stúdentsveislu hjá Snædísi Lilju (dóttir Brynju frænku).

Birgir kom svo með mér heim eftir veisluna í heimsókn og gistingu. Við Mosóbúarnir áttum fína stund með honum, fórum á leikvöllinn í fótbolta og í þrautabrautina..

Daginn eftir fórum við svo í Hljómskálagarðinn á 17. júní hátíðarhöldin, það var ágætt, Birgir fór í aparóluna og klifraði í trjám og klifurneti en ég held að það sem stóð upp úr var hjólböruhlaupabrautin sem var frekar fyndið, hann sat í hjólbörum og ég og Gunni keyrðum/hlupum með hann sitthvora ferðina 😉 

Komum heim um kaffileytið, pöntuðum okkur pizzu og Jói og Gunnar sóttu hann svo seinnipartinn..

Mánudaginn 24. júní kom Gunnar til okkar í nokkra daga, við keyrðum hann og sóttum á fótboltaæfingar og fótboltaleik þar sem liðið hans vann 4-1, þar af skoraði Gunnar 3 mörk😀

Elduðum kvöldmat og borðuðum saman og eftir matinn fór hann í sundlaugina, pottana og gufuna. Hann fór svo heim á fimmtudeginum og við áttum góðar samverustundir þessa daga .. Gunnar fór svo í vikuferð til Spánar á fótboltamót með félögum sínum á laugardeginum..

Ég hef líka slappað af, hangið í tölvunni, glápt á imbakassann, farið í gönguferðir, kíkt í búðir þar sem ég  keypti afmælisgjafir og í gær druslaðist ég í ræktina;-) 

Við mamma erum að fara í bíó seinnipatinn í dag að sjá íslensku myndina Snerting😏

Veðrið hefur ekki verið neitt sérstakt, rigning, kuldi og vindur, en inn á milli verið smá sól, hiti og logn..

og já, hellan í eyranu fór loksins um daginn af sjálfu sér, sem betur fer...

Nóg í bili, njótið ykkar og farið varlega í umferðinni..

Sandra í sumarfríi..

Saturday, June 08, 2024

Hitti

 Heiði vinkonu mína 4. maí í Kringlunni, við fórum á Kringlukrána, fengum okkur gott að borða og áttum góða samverustund:-)

Sunnudaginn 5. maí var svo komið að vortónleikum Mosfellskórsins. Við mættum um fimmleytið í Hlégarð sem er félagsheimili í Mosó, settum upp salinn, helltum upp á kaffi og tókum smá æfingu með hljómsveitinni.. Tónleikarnir byrjuðu svo klukkan 20:00. Þetta voru fínustu tónleikar sem heppnuðust vel, það voru um 50 gestir, þar á meðal mamma, Jói og Ari vinur Jóa og þakka ég þeim kærlega fyrir komuna😀.

Jói átti afmæli 7. maí og við fórum í smá kaffiboð til hans í tilefni dagsins:-)

9. maí fór ég  á leikritið/söngleikinn Níu líf  sem fjallar um líf Bubba Morthens.. Þetta er stórkostlegt sýning og mikil upplifun sem ég hefði alls ekki viljað missa af. 

Laugardaginn 11. maí var svo vorferð kórsins. Við hittumst um klukkan 16:30 fyrir framan Stjórnarráðið í sól og sumaryl, gengum aðeins um bæinn og enduðum svo á stað sem heitir Skor. Þar fórum við í allskonar píluleiki, fengum hamborgara og franskar og höfðum gaman saman..

 Vorum þar í c.a. 3 tíma og fórum svo á smá djamm í bænum. Gengum inn á Pablo disco bar, fengum okkur að drekka, vorum næstum ein á staðnum enda snemma kvölds, dönsuðum, sungum með lögunum og fengum útrás í tæplega klukkutíma. Þaðan lá leiðin upp Laugaveginn í frábæru veðri og enduðum á Mál og menningu þar sem voru tónleikar með húsbandinu. Stoppaði þar í smástund og fór svo heim upp úr 22:00, mjög glöð og sæl eftir frábært kvöld í góðra vina hópi. Mikið var þetta gaman, hef ekki skemmt mér svona vel í langan tíma😎. 

Laugardaginn 18. maí fórum við mamma á kvikmyndina  The Fallguy, fínast grín og spennumynd sem ég mæli með :-)

Daginn eftir helltist í mig leiðindaflensa með hita, kvefi, hnerra, hálssærindum, orkuleysi, beinverkum og ég missti bragð og lyktarskynið. Ég var heima alla vikuna og missti af vorferð með vinnunni😰. 

Laugardaginn 25. maí var ég orðin nokkuð góð og fór með Heiði  í Egilshöll þar sem við pöntuðum pizzu og fórum svo á kvikmyndina Furiosa: A Mad Max Saga, sem er alveg ágætis ræma..

Daginn eftir var ég komin með hellu og sáran verk í hægra eyra sem er mjög vont og ég svaf lítið næstu tvær nætur:-(

Fór í vinnuna á mánudeginum, komst til læknis eftir vinnu á þriðjudegi, fékk þar eyrnadropa og sýklalyf, hef komist í vinnuna og er orðin miklu miklu betri af pestinni, ekki samt 100 %.  Þetta er leiðinda og langvinn pest sem margir eru með og þar með talið fólk í kringum mig. Eyrnaverkurinn er farinn en ekki hellan sem þýðir að ég heyri ekki vel hægra megin og þegar ég tala þá bergmálar allt í hausnum á mér, ekki gaman það.. en þetta lagast vonandi fljótlega af sjálfu sér..

5. júni var síðasti vinnudagur í frístundinni og svo var smá vorfögnuður þar fyrir starfsfólkið seinnipartinn.Við elduðum góðan mat og áttum fína samverustund, spjall og stuð😀

Skólaslitin voru á fimmtudag og starfsdagur í gær og nú er ég komin í kærkomið sumarfrí :-) 

Í gær fór ég í klippingu og er núna bara í letistuði, þvo þvott, glápa á TV og slaka á...

Nóg í bili, farið vel með ykkur og njótið lífsins..

Sandra lata..

Saturday, April 20, 2024

Gunnar

 okkar fermdist sunnudaginn 24.mars😀

Ég vaknaði snemma, sótti mömmu og við vorum komnar í Bústaðakirkju aðeins fyrir athöfnina sem byrjaði um 10:30..

Við sem vorum boðin í kirkjuna voru: Jói, Lára, Birgir, ég, Gunni, mamma, Jón pabbi Láru, Steini, Margrét dóttir Steina og  Margrét mamma Steina .

Athöfnin var falleg, tók c.a. klukkutíma, hef ekki farið í svona athöfn í tæplega 30 ár og það hefur aðeins breyst athöfnin, t.d. voru 2 prestar og börnin lásu upp ritingargreinar, það var tónlist og ég og fleiri úr hópnum gengum til altaris með Gunnari...  

Eftir athöfnina voru teknar myndir fyrir utan kirkjuna i góðu veðri og svo fór hluti hópsins heim og aðrir héldu í salinn til undirbúa veisluna. 

Við komum í veisluna tæplega 15:00 og vorum þar í tæpa 3 tíma. Veislan gekk vel, það var fullt út úr dyrum af gestum, fjölskyldu og vinum, hlaðborð með alls kyns kræsingum, kransakökur, vefjur, kleinuhringir, smáhamborgarar, brauðtertur, rjómakaku, grillspjót, kaffi, gos, marsipantertur og rice krispies kaka og Gunnar var ánægður með daginn,

Já, flottur og ánægjulegur dagur í alla staði og gekk vonum framar😃


Páskafríið var fínt, fór aðeins í ræktina og sundlaugina, annars bara afslöppun og Jói og strákarnir komu í matarboð á föstudaginn langa...

Ég fór í kózýkvöld til vinkonu minnar 6. apríl, við fengum okkur Kínamat og horfðum á bíómynd..

Þann 12. apríl átti Gunni afmæli😏 og við héldum upp á það með því að fara út að borða með Jóa, Gunnari og Birgi. Eftir matinn kíktum við heim til Jóa, fengum kaffi og ís og svo kom Birgir með okkur upp í Mosó í gistingu en Gunnar var að fara í fótboltakeppni daginn eftir..

15. apríl var starfsdagur í vinnunni og það var fínasta hlaðborð sem ég og margir fleiri komu með veitingar á.  

Jamm, gott að komast í helgarfrí og svo er nóg framundan næstu vikur, t.d. kóræfingar, tónleikar og vorferðir með vinnunni og kórnum.. 

Nóg í bili.. Sandra lata.

Saturday, March 23, 2024

mikið

 um að vera síðustu vikur..

Gunnar hélt upp á 14. ára afmælið sitt sunnudaginn 18. febrúar.😎 Ég og mamma fórum til Jóa og strákanna þar sem við fengum fínustu steik og meðlæti.. Eftir matinn og samverustundina kom Birgir með mér heim í Mosó í gistingu og cozý enda við bæði komin í vetrarfrí.. 

Daginn eftir náði ég loksins að fara með bílinn í smurningu og seinnipartinn fórum ég, Gunni og Birgir á skemmtilega teiknimynd😀

Birgir fór svo heim seinnipartinn á þriðjudeginum en ég  þurfti  ég að fara á 5 tíma skyldunámskeið fyrir starfsfólk frístundamiðstöðva. 

Fór í klippingu 16. febrúar enda komin tími til..

Laugardaginn 17. feb var þorragleðispartý hjá kórnum. Við hittumst í sal í Mosó, fengum okkur að borða, fórum í leiki og spurningakeppni þar sem mitt lið vann skammarverðlaun😉,  dönsuðum, sungum og áttum skemmtilegt kvöld saman..

Ég fór til Heiðar vinkonu minnar 24. febrúar, við pöntuðum okkur heimsendan mat , horfðum á gamla bíómynd og áttum góða kvöldstund..

Föstudaginn 1. mars hitti ég vinkonur mínar Heiði, Gyðu og Kristínu á kaffihúsi eftir vinnu. Við höfðum ekki hist fjórar saman í langan tíma, það var gaman að hitta þær aftur  og við stefnum á að endurvekja saumaklúbbinn sem við vorum í hér áður fyrr😏

Laugardaginn 2. mars fórum ég og Gunni á fynda og flotta íslenska leikritið Deleríum Búbónis í Borgarleikhúsinu þar sem er mikið um dans og gömul þekkt flott sönglög og skemmtum okkur vel 😃 mæli með þessu leikriti..

