Monday, October 24, 2005

Allt að gerast

í þessari viku.
Fræðslufundur á Vífilsstöðum annaðkvöld, fundur í heimahúsi miðvikudagskvöld, heimsókn til vinkonu minnar og kíkja á litla prinsinn hennar á miðvikudagskvöld fyrir fundinn, myndataka í skólanum á miðvikudag, Alþjóðlegur bangsadagur á fimmtudag, boð í Alþjóðaskólann vegna Halloween á föstudag:-)
Pakka niður á föstudag..
flogið til Ameríku á laugardag ;-)
Jamm ekki mun ég sitja auðum höndum næstu daga.

að lokum vil ég óska öllum konum til hamingju með daginn
ÁFRAM STELPUR:-)

Sunday, October 23, 2005

Þráhyggja

skrifa mig frá þessu, koma þessu á blað, hætta að hugsa um þetta, taka ferðinni létt, fylgja með straumnum, verð að hafa það sem markmið, annars fer allt í flækju.
Usa, Ameríka, Bandaríkin, Minniapolis, skólar, kennsluaðferðir, námsmat,stefnur, Gardner, Mall of Amerika, ódýrt, tölvudót, topplyklasett, flott hótel, samstarfsfólk, borða, sofa, versla, skoða, víðáttubrjálæði, stór borg, hræðsla við nýja, stóra staði, sérstaklega Ameríku, bækur, föt, skóladót, tímamunur, hrikalega langt flug, hreyfa sig, skrifa skýrslur, ókeypis ferð, vegabréf, pakka niður, peysur, buxur, á ekki spariföt, má ekki vera í gallabuxum, verð í Outlet eftir viku, símasamband, mikil dagskrá, vetrarfrí, jú, frá nemendum, en að koma endurnærður úr frí, má deila um það, flugmiðar, 5 virkir dagar og 2 helgar, endurmenntun, skólaheimsóknir, allt á ensku, Halloween, kenningar, herbergisfélagi lika búddisti, gott mál, stemming, mórall, hegðun, jákvæðni, tilhlökkun, kvíði, spenna, sjálfstæði, opin, hress, góðar hliðar, lokuð, lítil, feimin, allt í flækju, veit ekki, losna við þessa meinloku...
Kyrja, kyrja, kyrja fyrir ferðinni, Nam-mjóhó-renge-kjó
Farin í sturtu og á ungra kvenna fund.
Heyrumst.

Thursday, October 20, 2005

fundur

héldum okkar fyrsta hverfisfund í gær. Það gekk mjög vel, mæting var fín og langar, góðar og fræðandi umræður. Eftir fundinn kíktum við á fínustu tónleika á kaffihúsi niðri í bæ þar sem félagi okkar var rokka:-)
Skemmtilegur endir á góðu kvöldi og ekki spillti fyrir að vinnudagurinn var líka mjög góður. Semsagt, allt gekk upp í gær :-)

Saturday, October 15, 2005

Skrýtin vika

Hef sveiflast upp og niður, til beggja hliða og endað á jafnvægi og innri ró.
Slæmar og leiðinlegar hliðar sem og góðar og skemmtilegar hafa sýnt sig á víxl. Innri djöflar og ímyndaðar hindranir hafa pirrað mig og valdið óróleika og einkennt undanfarna daga, ásamt innri styrk, sjálfstrausti, öryggi, mýkt og kærleika. Ekki má gleyma Búddaeðlinu sem kom sterkt fram í byrjun og enda vikunnar.
Kvíði fyrir foreldraviðtali, fyrirframgefnar áhyggjur og ímyndað vandamál vegna þess, spennufall eftir viðtalið því það tókst mjög vel, pirringur, minnimáttarkennd og leiðinda hlið á mér kom fram á þróunarhópavinnufundi og þá varð ég nú fúl við sjálfa mig. En það stóð nú ekki lengi, og gat ég fljótlega einbeitt mér að þessum áhugaverða og gagnlega fundi, með miklum skoðanaskiptum, röksemdum og ágætis niðurstöðum, og loksins miðar okkur áfram í því verkefni;-)

