Sunday, February 27, 2005

Orð

Þreyta, hegðun, frumlegt, erfitt, gaman, gleði, gamalt, tilgangslaust, árangur, póstur, skýrsla, lestur, skrift, þema, blóm, geta, blöð, ljósrit, bók, hávaði, lag, samskipti, fundir, ferð, sofa, vakna, borða, skrifa, hugsa, gleyma, brosa, vonlaust, bilun, námskeið, peningar, kort, matur, sópa, litir, pennar, krít, fótur, föt, úti, inni, læra, tölur, stafir, tölvur, tala, hlusta, teikna, lesa, rífast, sættast, hlæja, gráta, keyra, baka, smíða, synda, skipulag, syngja, spila, mæla, sinna, finna, sauma, drekka, klára, tími, frí.
Hvað eiga þessi orð sameiginlegt. Fyrir utan að sýna hversu gríðarlega stór orðaforði okkar er þá eru þetta allt orð sem kom upp í hugann á meðan ég sit hér við tölvuna og hlusta á útvarpið ásamt því að undirbúa vikuna.

bílaþvottur

Jæja þá er komið að því, þar sem ég er hætt að sjá út um framrúðuna á bílnum vegna drullu þarf að grípa til aðgerða. Og hvernig ber maður sig svo að í bílaþvotti :-)

Fyrst er bílnum lagt fyrir utan bílskúrinn, hann opnaður og vatnsslangan dregin út. Síðan er skrúfað frá vatninu og bunað kröftuglega á kaggann og nálæga bíla til að ná mestu drullunni af.
Að því loknu fer maður í tvílitu gúmmíhanskana frá Ikea, finnur sér fötu, hellir í hana mikið af sápu, blandar með vatni, lætur freyða vel og tekur sér svamp í hönd. Síðan er sápunni makað á allan bílinn og dekkin með innlifun þangað til að hann er orðinn hvítur( af sápu). Þá er komið að því að skola allt af með sömu aðferð og nefnd var fyrst.
En oft sitja eftir tjörublettir hingað og þangað og sérstaklega á felgunum. Því er reddað með sterkum tjöruhreinsi sem er sprautað vel á blettina og síðan er nuddað fast og lengi með gömlum, slitnum,drullugum svamp. Enn einu sinni þarf að buna rækilega á bílinn.
Eftir þessa meðferð ætti bíllinn að líta þokkalega út að utan, og þá er komið að innviðum hans.
Byrjað er á því að finna sér rakan/ þurran klút og þurrka bleytu af hurðarfölsum og gúmmílistum . Svo er úðað hreinsiefni á mælaborð, hanskahólf og innréttingu og þurrkað af. Mikilvægt er að muna að ekki má úða á stýri, handbremsu né gírana því áferðin af efninu er sleip. Að lokum eru rúður að innan þrifnar með gluggahreinsiblautkútum, rusli hent úr bílnum og fyllt á rúðupissið.
Ahh, ryksuga bílinn, geri það á morgun, nenni ekki út á bensínstöð... :-(
Nú er allt tilbúið fyrir sunnudagsbíltúrinn:-)

Þetta ferli tók um klukkutíma og nú er græna eldingin mín eiturgræn eins og hún ( hann) á að vera:-)
Njótið heil
Sandra bílaþvottagella

Saturday, February 26, 2005

Framundan

er mikið af skemmtilegum viðburðum, s.s. bekkjarkvöld, 2 árshátíðir, æfingabúðir, innflutningspartý, tónleikar og helgarferð til Danmerkur. Þegar hér er komið sögu er komið fram í aðra viku maí , c.a mánuður eftir af skólanum og svo er komið sumarfrí.
Vááá. Tíminn er eins og hraðlest sem æðir áfram og stoppar sjaldan!
En næst á dagskrá er að fara yfir stærðfræðibækur nemenda.