Daginn eftir fórum við svo á stórmyndina Dune 2 í sal 1 í Egilshöll, mæli með þeirri mynd.. 

Föstudaginn 8. mars var svo komið að æfingabúðum hjá kórum og loksins gátum við haldið þessa æfinga/árshátíðarhelgi utan við bæinn sem er alltaf miklu skemmtilegra og þjappar hópnum betur saman:-)

Ég var að vinna til 14:00, fór svo heim og tók mig til og lagði af stað rúmlega 17:00. Stoppaði í Borgarnesi til að fá mér kaffi og var svo komin á Hótel Bifröst rétt fyrir 19:00. Fór og náði í lykilinn, setti dótið í herbergið og svo var æfing klukkan 20:00. Við gistum á hótelinu, en vorum með æfingar, hádegis og kvöldmat og árshátíðina í gamla Hreðarvatnsskála( sem við leigðum yfir helgina) sem er nokkrar mínútur frá hótelinu. Æfingin var í c.a. 2 tíma og svo var farið heim og lagt sig..

Daginn eftir var morgunmatur og æfing frá 09:30- 17:00 með matar og kaffihléi. Við fengum sendan hádegsmat og kvöldmat frá rekstraraðilum skálans sem reka líka veitinga og gistihúsið Hraunsnef sem er líka staðsett þarna rétt hjá.. Æfingarnar gengu frekar vel og allir orðin hálf raddlausir eftir daginn ..

Svo var aðeins farið upp á hótel, hvílt sig, farið í sturtu og puntað og svo gengum við af stað upp í skálann aftur, vorum c.a. 10 á leiðinni.. Þá tók við árshátíð, matur, leikir, skemmtiatriði, söngur, dansiball og almenn gleði fram eftir kvöldi. Þetta tókst mjög vel og var svo gaman og gott að eiga svona góða samverustund. Ég var til c.a.01:00 og þá gengum við smá hópur saman til baka á hótelið og ég man bara ekki eftir því hvenær ég labbaði heim af djamminu síðast 😁

Morguninn eftir var vaknað snemma, tekið til, fengið sér morgunmat og lagt af stað í bæinn upp úr 11:00.. Mjög skemmtileg helgi að baki og vonandi endurtekin að ári..

Strákarnir komu í gistingu laugardaginn 16. mars😊 pöntuðum okkur pizzu og höfðum cozý, förum svo öll saman í sund á sunnudeginum og Jói kom svo og sótti þá fljótlega eftir sundferðina..

Á laugardagskvöldinu byrjaði enn og aftur að gjósa á svipuðum stað og síðast við Sund­hnúkagíga og stendur það gos enn og veit enginn hvenær það hættir..

Miðvikudagurinn 20. mars var langur vinnudagur. Mætti í skólann um 08:00, vann þar til 14:00, fór þá í frístundina til 16:00 og fór þá aftur í skólann þar sem var bingó og föndur fyrir börnin til 17:20 og þá tók við bingó, pizza og samverustund fyrir starfsfólkið, var svo komin heim um 18:30...

Það er stór dagur á morgun þar sem Gunnar okkar er að fermast😍 athöfn í kirkjunni 10:30 og kaffiboð klukan 15:00..

Jamm svona gengur þetta allt saman, þarf að vinna 4 tíma í frístund á mánudaginn og er þá komin í langþráð páskafrí:-)

Saturday, February 10, 2024

Góðan

 daginn og gleðilegt nýtt ár. 

Gamlársdagur/ kvöld var rólegt, ég kíkti til múttu í kaffi, við Mosóbúarnir elduðum fínasta lambahrygg og meðlæti, horfðum á sjónvarpið og flugeldana og fórum svo að sofa einhverntíma eftir miðnætti😏.

Við vinnufélagarnir í frístundinni áttum góða samverustund þann 10. janúar, hittumst í Minigarðinum, fengum okkur að borða og spjölluðum og hlógum fram eftir kvöldi.. 😃

Ég hitti vinkonur mínar þær Heiði og Magdalenu föstudaginn 26. janúar. Við hittumst á veitingastað í Kringlunni, sátum þar og borðuðum og töluðum í rúmlega klukkustund og fórum svo í Kringlubíó á rómantíska gamanmynd, áttum góða samverustund þetta kvöld😄

Daginn eftir var stjórnarfundur í kórnum, það var margt og mikið að ræða, skipuleggja og ákveða og á endanum stóð þessi góði fundur í tæplega 3 tíma..

Miðvikudagurinn 31. jan var langur dagur, mætti í skólann rétt fyrir 08:00 og var þar til tæplega 14:00, þaðan fór ég yfir í frístundina og vann þar til rúmlega 18:00, þar sem það var starfsmannafundur eftir lokun...

Gunnar okkar á 14 ára afmæli á morgun😍 mikið líður tíminn hratt..

Framundan hjá mér er m.a. klipping, kórpartý, leikhúsferð og vetrarfrí..

Jæja, lífið og dauðinn, fólk kemur og fer og dauðinn spyr ekki um aldur, stað eða stund..

Í liðinni viku fékk ég dánarfréttir💓 af þremur einstaklingum sem ég þekki, þar af voru tvær frekar óvæntar. Blessuð sé minning þeirra.

Fyrsta tilkynningin var af mjög óvæntu andláti fyrrverandi samstarfskonu sem ég vann með í nokkurn tíma, en hún sem hætti vegna aldurs fyrir örfáum árum. Önnur tilkynningin um andlát var fjörgamall sveitungi minn, en þriðja dauðsfallið var 45 ára gamall barnsfaðir frænku minnar sem lést óvænt heima hjá sér..  

En nú víkur sögunni af náttúruhamförunum á Reykjanesi og Suðurnesjum..

Það er búið að gjósa á Reykjanesskaga af og til síðustu þrjú ár en það hafa verið svokölluð "túristagos" og ekki verið miklar afleiðingar af þeim fyrir íbúa, innviði og húsnæði en nú er staðan önnur.

Atburðarrásin hófst má segja þann 10. nóvember 2023 þegar mjög öflug jarðskjálftahrina skók Reykjanesið og Grindavík sem endaði með því að rýma þurfti Grindavík og allir íbúar fóru burt úr bænum..

Næstu vikur var bærinn að mestu leyti lokaður en svo kom að því að íbúar gátu dvalið þar smá tíma, farið í húsin og tekið dót og einhver atvinnu starfsemi komst í gang, þrátt fyrir miklar skemmdir í bænum, götur og hús með miklar sprungur og jarðsig og hættuleg að fara um bæinn..

Það byrjaði að gjósa 18. des sem setti allt úr skorðum og engin mátti vera í bænum, en það gos stóð stutt og gerði ekki mikinn usla nema að rafmagn fór af Grindavík..

Næstu daga var ekki mikið um að vera í bænum, hann var ýmist opinn eða lokaður og byrjað var að fylla upp í stórar götusprungur og eitthvað uppbyggingarstarf hafið. Þann 10. janúar endaði því miður ein slík sprunguviðgerð með andláti þar sem viðkomandi féll ofan í sprunguna og lést..

En svo 14. janúar byrjaði aftur að gjósa og þá varð mikil eyðilegging þar sem hraun rann bæði yfir Grindavíkurveg og vatnleiðslur þar, en einnig inn í Grindavík þar sem þrjú hús brunnu og fóru undir hraun..sem betur fer voru engir íbúar í bænum þar sem búið var að rýma hann..

Þetta gos stóð einnig stutt en skaðinn var skeður..Sem betur fer var búið að reisa varnargarða rétt hjá Grindavík og þeir björgðu aðeins því hraunið hefði runnið lengra inn í bæinn ef þeir hefðu ekki verið..

Hluti af bænum er mjög illa farinn, ónýt hús, mannvirki, götur og umhverfi og það fær enginn að búa þar núna, bara fara og tæma íbúðir og ná í dót og atvinnurekendur eru sumir fluttir með starfsemi annað, ríkið ætla að kaupa ónýtar eignir af íbúum svo þeir geti flutt og keypt hús annarsstaðar..

 Svo kom enn eitt áfallið 8. febrúar þegar það byrjaði að gjósa enn einu sinni á sömu gossprungu og áður..Þetta var líka mjög stutt gos en þá rann hraun yfir Grindavíkurveg(á öðrum stað),  yfir veginn að Bláa lóninu og yfir mjög stóra heitavatnsæð sem flytur vatn til Suðurnesja..

Þannig að ástandið í dag er mjög alvarleg, það er hitavatnslaust hjá c.a. 30.000 íbúum Suðurnesja og það tekur nokkra daga að koma vatninu á aftur, viðgerð hófst strax en það tekur allt tima, kalda vatnið fór ennig af tímabundið í gær vegna bilunar en það er komið í lag, ásamt því að rafmagnið kemur og fer á Suðurnesjum..

Já, þetta er ekki gott, en svona er nú staðan.. 

Nóg í bili, 

Sandra lata...

Saturday, December 30, 2023

Við fjölskyldan

áttum góða samverustund á Þorláksmessukvöld. Fórum til Jóa um sexleytið, fengum ljúffenga innbakaða Wellington nautasteik, bakaðar kartöflur, salat og meðlæti, kökur, ís og kaffi.. 

Strákarnir voru að spila í rólegheitum þegar við komum.

en voru samt mjög spenntir fyrir pakkahrúgunni og það var mikið stuð í pakkaopnun eftir matinn 😃.

 

Þeir kláruðu að opna sínar gjafir og þá tók eldra fólkið við að opna sína pakka:-)

 Ég fékk fínar gjafir; teppi, hátalara, gjafabréf í Kringluna og leikhús, sturtusápu, krem, servéttur, kerti og 4 bækur eftir Arnald, Stefán Mána, Evu Björg og Söruh Morgan 😉

 Fórum svo heim um tíuleytið..

Aðfangadagur var rólegur,  Jói og Sara komu í kvöldmat, hamborgarhrygg og meðlæti, köku og kaffi.. 

Jóladagur var afslöppunardagur..

Þann 26. des (annar í jólum) mökksnjóaði og það var frost, en götur voru ruddar og saltaðar sem betur fer því útlitið var ekki gott. En okkur mömmu tókst nú samt með því að keyra mjög varlega á 40 km hraða að komast til Hafnarfjarðar um klukkan 18:00 í fjölskyldumatarboð( hangikjöt og meðlæti) hjá Diddó frænda.😏. 

