Tuesday, February 22, 2005

Þokan

Þokan liggur eins og grá hula yfir landinu. Ljósastaurarnir skera út gula og hvíta þríhyrninga. Tvö kringlótt ljós birtast skyndilega, nálgast hratt og allt í eins kemur bíll í ljós og skilur eftir sig rauða hringi. Húsin standa eins og klettar allt í kring og hér og hvar má sjá hringlótt ljós í þeim. Margskonar hljóð og raddir berast inn um gluggann en framleiðendur þeirra eru nánast ósýnilegir skuggar í skini ljósins. Úti er rakt og hráslagalegt. Þokan er dulmagnað og undarlegt fyrirbæri sem hefur nú umvafið bæinn samfellt í 2-3 sólarhringa. Er nú ekki komið gott í bili.
Það er ekki skrýtið þó að svo margar drauga, trölla, álfa, útilegumanna og kynjasögur hafi orðið til fyrr á tímum í svona veðráttu. Umhverfi uppsprettu þeirra var ansi magnað, dimm og þröng híbýli, mikið landflæmi, langt á milli bæja og stórkostleg náttúra með vötnum og lækum, fjöllum, dölum, klettum og jöklum. Setjum okkur í spor barns um 1800. Hvaða kynjaverur voru að guða á gluggann? Hver bjó til þessi undarlegu hljóð?
Ég er viss um að þið hafið stundum gert eins og ég þegar þið voruð börn, þ.e. að fela ykkur undir sæng fyrir ímynduðu verunni sem kíkti á gluggann í svona þoku....
Hver mun gægjast inn um gluggann ykkar í nótt?... Úhhú,,
Góða nótt og sofið rótt :-)