Hafið það gott í dag.
Sandra

Thursday, February 24, 2005

Í stærðfræðitíma hjá Söndru, úrdráttur

K: Jæja krakkar. Í dag ætlum við að vinna með mælingar.
Hvað eru margir centimetrar í einum metra??
N: 5, 10, 100, 1000.
K: Rétt, það eru 100
K: Hvað er lengd, eða hæð?
N: Það er svona hvað maður er stór, langur.
K: Alveg rétt, en hvað er þá breidd?
N: sýna með höndunum hvar mjaðmirnar eru.
K: Já gott, og sýnir sjálfur hvað hendurnar ná langt frá mjöðm :-) og dillar sér smá.
K: Nú eigið þið að nota þessar reglustikur ( tekur fram þessar hlussustikur 1 meters langar) og mæla lengd og breidd á ýmsum hlutum, svo sem gólfið, vegginn og töfluna, og miklu máli skiptir að skrifa allar niðurstöður hjá sér.
Kennari skiptir í nokkra hópa sem hver fær ákveðið verkefni.
Nemendur skella sér í þetta og gengur ágætlega. Einn er ritari og tveir mæla, þvi það þarf einn að færa mælitækið(bók, reglustika) og hinn að halda við með puttanum þar sem mælitækið endar hverju sinni.
N: Við erum búin, hvað eigum við nú að gera.
K: Nú eigið þið að mæla sama hlutinn með bók ,( glott),
N: ?? Vá, ok, hvernig þá??
K: hvað þurfið þið margar bækur til að ná þvert yfir gólfið?
N: Já, en sniðugt
Nemendur byrja að mæla og gengur fínt.
Svo þegar allir hópar voru búnir var komið að því að kynna niðurstöður.
Hver hópur fór upp að töflu og útskýrði verkefni sitt undir leiðandi spurningum kennara.
K: Hvað lærðuð þið á verkefninu?
N: um sentimetra og að nota bók til að mæla.
K: gott, var eitthvað erfitt við verkefnið eða framkvæmdina?
N: já að nota puttann til að halda við!!
Æji þetta var svo krúttlegt og beint frá hjartanu. Gaman að því hvað börnin eru oft miklar dúllur, einlæg, skemmtileg, fyndin og dásamleg:-)

Já segið þið svo að það sé ekki gaman í stærðfræði :-))

Wednesday, February 23, 2005

Portúgal

Við Portúgalgellurnar ætlum að hittast í kvöld í kaffi og með því í heimahúsi. Ég kynntist þessum fjórum frábæru stelpum í Ármúla og minnist þeirra tíma tíma með gleði. Við brölluðum ýmislegt saman og toppurinn á fjörinu var þegar við fórum saman ásamt fleiri krökkum í útkriftarferð þegar við urðum stúdentar til Portúgal vorið 2000. Það eru komin 5 ár síðan, mikið líður tíminn hratt!! Það sem gerði þá ferð ennþá meira spennandi var það að þetta var mín alfyrsta utanlandsferð svo þið getið ímyndað ykkar spenninginn fyrir ferðina :-)

Við fórum síðan í mismunandi nám og störf en það skemmtilega er að við höfum alltaf haldið sambandi síðan og gert okkur ýmislegt til skemmtunar eins og áður. Hist á kaffihúsum, farið á djammið, farið út að borða, föndrað jólakort og svo mætti lengi telja.
Ein okkar er leikskólakennari og vinnur sem deildarstjóri á leikskóla, önnur er verðandi tónlistarkennari, sú þriðja er starfandi geislafræðingur, sú fjórða er í námi í Háskólanum og sú fimmta er grunnskólakennari.
Kaffikveðjur
Sandra

Tuesday, February 22, 2005

þriðjudagur

Það gekk allt með ágætum í dag, krakkarnir voru svolítið spenntir vegna þess að gamall bekkjarfélagi þeirra var kominn til landsins og ætlaði að hitta þau í frímínútum. Þannig fór mikill hluti af tímanum fram að fyrstu frímínútum í að segja mér frá þessum félaga og þess á milli að spyrja hvað væri mikið eftir að tímanum!
En þau voru nú samt dugleg að læra og vinna í þemaverkinu okkar í dag.
Ætla nú að drífa mig í sturtu og fara á kóræfingu:-)
Bæjó
Sandra

Þokan

Þokan liggur eins og grá hula yfir landinu. Ljósastaurarnir skera út gula og hvíta þríhyrninga. Tvö kringlótt ljós birtast skyndilega, nálgast hratt og allt í eins kemur bíll í ljós og skilur eftir sig rauða hringi. Húsin standa eins og klettar allt í kring og hér og hvar má sjá hringlótt ljós í þeim. Margskonar hljóð og raddir berast inn um gluggann en framleiðendur þeirra eru nánast ósýnilegir skuggar í skini ljósins. Úti er rakt og hráslagalegt. Þokan er dulmagnað og undarlegt fyrirbæri sem hefur nú umvafið bæinn samfellt í 2-3 sólarhringa. Er nú ekki komið gott í bili.
Það er ekki skrýtið þó að svo margar drauga, trölla, álfa, útilegumanna og kynjasögur hafi orðið til fyrr á tímum í svona veðráttu. Umhverfi uppsprettu þeirra var ansi magnað, dimm og þröng híbýli, mikið landflæmi, langt á milli bæja og stórkostleg náttúra með vötnum og lækum, fjöllum, dölum, klettum og jöklum. Setjum okkur í spor barns um 1800. Hvaða kynjaverur voru að guða á gluggann? Hver bjó til þessi undarlegu hljóð?
Ég er viss um að þið hafið stundum gert eins og ég þegar þið voruð börn, þ.e. að fela ykkur undir sæng fyrir ímynduðu verunni sem kíkti á gluggann í svona þoku....
Hver mun gægjast inn um gluggann ykkar í nótt?... Úhhú,,
Góða nótt og sofið rótt :-)