Þetta var ágætis samverustund, það komust ekki allir í fjölskyldunni eins og gengur, veikindi, ófærð og fleira en stefnan er að hafa þetta árlegt, svipað og var alltaf hjá afa og ömmu... Svo var sem betur fer hætt að snjóa þegar við fórum um níuleytið og ekkert mál að keyra heim..

27. 28. og 29. des voru rólegir dagar; smá útréttingar, búðarferð, tiltekt, heimsókn til múttu, lestur, sjónvarpsgláp og tölvuhangs, en við náðum að fara nokkrum sinnum í gönguferðir sem var mjög gott. Settum hálkubrodda undir skóna og þá var lítið mál að arka um nágrennið í snjó og hálku😎.

Jói, Sara og strákarnir flugu út til Flórída 28. des og koma heim 5. jan..

Áðan fór ég svo í nuddpttinn og gufuna, dásamlegt að liðka og mýkja aðeins bakið og axlirnar..

Jamm svona er nú lífið í sveitinni í jólafríinu..

Farið vel með ykkur, gangið hægt um gleðinnar dyr, gleðileg nýtt ár og takk fyrir þau gömlu..

Friday, December 22, 2023

Dásamlegt

 að komast í langþráð jólafrí😀

Birgir kom og gisti hjá okkur 1. des. Hann teiknaði og litaði þessa flottu mynd:

 

Ég fór á dásamlega tónleika í skólanum föstudagskvöldið 1. des sem tveir vinnufélagar mínir úr frístundinni (vanar söngkonur) stóðu fyrir ásamt hljómsveit..

 Mjög flottur consert, falleg og skemmtileg lög, flottur flutningur, góð, heimilsleg og hátíðleg stemming, mikið af starfsfólki, nemendum, foreldrum og öðrum gestum, komst í smá jólaskap eftir þetta😄

15. des sýndu nemendur í 5. bekk fallegu Lúsíusýninguna fyrir nemendur, starfsfólk og foreldra og þetta er alltaf hátíðleg stund..

Seinasti vinnudagurinn var 21. des, var að vinna frá 08:00-16:00 og var mikið um að vera þennan dag, jólaball, leiktími, sparinesti, friðarganga um hverfið, vöfflukaffi, litlu jól og vidjógláp...mikið stuð og gaman:-)

Í gær var klárað að kaupa í jólamatinn og svo bara afslöppun í dag...

Ég hef farið nokkrum sinnum að syngja jólalög með kórnum; fór í Kjarnann í Mosó, í Smáralind, söng við opnun jólatréskógar í Mosó og endaði svo törnina á að syngja á elliheimili í Mosó, alltaf sérstök upplifun og gefandi að syngja þar..😊

Kíkti líka í jólakaffiboð til Ágústu frænku einn laugardag í des..

Við Heiður áttum góða samverustund laugardaginn 16. des.. Hittumst í hádeginu á veitingastaðum Kol á Skólavörðustíg, fengum okkur jólabröns og skiptumst á gjöfum.. Röltum svo aðeins á Laugaveginum í ágætis veðri og keypti hún nokkrar jólagjafir á leiðinni😉

Við erum búin að setja upp jólatréð, skreyta og pakka inn öllum gjöfunum, gerðum það snemma í des, enda allar gjafir komnar þá í hús og ekki eftir neinu að bíða...

Á morgun höldum við svo jólin, í þetta sinn heima hjá Jóa og co,, Wellingtonsteik og meðlæti,  pakkastuð og samvera, verðum  9- 10 manns😄. Jói og Sara koma svo hingað í hamborgarahrygg á aðfangadag og svo eru bara letidagar framundan..

Nóg í bili, óska ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári...

Sandra lataskata..


 


Thursday, November 23, 2023

Eitt

 og annað týnst til undanfarnar vikur..

Laugardaginn 14. október var árshátíðardagur í vinnunni hjá frístundarheimilinu. Dagurinn byrjaði á því að hittumst í frístundinni í hádeginu og fengum okkur smá snarl..Þaðan fórum við í Tennishöllina í Kópavogi til að spila padel sem er einhverskonar útgáfa af tennis. Þarna áttum við skemmtilega stund í c.a tvo tíma, spiluðum og hlógum mikið😅 Síðan var haldið heim á leið til að hvíla sig og taka sig til fyrir kvöldið.. Við hittumst svo aftur í húsnæði frístundarinnar um sexleytið í smá fyrirpartý, vorum þar í c.a klukkutíma og fórum svo samferða í Valsheimilið. 

Þessi árshátíð var sameiginleg fyrir öll frístundaheimili og félagsmiðstöðvar í hverfinu svo þar voru rúmlega 100 manns samankomin í Valsheimilinu. Þar var rosa stuð um kvöldið, við fengum góðan mat, kalkúnabringu, nautakjöt og allskyns meðlæti og eftirrétt. Það voru skemmtiatriði, við tókum hópmyndir, plötusnúður spilaði flotta tónlist, það var mikið dansað og sungið og svo kom MC Gauti og tryllti lýðinn. Fór svo heim um miðnætti. Þetta var mjög gaman í góðra vina hópi og tókst vonum framar og ég hef ekki farið á svona skemmtilegan viðburð í langan tíma😃

Þriðjudagurinn 24. október var merkilegur og fer eflaust í sögubækurnar á Íslandi en þennan dag var stórt kvennaverkfall um allt land( svipuð hugmynd  og árið 1975). Engin kona á mínum vinnustað mætti í vinnuna. Við vorum um 25 konur (úr skólanum)sem hittumst heima hjá einni sem á heima nálægt háskólanum í hádeginu, áttum góða samverustund, spjölluðum saman og fengum okkur kaffi og kökur😉. Síðan gengum við saman niður á Arnarhól, vorum  komnar um 13:30 og tókum þátt í dagskránni á Arnarhóli sem byrjaði hálftíma seinna. Þetta var mjög fjölmennur fundur, reiknað er með að um 100.000 manns hafi verið samkominn á Arnarhóli, veðrið var frábært og það var magnað að hafa verið þarna á staðnum og tekið þátt.😎


 Það var gott að komast í smá vetrarfrí í lok október, ég fór á starfmannafund í frístundinni, í klippingu og tók því svo bara rólega...

Það er búið að ráða 2- 3 starfsmenn í viðbót á frístundaheimilið þannig að við gátum loksins tekið inn 4. bekk😏reyndar bara 3 daga í viku til að byrja með en það er samt betra en ekkert..

Föstudaginn 3. nóvember fór ég til vinkonu minnar í kózýkvöld, fengum okkur pizzu og horfðum á eldgamla grínmynd😊 

8. nóv fór ég á stjórnarfund í kórnum og svo á kóræfingu, erum byrjuð að æfa jólalögin fyrir komandi jólasönglagavertíð þar sem við syngum út um allan bæ í des og fáum smá aur fyrir..

Föstudaginn 17. nóv var jólahlaðborð í vinnunni(skólanum). Það var haldið í sal í Höfuðstöðinni sem voru gömlu kartöflugeymslurnar upp á Höfða áður fyrr, en það er búið að breyta húsnæðinu í kaffihús, listasýningu, veislusal og hárgreiðslustofu.. 

Þetta var rólegt og ágætis kvöld, við mættum um hálfsjöleytið og fengum fordrykk. Maturinn var mjög góður, kalkúnn, innbökuð wellington steik, brúnaðar kartöflur, kartöflugratín, sósa og meðlæti. Eftir matinn kom kennari frá Kramhúsinu með tónlistar og dansatriði, við dönsuðum afródans og hlógum og höfðum gaman saman😏 fór svo heim um 21:30..

Birgir okkar kom í heimsókn og gistingu 18. nóv, við spiluðum innhússfótbolta og hann var svo duglegur að sofa einn í rúminu í gestaherberginu, lesa 10 blaðsíður í lestrarbókinni, skrifa 5 orð í stílabókina, teikna flottar myndir og svo höfðum við kózýkvöld, fengum okkur ís, snakk og gos og horfðum á skemmtilegu skrímslaglímuteiknimyndina Rumble😄 Hann fór svo heim seinnipartinn daginn eftir. 

Þriðjudaginn 21. nóv var komið að árlegum hittingi Borgarkórsins (gamli kórinn minn). Við komum saman 16-17 kórfélagar heima hjá Sigvalda, sungum jólalagaprógrammið, spjölluðum, fengum okkur veitingar og áttum skemmtilega samverustund😀

Er núna heima slöpp eftir flensusprautuna sem ég fékk í gær...en það jafnar sig fljótt.. 

nóg í bili..Sandra

Sunday, October 08, 2023

Í gærkvöldi

fór ég í haustpartý hjá kórnum😃 Þetta var skemmtilegt og flott kvöld. Vorum í sal hér í Mosó, allir komu með eitthvað á matarborðið og svo var borðað, farið í leiki, fjöldasöngur við gítarundirspil, spjallað, dansað og hlegið:-)

Skólann byrjaði aftur um miðjan ágúst. Ég er núna í 2. bekk og held áfram með strákinn minn sem ég var að aðstoða síðasta vetur, fylgi áfram bekknum og kennurunum sem ég var að vinna með og er sátt með það:-)

Ég er líka í frístundinni 3 daga í viku, bætti aðeins við vinnutímann  og er núna  í 20% vinnu þar og er glöð að fá að vera áfram:-)

Nú er staðan þannig að það vantar starfsfólk ( aðallega stuðingsfulltrúa) bæði í skólanum og einkum í frístund og það gengur mjög illa að ráða inn fólk þar sem mjög fáir sækja um störfin. Þetta ástand er út um alla borg í öllum hverfum, skortur á starfsfólki í menntakerfinu. Ég hef ekki upplifað svona ástand í mörg ár og spurning hvað veldur..

Þetta veldur því að við getum ekki tekið inn öll börnin í frístund, höfum alltaf verið með 1.-4. bekk en nú erum við með 1. og 2. bekk og hluta af 3. bekk... 

Jamm vonandi lagast ástandið svo hægt sé að halda uppi fullri starfssemi. Það er aðeins skárra ástandið í skólanum, þar komu nokkrir nýjir stuðningsfulltrúar inn fram eftir hausti en það vantar ennþá fólk😟

Um miðjan ágúst fór ég í bústað með vinkonum mínum, áttum góðar samverustundir, fórum í gönguferð, hlógum og kjöftuðum, héldum upp á afmæli, fengum köku og kaffi, elduðum góðan mat, fengum okkur söngvatn og nammi, horfðum á bíómynd og fórum í pottinn😎

Í september byrjaði rútínan aftur, vinna, kóræfingar, kíkt í kaffisopa hjá mömmu, kórstjórnarfundir (er meðstjórnandi) og ég fór í klippingu. 

Þann 9. sept fórum við Gunni í Egilshöll að sjá bíómyndina  The Equalizer 3, það eru góðar myndir sem ég mæli með..  

23. sept hitti ég vinkonu mína á veitingarstaðnum Horninu, við fengum okkur pizzu og fórum svo í Laugarásbíó á myndina The Expendables 4, þetta eru fínustu hasarmyndir, með smá húmor og skemmtileg afþreying..mæli með þeim..

Föstudaginn 29. sept komu Gunnar og Birgir í heimsókn og gistingu😉. Birgir (130 cm á hæð) er orðin svo duglegur að teikna og lita og bjó til litla bók.. Gunnar er orðin 175 cm á hæð og finnst gaman að vera orðin miklu hærri en "gamla frænka"..  Við elduðum kvöldmat og áttum góða stund..

 Á laugardagsmorguninn skutlaði Gunni Gunnari á fótboltaæfingu en við Birgir tókum því rólega fram eftir degi, hann valdi sér föt af erlendri heimasíðu sem eru hluti af jólagjöfinni og svo kom Lára og sótti hann seinnipartinn.. 

já, svona rúllar þetta nú allt einhvernveginn áfram.. 

Nóg í bili, eigið góða viku...


Wednesday, August 09, 2023

Birgir

 okkar varð 8 ára 16. júlí 😍. Það var haldin afmælisveisla í Ásgarðinum hjá Jóa, kaffi og kökur og nokkrir gestir:-)

Við Gunni fórum í bíltúr einn góðviðrisdag í júlí, keyrðum Þingvallaleið, framhjá Grímsborgum og Þrastarlundi og yfir Hellisheiðina, fínasti bíltúr þann daginn 😉

Ég hitti Heiði vinkonu mína 20. júlí 😊.Við fengum okkur pizzu í Egilshöll og sáum svo nýjustu Mission Impossible myndina, hún var nú ekkert sérstök, en ágætt að sjá hana þar sem ég hef séð allar hinar...

Ég og mamma fórum í bíltúr 2. ágúst. Keyrðum Reykjanesbrautina, fórum í Garðinn, settumst á bekk hjá bílastæðinu og horfðum á sjóinn, fengum okkur svo kaffisopa á Lighthouse-Inn. Héldum svo áfram ferðinni og keyrðum inn í Sandgerði og svo heim. Fínasti bíltúr í góðu veðri😏

Verslunarmannahelgin var ágæt, við Gunni kíktum í bíó á föstudeginum og sáum gríndraugamyndina Haunted Mansion sem var ágætis afþreying, á laugardeginum skrapp ég til mömmu í kaffisopa og á mánudeginum fórum ég og Gunni í bíltúr niður á Reykjavíkurhöfn og fengum okkur að borða á Stælnum á leiðinni heim😋.

Nú er eldgosið í Litla-Hrút búið í bili sem er gott því það var ekki gaman að hafa þessa gosmengun hangandi yfir bænum á góðviðrisdögum. Þetta var kallað "gos-flensan" , einkennin voru .m.a. hausverkur, beinverkir, þreyta, hálssærindi og fleira... Þessi mynd er tekin nokkrum dögum eftir að gosið byrjaði, þetta er flott að sjá. 

 

Í gær fór ég í smá gönguferð meðfram golfvellinum og var ekki komin langt þegar það komu svakalegar þrumur og eldingar fyrir ofan Esjuna og Mosfellsdalinn😲. Hef ekki upplifað svona í langan tíma og það var frekar mögnuð upplifun að sjá svört, hvít og þykk skýin sem fylgdu þessu og heyra þrumurnar svona frekar nálægt. Skúraveðrið kom svo c.a. hálftíma seinna en þá var ég sem betur fer komin heim aftur...

Í dag eru 4 ár síðan Haddi pabbi kvaddi, blessuð sé minning hans..💗

jamm, nóg í bili,vona að þið hafið það gott..

Sandra í sumarfríi:-)

Thursday, July 13, 2023

Fimmtudaginn

 22. júní tók ég þátt í Miðnæturhlaupi Suzuki. Það var mikil rigning og smá vindur þegar ég lagði af stað úr Mosó og mér leist nú ekki alveg nógu vel á veðrið en þegar ég kom í Laugardalinn var smá úði á köflum og lítill vindur og þannig hélst það út hlaupið sem betur fer og ég fór mína 5 km á 48-49 mínútum. Þetta var skemmtilegt hlaup, góð stemming,  mikið af fólki og alltaf gaman að taka þátt. Í  ár var 30 ára afmæli hlaupsins svo það var enn skemmtilegra þar sem flott  medalía, kökusneið, lítill snakkpoki, prótínbarstöng og orkudrykkur beið okkar þegar við  komum í mark😀

29. júní fórum við Gunni á nýjustu Indiana Jones myndina. Hún var skemmtileg, fyndin og spennandi og líkist gömlu myndunum, mæli með henni:-)

Miðvikudaginn  5. júlí hitti ég Elínu vinkonu mína sem býr í Finnlandi og dætur hennar en þær eru að ferðast um Ísland þessa dagana. Ég sótti þær á gistiheimilið og við fórum í Kringluna, kíktum í búðir,  fengum okkur að borða og áttum góða samverustund 😉


Undanfarna daga hefur verið yndislegt veður og  mikil sumarblíða í bænum, glampandi sól, 15-20 stiga hiti, þurrt og ýmist logn eða smá vindur. Ég hef verið dálítið útivið síðustu daga, farið í sund, sólbað og gönguferðir hér í kring, gengið niður að sjó og sest á stein í fjörunni, hlustað á hafið og fuglasöng, farið hring í Álafosskvosinni og laugardaginn 8. júlí var komið að gönguferð og smá klifri í Úlfarsfelli. Ég fer alltaf gönguleiðina skógræktarmegin þar sem er malarstígur og í þetta skipti var ég í góðu stuði, komst í fyrsta skipti loksins alla leið upp á toppinn og var nokkuð ánægð með mig þegar ég var komin upp, þreytt og sveitt😎



Jamm, hef líka dundað mér við eitt og annað, farið í klippingu, skroppið til mömmu í mat og kaffisopa, kíkt í búðir og farið með bílinn í skoðun.. 

Það byrjaði allt að skjálfa hér í síðustu viku það komu stórir og litlir jarðskjálftar frá 5.-10. júlí en svo byrjaði að gjósa á Reykjanesinu 10. júlí á svipuðum slóðum og gosin síðustu tvö ár.. Þetta er lítið gos núna en engin veit hvað það stendur lengi. Sem betur fer er þetta ekki öskugos eins og var þegar Eyjafjallajökull gaus um árið, en það er mikil gasmengun í þessu gosi við Litla-Hrút núna. Þótt það sé leiðinlegt að eiga á hættu að fá gosmengun yfir bæinn er það samt skárra en þessir jarðskjálftar og margir þ.á.m. ég voru fegnir þegar byrjaði loks að gjósa..

Læt þetta nægja í bili, vona að þið eigið góða daga..

Friday, June 16, 2023

Á

 uppstigningardag fórum við mamma á bíómyndina Bookclub 2, sem er um 4 vinkonur sem eru búnar að þekkjast í 50 ár og fara saman í stelpuferð til Ítalíu. Fínasta rómtískt gamanmynd þar á ferð:-)

Daginn eftir sem var föstudagurinn 19. maí var komið að vorferð kórsins á Snæfellsnes. Veðurspáin fyrir helgina var ekki góð, spáð var miklum vindi 20-30 m/sek og rigningu😟


Það var tvísýnt á föstudeginum hvort við myndum fara, en svo gaf rútbílstjórinn grænt ljós og við héldum af stað um kvöldmatarleytið. Ferðin gekk vel þrátt fyrir mikinn vind, við stoppuðum í Borgarnesi og  vorum komin á áfangastað, gistiheimilið/sveitahótelið Langaholt í Staðarsveit c.a. 21:30. Þar gengum við frá dótinu inn á herbergi og svo var smá samverustund fram eftir kveldi.. 

Daginn eftir vaknaði ég snemma, fór í morgunmatinn, skellti mér í sturtu og svo var stutt kóræfing áður en við héldum af stað á Arnarstapa þar sem við áttum pantað borð í hádeginu. Ferðin þangað gekk vel, bílstjórinn keyrði varlega og við fengum okkur að borða á Stapinn cafe, staður sem ég mæli með😊.

Næst var ferðinni heitið á Ólafsvík en þar sem vindurinn var mikill og sterkar vindkviður þurftum við að bíða af okkur veðrið og vorum því í c.a. tvo tíma á Arnarstapa. Við komumst loks af stað, keyrðum yfir Fróðárheiði og þegar við komum í Ólafsvík var komin rigning, en við höfðum sloppið við hana hingað til.. Við vorum búin að boða komu okkar á elliheimilið og sungum þar nokkur lög,c.a. hálftíma prógramm sem gekk vel, áhorfendur voru sáttir og við fengum kaffi og kökur:-)

Svo fórum við sömu leið til baka, gátum ekki keyrt fyrir nesið vegna veðurs og vorum komið heim á hótel um fimmleytið.. Þar tók við skemmtileg spila og gleðistund í tvo tíma og síðan áttum við pantað hlaðborð klukkan 20:00.. Fengum mikið af góðum mat og eftir matinn var spjall, söngur og hlátur fram eftir kvöldi..ég fór í rúmið um miðnætti..

Morguninn eftir var morgunmatur, pakkað saman og svo hittumst við öll í matsalnum til að halda upp á stórafmæli hjá einum kórfélaga, hún fékk köku og afmælissöng og svo var lagt af stað í bæinn um 11 leytið. Við stoppuðum aðeins í Borgarnesi og vorum komin í Mosó um kl 13:00..

Jamm fínasta ferð, þrátt fyrir veðrið, frábær bílstjóri, náðum að fara aðeins um nesið og syngja fyrir áhorfendur, á elliheimilinu, matsölustaðnum og hótelinu og góð samverustund með frábærum kórfélögum😀

Laugardaginn 3. júni fór ég í heimsókn til vinkonu minnar, við fengum okkur kínamat og horfðum á bíómynd..