Sunday, February 20, 2005

Tónlist

Bamm, bamm, bamm,la,la,la, Deep river, Kom vor nótt og syng, Sveitin milli sanda, Hann Tumi fer á fætur, Heims um ból, House of the rising sun, Tveir fuglar, I love rock and roll.... og svo mætti lengi telja. Þetta eru nokkur orð og titlar sem mér detta í hug þegar ég hugsa um tónlist, texta og tóna. Blús, rokk, teknó, sönglög, barnalög, klassík, laglína, tempó, nótur, orð, dægurlög, jazz, bigband, popp, rymti,hljómsveitir, dúettar, sköpun og flutningur tónlistar, kvikmyndatónlist, litróf tónlistarinnar, kórsöngur..... Þetta er aðeins brot af þeim orðum, hugtökum og fræðimáli sem koma við notum um þennan dásamlega og nauðsynlega part af lífi okkar sem kallast músik/ tónlist. Hvernig væri lífið án þess? Það væri ömurlegt, litlausra, þöglara. Músik er svo stór þáttur í samfélaginu og hægt að nota hvar sem er, og kemur fram víða, í vinnunni, í bílnum, í skólum, í útvarpinu, í sjónvarpinu, á skemmtistöðum, úti á götu, í tölvunni, til að dansa við , syngja með á rauðu ljósi, í leikfimi, sögnvakeppnum, Idol, Evróvision, og svo videre.
Já ég gæti ekki lifað án tónlistar:-)
Í framhaldi af þessari lofræðu um tónlist, kórsöng og dönskuskrifum, var ég búin að segja frá því að ég er að fara í kórferðalag til Danmerkur í maí? Til kóngsins Köpenhavn. Þetta verður stórskemmtilegt og spennandi dæmi, syngja á Stikinu, skoða konugshöllina og stríða vörðunum :-) og jafnvel syngja í Jónshúsi, villast inn í melluhverfið hmm og eitthvað fleira. Þetta er nefnilega jómfrúarferð mín til Danaveldis. Þetta verður þriðja landið sem ég fer til, því ég hef þegar komið til Portúgals og Norge. Ég veit að ég á eftir að koma til Finnlands ! en það verður kannski einhverntíma stelpur mínar:-)

Í syngjandi sveiflu ætla ég að kveðja núna og snúa mér að undirbúningi fyrir morgundaginn.

Saturday, February 19, 2005

dvd

Nú er sleikjan hann Gísli Marteinn að byrja í sjónvarpinu. Best að drífa sig út í sjoppu og ná í eins og 2 dvd myndir, ( eina nýja og gamla frítt með) og dálítið gotterí með. Held ég taki mér ræmuna 9 lives með Wesley Snipes, hann er svo flottur.
Mikið ætla ég að vona að afnotagjöldin hjá RUV verði afnumin, ´þetta er alveg afleit dagskrá hjá þeim á laugardagskveldi , (nema Spaugstofan sem er stundum ágæt). Það er einhver mynd á eftir sem heitir Þrumubrók og er um einhvern pottorm sem prumpar ógeðslega mikið og oft! Þetta er bara rugl að neyða fólk að borga fyrir þetta!
Góða skemmtun gott fólk yfir Gísla gutta Martein
Sandra

Hello

Góðan daginn.
Hvað á maður að gera af sér á laugardegi þegar maður er latur og þarf ekki að gera neitt að vita. Prófa að búa sér til bloggsíðu? Af hverju ekki?
Það er áhætta sem tekin er að láta hugrenningar sínar á blað fyrir allra augum. En ok að prófa.
Afslöppunarhelgi er í garð gengin. Ég þarf ekki að fara yfir neina heimavinnu núna og blessuðu foreldraviðtölin eru næstum búin. Þau gengu furðanlega vel sem betur fer:-)
Var að hlusta á dásamlega lagasmíð frá einum af mínum uppáaldstónlistarmönnum. Meða gítar, trommum og öllu:-) Kemur mjög flott út.
Læt þetta nægja að sinni.
Góðar stundir
Kennarinn