Síðustu dagana fyrir sumarfrí fórum við með börnin í Húsdýragarðinn, grilluðum pulsur og leyfðum þeim að leika sér í tækjunum í garðinum. Ferðin tókst vel, gott veður og allir þægir.. 

Skólaslit voru 7. júní. Við kvöddum börnin, tókum til í stofunum og svo var sameiginlegur matur í salnum í hádeginu..  

Það er gott að vera komin í sumarfrí og undanfarna daga hef ég m.a. farið í klippingu, farið í búðarferð í Smáralind og Costco, kíkt í ræktina eftir langt hlé, verið sófakartafla, farið í gönguferðir, sund og tekið smá sniglaskokksæfingu😎

Laugardagskvöldið 10. júni fór ég til Jóa bróður og var þar með drengjunum á meðan Jói og Sara skruppu í  40 ára afmæli. Þegar ég var að fara heim tók ég Gunnar með mér í næturgistingu þar sem hann var að  fara í fótboltaskóla í Mosó daginn eftir.. 

Á sunnudagmorgun skutlaði Gunni honum í fótboltann og svo náðum við í Gunnar um 3 leytið, þar var fullt af fólki, útskrift og allir þátttakendur fengu skírteini.. Jói, Sara og strákarnir komu líka á útskriftina og við hittumst svo á Stælnum, fengum okkur að borða, við keyrðum Gunnar heim, en þau kíktu á nýja róluvöllinn í Elliðaárdalnum.. 

Jamm, svona er lífið í sveitinni þessa dagana, hafið það gott og farið varlega í umferðinni...

Sunday, May 14, 2023

fór

 í fermingarveislu hjá Kolbrúnu frænku minni dóttir Diddós og Áslaugar á sumardaginn fyrsta. Fínasta veisla í heimahúsi, kökur, brauðtertur, nammibar og fleira góðgæti í boði, spjall, hlátur og ágætis samverustund með ættingjum😏.

Laugardaginn 22. apríl kíkti ég í kózýkvöld til vinkonu minnar, fengum okkur pizzu, snakk og nammi og horfðum á bíómynd.

Síðustu vikuna í apríl var mikið um að vera hjá kórnum, stjórnarfundur á mánudegi og kóræfingar þriðjudags- og miðvikudagskvöld.  

Föstudagurinn 28. apríl var langur og skemmtilegur. Ég byrjaði á að fara í vinnuna og vann til c.a 14:00. Síðan fór ég beint  í klippingu í Hafnarfirði, kom svo við og tók bensín í Costco og þaðan lá leiðin heim til Jóa bróður til að sækja Birgi. Við Birgir komum við í sjoppu á Ártúnshöfðanum til að fá okkur pulsu og síðan enduðum við í Egilshöll að sjá myndina um Super Mario Bros😀. Þetta var skemmtileg mynd með mikið af góðri 80' tónlist og ég hafði extra gaman af myndina því ég spilaði þennan leik í gamla daga, mæli með þessari mynd.. Myndin var búin um 8 leytið og þá fórum við aðeins í Mosó og svo skutlaði ég honum heim upp úr 22:00..

Það voru svo kóræfingar með hljómsveit og einsöngvara þriðjudagskvöldið 2. maí og fimmtudagskvöldið 4. maí.

 Svo var komið að 35 ára tónleikum kórsins sunnudaginn 7. maí sem við héldum að þessu sinni í   Framhaldskólanum í Mosó. Mættum um kl 18:00, græjuðum kaffi, stilltum upp, röðuðum stólum og tókum smá upphitun og æfingu. Svo týndist gestirnir inn upp úr 19:30 og tónleikarnir hófumst rétt rúmlega 20:00. Þetta voru flottir, skemmtilegir og vel heppnaðir tónleikar og fullur salur af áhorfendum 😀m.a. fyrrverandi kórfélagar, vinir, makar, ættingjar, mamma og Steingerður frænka. Tónleikarnir voru rúmlega 100 mínútur, í hlénu fengum við kaffi og kleinur og í lokin heiðruðum við nokkra meðlimi sem hafa verið með frá stofnun kórsins og gáfum þeim og einsöngvurum blómvönd..

Fimmtudagskvöldið 11. maí fór ég heim til Jóa og var með Birgi á meðan Jói, Gunnar, Björn og Alexander skelltu sér í bíó.. Birgir var duglegur að lesa fyrir mig í heimalestri og skrifa orð úr textanum og svo las ég sögu fyrir hann fyrir svefninn😉. 

Síðastliðið föstudagskvöld var komið að árshátíðinni með vinnufélögum í frístundaheimilinu. Við mættum í fyrirpartý heima hjá forstöðukonunni og síðan fórum við samferða í Hlöðuna í Grafarvogi þar sem var sameiginlegt partý hjá öllum frístundaheimilum í okkar hverfi. Þetta var fínasta skemmtun og samverustund, matur, söngur, dans, leikir, hlátur og stuð😄.

Jamm það hefur verið eitt og annað á dagskrá, nú er ég bara í letistuði og afslöppun...

Vil enda á að óska öllum mæðrum til hamingju með mæðradaginn. 👩


Sunday, April 16, 2023

sem

 betur fer náðust samningar við Eflingu og því varð ekkert úr víðtæka verkfallinu hjá þeim og verkbanninu sem Samtök atvinnulífsins voru búin að boða.

Dagana 10. og 11.mars voru æfingabúðir og árshátið hjá kórnum. Við vorum í sal í Kópavogi (sama og í fyrra). Vorum með æfingu á föstudagskvöldinu og  á laugardeginum frá c.a 10 - 17:00. Síðan skrapp fólk aðeins heim og kom svo aftur rúmlega 19:00 á árshátíðina.  Fengum góðan mat frá Grillvagninum, það voru skemmtiatriði, söngur, dans, tónlist, leikir, hlátur, spjall, gleði og gaman saman😀

18. mars fór ég í fermingu hjá Dalíu sem er dóttir Fífu og Pésa frænda . Það var fínasta veisla sem var haldin í sal í Vatnsendahverfinu.. 

Föstudaginn 24. mars fórum ég og mamma á leikritið: Hvað sem þið viljið í Þjóðleikhúsinu. Það var ágætis gamanleikrit eftir  William Shakespeare í nútímauppfæslu. 😊

Það var gott að komast í páskafrí í byrjun apríl.😉 Í fríinu fór ég m.a. í Kringluna, þvoði bílinn, fór í gönguferðir, var sófadýr sem horfði á imbakassann, fór í sund, nuddpottinn og gufuna og svo fór ég tvisvar í bíó. Fyrst með Heiði vinkonu þriðjudaginn 4. apríl, fórum í Egilshöll, fengum okkur pizzu og sáum svo hasarmyndina John Wick: Chapter 4. Föstudaginn 7. apríl fórum við Gunni svo í Egilshöllina að sjá hrollvekjuna The Pope's Exorcist. Mæli með báðum þessum myndum.. 😎
 
Í gær fór ég í fermingu hjá Írísi dóttur Ágústu frænku. Það var fínasta veisla  sem var haldin heima hjá þeim og við vorum mjög heppin með veðrið, sól og sumar..
 
Nýjustu fréttir af myglumálum í vinnunni er þær að 1.-7. bekkur er komin í hús, en 8.-10. bekkur klárar önnina í Ármúla.. Svo veit engin hvernig þetta verður í haust, kemur allt í ljós...
Jamm, þetta er nóg í bili, eigið góða viku og farið vel með ykkur..

Saturday, February 18, 2023

Vorum

 hjá Jóa og co á gamlárskvöld. Fengum Wellingtonsteik og  meðlæti og drengirnir voru í góðu stuði í flugeldasprengjum:-) 

Það er sama myglufjörið í vinnunni og bætist bara við..  4. og 5. bekkur kom loks í hús eftir jólafrí. Á starfmannafundi í byrjun janúar kom í ljós að miklu fleiri rými væru illa farin og staðan er núna þannig að 7. bekkur fór út í Herkastalann og er þar enn og 8.-10. bekkur fór í húsnæði í Ármúla þar sem annar unglingarskóli hefur verið með kennslu síðan í haust og eru báðir skólarnir þar enn. Myndmenntakennarinn og textílmenntakennarinn þurftu að tæma stofur sínar þar sem þær eru ónothæfar og kenna nú hér og þar um skólann en bókasafnið slapp sem betur fer að mestu leyti:-) 

Í síðustu viku voru tvær stofur í unglingadeildinni opnaðar aftur og flutti 3. bekkur þar inn í bili þar sem það þarf að gera við þeirra stofur.. Það var líka greind mygla í frístundaheimilinu en ekki eins mikið og hafa tvö rými verið tekin þar í gegn en það er búið að opna þau aftur sem betur fer.. Já, þetta er skrýtið ástand sem stendur sennilega fram á vor😒

Ég fór heim til vinkonu minnar 28. jan og áttum við saman kózýkvöld, fengum okkur kínamat og horfðum á vidjó:-)

Gunnar okkar varð 13 ára þann 11. febrúar 😀og af því tilefni hittumst við heima hjá Jóa 9. febrúar, fengum pizzu og áttum góða stund.. 

Laugardaginn 11. febrúar var mikið um að vera í félagslífinu.. Ég hitti kórinn minn í Egilshöll rétt fyrir klukkan 18:00, við fórum í keilu,mikið stuð og gaman. Síðan fengum við okkur að borða, vorum búin að panta pizzahlaðborð kl 19:00, þurftum að bíða dálítið eftir matnum, en ég náði að fá mér nokkrar sneiðar áður en ég fór með vinkonum mínum á bíó klukkan 20:00 sem var í sama húsi.. Þetta var skemmtilegt kvöld með góðu og frábæru fólki.😎

Veðrið hefur verið allskonar eftir áramót,  það hefur skiptst á að vera: rigning, rok, frost, vindur, hláka, logn, hálka, slabb, haglél, snjókoma, skýjað og sól...

Það er líka óróleiki í samfélaginu vegna kjaramála. Margir eru búnir að semja en stéttafélagið Efling var ekki sátt við samninga. Því fóru hótelstarfsmenn í verkfall og í síðustu viku fóru vöruflutningabílstjórar og olíubílstjórar einnig í verkfall. Það kom mikil harka í deiluna og engar viðræður fóru fram í nokkra daga milli viðsemjanda og sáttasemari gat ekki miðlað málum og sagði sig frá málinu.. Nýr sáttasemjari var skipaður í þessu máli og náði deilendum að borðinu í viðræður sem standa nú yfir.  Það leiddi til þess að verkföllum var fresta fram á annaðkvöld og vonandi verða ekki fleiri verkföll hjá þeim hópi. Þetta var skrýtið ástand, fólk hamstraði bensín og í sumum tilfellum mat og þurrvörur því engin veit hvernig þetta fer, en margir aðilar fengu undanþágu, t.d. lögreglan, neyðarþjónusta, spítalar og fleiri.. 

Annars nóg fram undan hjá mér að gera í mars og apríl:  fermingar, leikhús, æfingarbúðir og  bíó. 

Nóg í bili..farin að glápa á imbakassann:-)

Friday, December 30, 2022

Notalegt

 að vera í jólafríi😀. 

Við náðum að gera ýmislegt skemmtilegt í skólanum á aðventunni, nemendur í 5. bekk voru með Lúsíusýningar í salnum, börn og fullorðnir fengu jólamat, nemendur í 1. bekk ásamt nokkrum nemendum á elstu deild leikskólans fengu að heyra jólasögu í salnum og nemendur á miðstigi voru með jólakózý og bíómynd í salnum. Síðasta daginn fyrir jólafrí var haldið jólaball fyrir alla nemendur í nokkrum hollum og í hádeginu komu allir starfsmenn saman á sal og fengu góðan jólamat og jólagjafir😊

Ég fór með samstarfsfélögum í frístundinni á skemmtilegan jólahitting 10. desember. Við hittumst í Minigarðinum, horfðum á fótboltaleik, fengum okkur að borða, fórum í pakkaleik og enduðum svo í minigolfi, mikið stuð, hlátur og stemming það kvöld😎

Rétt fyrir jól fengum við þær fréttir (sem komu ekki á óvart) að mygla hafi fundist í húsnæði frístundarinnar og verður fróðlegt að sjá hvað gerist í þeim málum eftir áramót.. Einnig eigum við eftir að fá frekari fréttir af myglumálum í skólanum..

Miðvikudaginn 21. des hitti ég Heiði vinkonu í okkar árlega jólahitting. Að þessu sinni fórum við á veitingastað niðri í bæ, fengum okkur góðan mat og kaffi og skiptumst á gjöfum, fínasta samverustund:-)

Það er búið að vera mikið um allskonar veikindi í þjóðfélaginu í nóvember og desember og verður væntanlega áfram næstu vikur, Kóvid, flensa, magapestir, öndunarfærasýkingar. RS vírus, streptókokkar og nóróveira og ástandið á bráðmóttökunni, spítölum, heilsugæslunni og Læknavaktinni hefur aldrei verið svona slæmt...

Á föstudagskvöldinu 16. des byrjaði að snjóa og þegar við vöknuðum morguninn eftir var allt á kafi í snjó. Fórum út á bílaplan og þar náði snjórinn mér upp á hnjám! Það var allt meira og minna ófært á stórhöfuðborgarsvæðinu og ekkert annað að gera en að taka því rólega heima með kakó og sjónvarpsglápi.. Daginn eftir kom grafa til að moka bílaplanið og götuna þannig að við komumst  sem betur fer í vinnuna á mánudeginum.. Það er líka búið að vera mikið frost 2-25 gráður í nokkrar vikur, en það á sem betur fer að hlýna eftir áramót.. En veðrið og snjókoman hefur sett mikið strik í reikninginn víða um land undanfarna daga, einkum þó á Suðurlandi, Austfjörðum, Suðvesturlandi og Suðausturlandi, ófærð, rafmagnsleysi,  samgöngur á landi og lofti farið úr skorðum og fólk hefur sumstaðar þurft að moka sig út úr húsum sínum😒 Og ekki er allt búið enn því það er spáð mikilli snjókomu og vindi í nótt, fyrramálið og um miðnætti annaðkvöld svo fólk er beðið um að sinna ferðalögum og erindum í dag og óvist er hvernig fer á morgun með brennur, flugeldaskot og áramótapartý og hittinga..

Aðfangadagur var rólegur, við vorum tvö í kotinu, fengum okkur lambahrygg og meðlæti og horfðum á sjónvarpið.. 

26. des var hér fullt hús af fólki í jólamat og pakkastuði. Ég, Gunni, mamma, Jói, Gunnar, Birgir, Sara, Balti og Alexander(synir Söru). Við borðuðum hamborgarahrygg, meðlæti og ís og svo var mikið stuð hjá fjórum drengjum 6-12 ára að opna pakkana😁


 

Ég fékk fínustu gjafir: gjafakort, sængurföt, bækur, vettlinga, sápu, krem, veski, ilmkúlur, sælgæti, kerti og servéttur.. takk fyrir mig..

Í gær var jólakaffiboð hjá Sigga Barða(bróðir mömmu) og fórum við mamma þangað. Þetta var fyrsta jólaboðið eftir Covid og var fínt að hitta fólkið og spjalla aðeins:-)

Rólegheit í dag og svo erum við boðin til Jóa og co annaðkvöld í mat :-)

Læt þetta nægja í bili, hafið það sem best um áramótin og farið varlega..

Sandra lata..

Tuesday, December 06, 2022

ýmislegt

 fljótlega eftir vetrarfrí var viðgerðum að ljúka á neðri hæð skólans og nú eru ritari og stjórnendur aftur fluttir í rýmin sín. Ennþá eru framkvæmdir í gangi bæði í rými á neðri hæð sem og á efri hæð þar sem 4. og 5. bekkur er með stofur og eru þau nú með aðstöðu í Herkastalnum og verða þar allavega fram að jólum..

31. október hitti ég gömlu kórfélaga mína úr Borgarkórnum:-)   Það hefur verið hefð í þónokkur ár að hittast í desember,og syngja saman jólalögin sem við sungum á sínum tíma  en þar sem Sigvaldi kórstjóri og Lína voru að fara í nokkra mánaða ferð erlendis í byrjun nóvember  ákváðum við að hittast snemma þetta árið..Vorum 20-25 manna hópur sem hittist heima hjá Sigvalda, sungum, fengum okkur kaffi og meðlæti og áttum skemmtilega stund saman:-)

Gaman að segja frá því að í byrjun nóvember vann frístundaheimilið sem ég vinn hjá verðlaun fyrir að vera fyrirmyndar starfsstaður sem og hástökkvari ársins hjá Reykjavíkurborg😀 eftir niðurstöður skoðnakannana meðal foreldra og starfsmanna . Við fengum heimsókn frá Skóla- og frístundasviði á vinnustaðinn þar sem við fengum afhent viðurkenningaskjöl, blóm og köku:-)  



Ég og Heiður áttum kózýkvöld 19. nóv, fengum okkur pizzu og horfðum á ágætis jólamynd á Netlix:-)

Laugardaginn 26. nóv fórum við með strákana í bíó og fengum okkur svo að borða á Stælnum:-) Birgir mátti  gista hjá vini sínum og var spenntur fyrir því svo við keyrðum hann þangað en Gunnar kom með okkur í Mosó og gisti hér.. Um hádegi daginn eftir skutlaði Gunni honum heim þar sem Gunnar átti að keppa í fótboltaleik síðar um daginn. Við fórum svo og horfðum á leikinn og Gunnar skoraði flott mark úr aukaspyrnu:-) leikurinn var spennandi og liðin skiptumst á mörkum, en niðurstaðan var að Gunnar og félagar töpuðu með einu marki..

Föstudaginn 2. des var komið að jólamatnum með vinnufélögum í grunnskólanum :-) Að þessu sinni fórum við á veitingastaðinn Haust í Þórunnartúni..  Vorum þarna rúmlega 50 manna hópur, góð mæting, enda ekki búið að vera jólahittingur síðan 2019.. Mættum á milli 18:00 og 19:00, fengum góðan mat og það var ágætis úrval á þessu jólahlaðborði. Vorum líka með happdrætti og skemmtiatriði og sátum í góðu yfirlæti, söngur, spjall og hlátur til rúmlega 23:00:-)

Sunnudaginn 4. des var komið að jólasöngsdegi með Mosfellskórnum😉 Sungum fyrst hálftíma prógramm úti í jólagarðinum í Mosó kl 16:00 í smá úða og kulda og var ég orðin frosin á tánum eftir það:-) Síðan lá leiðin í Ikea þar sem við sungum klukkutíma prógramm og var ég komin heim um kvöldmatarleytið útsungin eftir ágætis dag.. En það gekk allt vel, góð mæting hjá kórfélögum og hljóðkerfið virkaði vel eftir smá stillingar..

Jamm, svona er nú staðan í sveitinni þessa dagana, erum búin að setja nokkrar jólaseríur í gluggana sem er notalegt í þessu myrkri. Það er búið að vera fínt veður undanfarnar vikur, hiti, rigning, sól, vindur og logn, en það er eitthvað að breytast núna, komið smá frost, kuldi og héla og það á bara að aukast næstu daga;-(

Nóg í bili, farið vel með ykkur

Sandra lataskata..

Monday, October 24, 2022

gott

 að vera í vetrarfríi og hef ég m.a. notað það í að þvo bílinn, farið í bíó, kíkt í Smáralind og farið í klippingu:-)

Það hefur verið dálítið um að vera í kórnum undanfarnar vikur. Ég var "shanghæjuð" til að vera meðstjórnandi í kórnum og hafa verið nokkrir stjórnar og nefndarfundir undanfarið, þar sem við erum m.a. að velja sönglög og ákveða viðburði í tilefni 35 ára afmælis kórsins næsta vor, ásamt öðrum málum;-)

Við héldum við hausttónleika 29. september sem heppnuðust vel og áttum svo skemmtilega samverustund 1. okt þar sem við fórum í hópefli í Reykjavík Escape og borðuðum svo á Fabrikkunni :-)


Í síðustu viku héldum við 2 daga Fjölgreindarleika í skólanum. Þetta eru alltaf skemmtilegir, vel heppnaðir og öðruvísi dagar þar sem öllum nemendum er blandað saman í hópa (1.-10 bekkur) og fara þeir á milli fjölbreyttra stöðva sem kennarar setja upp. Unglingarnir eru fyrirliðar og bera ábyrgð á hópnum og það er gaman að sjá hvað nemendur blómstra, vinna vel saman og nýta hæfileika sína í mismunandi verkefnum á þessum dögum:-)

 Fyrir nokkrum vikum fannst staðfest mygla á nokkrum svæðum í skólahúsnæðinu😠

Það er búið að tæma, henda mikið af gögnum og húsbúnaði og loka herbergjum á neðri hæð þar sem voru fundarherbergi, sérkennslustofa og skrifstofur ritara og stjórnenda og þurftu þeir að flytja aðstöðu sína í önnur rými innan skólans.

Þetta á einnig við um nokkrar kennslustofur á efri hæðinni þar sem 4. og 5. bekkur er með aðstöðu. Það er verið að tæma og loka þeim stofum núna í fríinu og verða nemendur, kennarar og stuðningsfulltrúar  því miður að fara úr húsi eftir fríið en þau fengu sem betur fer aðstöðu í Herkastala Hjálpræðishersins á Suðurlandsbraut sem er rétt hjá okkur. En þetta er samt mikið rask og leiðindi að standa í þessu..

Í kjölfarið verður allur skólinn tekin út og er viðbúið að mygla finnist á fleiri stöðum en við verðum að halda í bjartsýnina og krossa fingur um að þetta sleppi vel..

 

Nóg í bili.. 

Eigið góða viku og farið vel með ykkur..

Saturday, September 10, 2022

jæja

þá er rútínan komin í gang og allt að fara á fulla ferð aftur í samfélaginu eftir faraldurinn,s.s.  ýmiskonar viðburðir, meiri vinna, félagslíf, bæjarhátíðir, jólahlaðborð, vinnuferðir og nemendaferðir. 

    Ég er núna í 1. bekk ásamt 2 öðrum stuðningsfulltrúum, þremur umsjónarkennurum og 50 nemendum:-)   Það hefur ekki verið svona fjölmennur árgangur í 1. bekk í mörg ár svo það þurfti að bæta við einum umsjónarkennara.. Nemendum hefur líka fjölgað í skólanum þannig að skólahúsnæðið, félagsmiðstöðin(sem er inni í skólanum) og frístundin(sem er í húsnæði á skólalóðinni) eru þétt setin og í raun sprungið húsnæðislega.. Einnig eru miklar framkvæmdir í gangi, bæði á skólalóðinni sem og innanhúss svo það er mikið líf og fjör og læti þessa daganna.

Ég er líka að vinna í frístundinni þrjá daga í viku frá 14:00 - 16:00 þannig að þetta eru dálítið viðbrigði eftir 2 ára cozytíma að vinna lengur á daginn svo ég er þreyttari núna þegar ég kem heim, en það í góðu lagi og venst vel:-)

Kórinn er líka kominn á fulla ferð. Við byrjuðum haustönnina á því að syngja á bæjarhátíðinni "Í túninu heima" sem var haldin hér í Mosó í endaðan ágúst eftir 2 ára hlé:-) Framundan hjá kórnum eru svo tónleikar í enda september og ýmislegt annað s.s. partý, jólasöngur, æfingar, vorferð og vortónleikar svo það er nóg að gera..

Í gær var svo haustferðin í vinnunni. Við fórum af stað um klukkan 15:00, fórum með rútu til Hveragerðis og fórum í hópefli og hópleiki og enduðum svo á að fá okkur pizzu á Ölverk sem er fínasti staður. Þetta var mjög skemmtileg ferð, mikið hlegið, leikið sér og fjör:-) Komum svo í bæinn rúmlega hálftíu.. 

Jamm, svona er nú lífið þessa dagana..

Farið vel með ykkur og njótið helgarinnar:-)

Saturday, August 06, 2022

tók

þátt í Miðnæturhlaupinu 23. júní:-) Gaman að vera með, fullt af fólki og þokkalegt veður, þurrt, hefði mátt vera aðeins hlýrra og dálítill vindur á köflum. Mér gekk ágætlega að fara þessa 5 km (c.a. 48 mín) miðað við litla þjálfun og 2-3 ára hlé í hlaupviðburðum sem hafa fallið niður undanfarin ár út af dálitlu..

Ég hitti Elínu og Þórunni vinkonur mínar 19. júní, gaman að hitta þær, enda nokkur ár síðan við sáumst síðast:-)

 Strákarnir hafa verið svolítið hjá okkur í júní og júlí í gistingu og heimsókn, ýmist saman eða í sitthvoru lagi. Birgir kom t.d. til okkar á sunnudagskvöld og fór heim á þriðjudegi og svo helgina á eftir komu þeir bræður saman í heimsókn og gistingu frá laugardegi fram á sunnudag:-) Þessar heimsóknir voru 17. - 24. júlí. Birgir átti 7 ára afmæli þann 16. júlí  svo við fórum með hann í Smárann til að velja sér afmælisgjöf og helgina á eftir fór ég út að borða með Jóa, Söru, mömmu, Gunna, Birgi og Gunnari  í tilefni afmælisins..

Ég og mamma fórum í smá bíltúr á afmælisdaginn minn, fórum fyrst til Selfoss og á leiðinni til baka stoppuðum við í Rósagarðinum í Hveragerði og fengum okkur kaffi og kökur:-)

Ég fór í bíó og vil nefna tvær frábærar myndir sem ég mæli með: nýjustu myndina um Þór, flott og rokkuð, grín, hasar og fínasta skemmtun og nýjustu myndina um Elvis, mjög góð, flott tónlist og atriði og margt kemur á óvart:-)

Ég hitt samstarfsvinkonu mína á kaffihúsi um daginn og við áttum góða stund saman:-)

Svo hef bara verið að snúlla mér, farið í búðarferðir og með bílinn í skoðun, farið í klippingu, gönguferðir og sund, kíkt í heimsóknir til mömmu og hitt Heiði vinkonu mína.

Framundan þessa seinustu daga sumarfrísins er m.a. á dagskrá: hugsanleg bíóferð, klipping, Birgir kemur sennilega annaðkvöld og verður fram á þriðjudag,  ætla ég að hitta vinkonur mínar næstu helgi og svo barasta vinna mánudaginn 15. ágúst..

Nóg í bili.. njótið dagsins og farið vel með ykkur:-)

Saturday, June 18, 2022

yndislegt

 að vera í sumarfríí😊. 

Við Mosóbúarnir höfum undanfarnar vikur farið í þónokkrar gönguferðir í hverfinu og um daginn gengum við rúmlega 5 km hring meðfram Blikastaðnesi og sjónum, frekar hressandi sá göngutúr😎.

 Í lok apríl hitti ég kórfélagana í nokkurskonar lokaslútti þar sem við enduðum starfsárið á að fara í Minigarðinn sem er inniskemmtigarður í RVK. Við tókum minigolfhring, fengum okkur að borða og áttum góða stund saman fram á kvöld😀

Jói bróðir varð fertugur þann 7. maí. Hann var með fínasta heimapartý, fullt af fólki og fjör fram á nótt og ég, Gunni og mamma kíktum aðeins í stuðið😀. 

Um miðjan maí fór ég til Heiðar vinkonu í kózýkvöld, við fengum okkur kínamat og horfðum á vidjómynd😉

Daginn fyrir uppstigningadag var komið að vorferðinni í vinnunni. Við kláruðum kennsluna og fórum svo  í Elliðárdalinn þar sem við fórum í hláturjóga í grenjandi rigningu😝. En það var mikið hlegið í þessum æfingum.  Að því loknu var haldið í Skemmtigarðinn í Grafarvogi sem er útigarður. Þar fórum við í lazertag og axarhöggkastkeppni og sem betur fer stytti upp og sólin lét sjá sig. Að leik loknum fengum við að borða og svo var dagskrá lokið um kl. 20:00, þetta var fínasta ferð, mikið hlegið og kjánast, spjallað og leikið sér.  Þegar ég kom heim voru prinsarnir komnir í óvænta heimsókn og gistingu, gaman að því😘

Á uppstigningadag keyrðum við niður á Reykjavíkurhöfn til að skoða seglskipið, komum svo við á KFC til að fá okkur í gogginn og skutluðum svo strákunum til mömmu sinnar.. 

Á sjómannadaginn fórum við mamma í smá bíltúr niður í miðbæ í tilefni dagsins😏

Á morgun ætla ég að hitta vinkonur mínar, Þórunni sem býr í RVK og Elínu og dætur hennar sem búa í Finnlandi, en eru á landinu í nokkra daga.😃

Jamm, svona er nú lífið á Fróni þessa dagana. Veðrið hefur verið frekar gott,  nokkrir sólardagar og hiti og aðra daga ringing og rok og stundum jafnvel blanda af þessu öllu saman. 

Nóg í bili, eigið góða daga og njótið ykkar...

Monday, April 18, 2022

Notalegt

 að vera í páskafríi:-)

 

Hef dundað mér við ýmislegt undanfarna daga; Hef stundað daglega hreyfingu, ýmist farið í gönguferðir eða í ræktina. Ég dreif mig nefnilega í ræktina í fyrsta skipti í langan tíma,  tók æfingar fyrir bakið og magann og fór í gönguskíðatækið. Ég fór líka í klippingu, þvoði bílinn, lá í sófanum og glápti á imbann, las bækur, hékk í tölvunni og fór tvisvar í bíó. Við Gunni fórum á vampírumyndina Morbius helgina fyrir páska og svo fórum við mamma á ævintýramyndina Lost City á skírdag:-) Ágætis afþreying en ekkert sérstakar myndir þó..

Framundan næstu daga er:  vinna á morgun, miðvikudag og föstudag, á fimmtudaginn er sumardagurinn fyrsti og þá fer ég í fermingu hjá frænku minni, Úlfdísi Völu sem er dóttir Védísar og Breka. Á  laugardaginn ætla ég á pizzu- og bíókvöld með Heiði vinkonu minni og svo 30. apríl er hittingur hjá kórnum í Minigarðinum, þar sem við förum í minigolf og borðum saman:-)

Jamm, svona í lífið í sveitinni, hafið það gott og njótið komandi viku..

Saturday, March 05, 2022

jamm

í febrúar hefur verið mikið um smit og veikindi í kringum mig. Í byrjun febrúar greindist kórstjórinn með kovid og duttu út 2 æfingar vegna þess. Fystu helgina í febrúar komust við Gunni loksins í Borgarleikhúsið(ég pantaði miðana í nóvember, en þurfti að fresta nokkrum sinnum ýmist vegna lokana eða veikinda) að sjá sýninguna Njálu, stórskemmtileg og fyndin sýning sem ég mæli með:-)

 Í annarri viku feb greindist Gunnar litli frændi og var hann lasinn heima á 12 ára afmælisdeginum sínum. Tveim dögum eftir að Gunnar greindist kom veiran hér á heimilið þegar Gunni fékk jákvætt svar á PCR prófi. Ég fór í PCR test til að tékka á mér þar sem ég var mjög útsett fyrir smiti þessa daga en fékk neikvætt.

Sem betur fer voru veikindi þeirra væg og náðum við að halda upp á 12 ára afmælið með því að fara út að borða þegar veikindin voru yfirstaðin nokkum dögum seinna:-)

Það hefur líka fullt af fólki sem ég þekki veikst, vinnufélagar, frændfólk, vinir, kórfélagar og nemendur, en mamma, Jói og ég höfum sloppið ennþá;-) en ég testa mig með heimaprófi öðru hverju..

 Um mánaðarmótin var öllum samkomutakmörkunum og sóttvarnaraðgerðum innanlands og á landamærunum hætt og veiran gengur laus í samfélaginu. En almenningur er beðinn um að halda áfram persónulegum sóttvörnum og margir nota enn grímu og spritta sig. Dagleg smit undanfarnar vikur hafa verið á bilinu 1500- 3000 manns.. Alvarlegum veikindum og spítalahúsinnlögnum hefur fækkað sem betur fer. Omicron afbrigðið er í yfirgnæfandi meirihluta hér, en Delta veiran sem veldur alvarlegri veikindum greinist ennþá hér í litlum mæli...

Fólk þarf ekki lengur að fara í sóttkví né einangrun en er beðið um að halda sig heima ef það veikist.. Það er hægt að fara í hraðpróf ef fólk fær jákvætt á heimaprófi til að að fá veikindin skráð í kerfið.. PCR próf er ekki í boði nema með tilvísun frá lækni. 

Strákarnir gistu hjá okkur seinustu helgi,við höfðum kózýkvöld, horfðum á mynd og fengum okkur ís og nammi:-)

Nú þegar öllum takmörkunum hefur verið aflétt er skemmtana og félagslífið að fara á fullt í samfélaginu.. Í skólanum erum við byrjuð að halda viðburði og skemmtanir fyrir nemendur og starfsfólk, halda fundi og hittast á sal. Það var mikið stuð á öskudaginn, pizza og dansiball í salnum og kötturinn sleginn úr tunnunni:-) 

Það er líka að safnast á viðburðadagatalið hjá mér næstu daga því allir vilja hafa hittast og hafa gaman. Næstu helgi eru æfingabúðir og árshátið hjá kórnum, æfingar, matur, söngur, dans og stuð, ætlum að þessu sinni að halda það í sal í Kópavogi, helgina eftir það ætla ég að hitta vinkonu mína, og svo 25. mars er árshátíð hjá vinnunni, matur, happdrætti, dansiball og stemming:-) 

Veðrið frá áramótum hefur verið óvenjulega leiðinlegt, fannfergi, hálka, rok, rigning, ófærð, lokanir, óveður, lokaðir skólar, viðvaranir í ýmsum litum, fastir bílar, árekstrar, klakabrynjur, vatnsflóð á götum, ónýtir bílar vegna færðar, snjómokstur á götum, göngustígum, húsgötum og bílastæðum, holur og ónýtt malbik, útköll björgunarsveita..... 



 

 Rólegheitadagur hjá mér í dag, sjónvarpsgláp og leti í þessu roki og rigningu sem bylur á glugganum núna

Já, svona er staðan á Fróni þessa dagana, sjáum til hvernig þetta fer allt saman:-)

Hafið það gott um helgina..

Thursday, January 27, 2022

Um

 miðjan janúar voru reglurnar hertar aðeins í samfélaginu þannig að 10 manns mega koma saman, börum og skemmtistöðum var lokað, leikhúsin hafa verið lokuð síðan fyrir áramót og tónleikar, þorrablót og stórir viðburðir voru blásnir af og við erum í "jólafríi" frá kóræfingum enn um sinn..

En reglurnar voru ekki hertar í skólastarfinu og hefur ástandið og kennslan hefur verið eftir því.. Suma daga hafa nemendur í heilu og hálfu bekkjunum verið fjarverandi vegna smita, alls konar veikinda, sóttkvíar, smitgátar og einangrunar og á það einnig við um starfsmenn..

Sem dæmi má nefna að fyrir um 2-3 vikum smitaðist nemandi í bekknum. Sumir krakkar í bekknum fóru í sóttkví og aðrir nemendur og starfsmenn fóru í smitgát. Smitgát virkar þannig að fólk skráir sig í smitgát, fer í hraðpróf  á 1. og 4. degi smitgáttar og útskrifast úr smitgát með neikvæðu hraðprófi á 4. degi.. Það má mæta í vinnu og skóla, fara í búðir og taka þátt í daglegu lífi, það þarf bara að passa upp á að nota grímu, passa fjarlægðartakmörk,  spritta sig, ekki taka þátt í stórum viðburðum og takmarka umgengni við viðkvæma hópa..

Ég fór í þriðju sprautuna (örvunarbólsetning) síðastliðin föstudag  og varð slöpp af henni með bein- og vöðvaverki, kuldahrolli og mikilli þreytu og orkuleysi..

Fjöldi greindra smita helst óbreyttur dag eftir dag 1300-1600 smit á dag en vegna þess að veiruafbrigðið núna veldur ekki eins alvarlegum veikindum og er ekki eins hættulegt og fyrri afbrigði eru reglurnar að breytast þessa dagana og mikið um afléttingar í kortunum. Það á að prófa að "hleypa veirunni lausri" eins og það er kallað..

Í gær var fyrsta skrefið tekið í sambandi við sóttkví, smitgát og sýnatökur. Nú þurfa börn hvorki  að fara í sóttkví né smitgát ef smit greinist utan heimilis, s.s. í skólum, á íþóttaæfingum og í félagsstarfi, en ef smit greinist á heimili þurfa þau að fara í sóttkví. 

Fullorðnir fara heldur ekki í sóttkví ef smit greinist utan heimilis en gætu þurft að fara í smitgát sem verður þó án sýnatöku og hraðprófa. Ef smit greinist á heimili þurfa fullorðnir að fara í sóttkví, nema þeir séu þríbólusettir eða tvíbólusettir og búnir að fá covid.. Nú hefur sýnatöku á hraðprófum minnkað mjög og einnig sýnatökum í PCR prófum sem eru nú einungis tekið af þeim sem hafa covidlík einkenni..

 Varla skánar ástandið í skólastarfinu við þessar aðgerðir, þar sem verður væntanlega meira um veikindi og smit þar sem börn og fullorðnir verða ekki lengur send í sóttkví.

Á morgun verða svo enn meiri breytingar þegar ríkistjórnin kynnir nýja afléttingaráætlun eftir tillögum sóttvarnarlæknis..

Já, þetta verður stuð næstu vikur😕...

 Það voru smá breytingar hjá mér í vinnunni um miðjan janúar þegar skólastjórinn bað mig um að vera eingöngu í 5. bekk og aðstoða þar nemenda sem er nýkominn í skólann og þarf mikla aðstoð og stuðning. Það er ágætt að breyta aðeins til og það gengur  bara vel..

Nóg í bili.. eigið góða viku og farið vel með ykkur..

Saturday, January 08, 2022

Jói

 Gunnar og Birgir komu í heimsókn 30.des,  við áttum kózýkvöld, bíómynd og nammiát..

Jói kom í mat á gamlárskvöld og fór svo til vina sinna.  

Það fór ekki vel þegar flugeldalætin byrjuðu á gamlárskvöld þar sem grasið á Suður og Suðvesturlandi var skraufaþurrt,  það var smá vindur og þurrviðri og því var slökkviliðið fram á nýjársmorgun að slökkva stóra og litla gróðurelda og sinur sem kveiknuðu vegna neista frá flugeldum og einnig vegna óleyfilegra brenna. Við sáum litla sinu hér úti á horni rétt áður en skaupið byrjaði en slökkviðliðið var fljótt á staðinn og tók stuttan tíma að slökkva í henni..

 Þetta ástand endaði með því að upp úr miðnætti  komu tilmæli á fréttamiðlum þar sem slökkviliðið bað fólk um að hætta að skjóta upp flugeldum og urðu flestir við þeim skilaboðum því skothríðin hætti fljótlega eftir það..

Frá 24. des hafa um samtals 1000-1500 smit greinst daglega (innanlands og landamæri) og í þessu ástandi byrjaði skólastarfið aftur eftir jólafrí. Þann 4. jan var starfsdagur á öllum skólastigum, tónlistarskólum, frístundastarfi og félagsmiðstöðum til að skipuleggja starfið og nemendur mættu svo daginn eftir.

Það eru ekki eins miklar takmarkanir í skólastarfinu núna eins og maður hefði búist við í þessu ástandi. Það á að halda úti kennslu í öllum námsgreinum á öllum skólastigum, starfsfólk og nemendur mega fara á milli svæða, hópa og aldursstiga og yngsta og miðstig má vera saman úti í frímó.. Það mega 50 börn vera saman í rými og 20 fullorðnir. Við hólfuðum niður matsalinn og reynum að hafa nemendur sem mest í sínum stofum og sætum.

Nýliðin vika gekk nokkuð vel og við náðum að mestu leyti að halda stundarskrá. Það vantaði um 90-100 nemendur vegna ýmissa ástæðna og um 10-20 starfsmenn. Þar af eru 3-4 starfsmenn með covid, einhverjir eru í sóttkví, í útlöndum, í leyfi og svo eru margskonar aðrar pestir að ganga. 

Byrjað verður að bólusetja 5-11 ára gömul börn í næstu viku, einhverjir starfsmenn eru þríbólusettir en það er stór hluti skóla- og frístundastarfsfólks tvíbólusettur því ekki er liðnir 5-6 mánuður frá  síðustu örvunarbólusetningu, en það verður núna í jan eða feb sem við getum fengið þriðju sprautuna. 

Nú eru um 20000 manns á landinu ýmist í sóttkví eða einangrun og það er farið að hafa áhrif á samfélagið. Reglum var breytt í gær þannig að þríbólusettir sleppa við sóttkví með ákveðnum skilyrðum og nýjar takmarkanir verða kynntar eftir helgina. Búast má við hertu eða óbreyttu ástandi en ekki er reiknað með afléttingum. 

Við bíðum með að byrja æfingar í kórnum þar til ástandið skánar, byrjum í fyrsta lagi 18. jan.. 

Jamm svona er nú staðan á Fróni á nýju ári...

Eigið góða viku og farið vel með ykkur..