Kennslan hefur gengið vel, og ég nýt þess að vera í þessari vinnu og myndi ekki vilja vinna við neitt annað, a.m.k. núna í vetur:-)
Við leggjum mikið uppúr að kenna, fjalla um og nota lífsleikni, um góð og jákvæð samskipti, tökum fyrir einelti, vandamál í skólanum, virðingu, samstöðu og margt fleira. Í einum lífsleiknitíma sem ég kenndi í byrjun vikunnar fórum við í hóphringleik með "gulla/óskastein" sem gekk út á að börnin áttu að segja eitthvað fallegt við þann sem fékk steininn. Það gekk vonum framar og þau voru fljót að koma með falleg orð og hrós:-)
Ég hrósaði þeim mikið alla vikuna, því þau áttu það svo sannarlega skilið :-)
Ég er farin að nota oftar ákveðnar aðferðir sem virka vel,og breyta til, ekki festast í sama farinu. t.d. jákvæðan aga, stimpilkerfi, hrós og jákvæð samskipti og að standa með mér (bæði gagnvart nemendum og samstarfsfólki) og jákvæða ákveðni. Ég nenni ekki þessum skömmum og neikvæðu athugasemdum alltaf, finnst það leiðinlegt, en nota það þegar á þarf að halda, ef ekkert annað dugar. Það er nú bara stundum þannig í kennslu og í öllu áreitinu að fólk notar alltaf sömu aðferðir, og man ekki eftir öðru, hefur ekki tíma til að hugsa og þarf að bregðast strax við, ég hef stundum lent í því, hækka röddina, skamma, tuða, nota neikvæð orð, o.s.frv.. er að reyna að venja mig af því.

Um miðja vikuna sat ég hér heima, hafði ekkert að gera og hálfleiddist. Hringdi í vinkonur mínar til að kjafta og var þá boðið óvænt í vídeókvöld :-)
Ég þáði það feginshendi og skemmti mér ágætlega. Nú svo í gær hringdi vinkona mín í mig og ég heyrði það að henni leið eitthvað illa og þurfti á því að halda að tala við mig. ég bauð henni í heimsókn og við sátum hér og kjöftuðum, átum nammi og horfðum með öðru auganu á bjánalega spólu í notalegu og rólegu umhverfi:-)
Ég var í góðu jafnvægi, sjálförugg, opnaði mig, og með flott Búddhaeðli, hlustaði, ráðlagði, ræddi málin, lánaði henni góða bók, sýndi umhyggju, góðar og sterkar hliðar mínar. Samskipti okkar urðu aðeins öðruvísi og persónulegri en áður og hún kynnist mér á annan hátt og sá nýjar hliðar á mér og ég á henni. Vinkonu minni leið vel, lá í sófanum og hló og fór ánægð heim. Ég var ánægð með kvöldið,það tókst vel og ég náði því persónulega markmiði sem ég hafði sett mér fyrir þessa heimsókn:-)

Í morgun fór ég á sameiginlega kyrjun, var með ábyrgð á kaffinu og meðlæti, ásamt öðrum og tókst það allt með ágætum. Gott að komast á góða og öfluga kyrjun, fæ mikinn styrk, og orku til að takast á við dagleg verkefni, sjálfa mig og umhverfið. Endaði á því að fara í sund, synti meira að segja 3 ferðir, fór svo í gufu og másaði þar eins og fýsibelgur og endaði í nuddpottinum , fæ samt væntanlega harðsperrur:-0
Jæja, læt þetta nægja í bili..
Þangað til næst..

Monday, October 10, 2005

Hrærigrautur

Af hverju eru börn svona grimm og vond hvert við annað? hvurskonar dýrs- og grimmdareðli hafa þau í sér. Stundum mætti halda að þau væri uppi á vitlausri öld, þau mundu passa betur inn í hugsunarháttinn sem var uppi á víkingaöld, auga fyrir auga og tönn fyrir tönn, "ef þú ert að stríða/meiða mig sendi ég stóru systur/bróður til að lemja þig" eða nota markvisst einn stóran og sterkan vin/bekkjarfélaga til að hefna! Ég skil ekki svona, skil stundum ekki hugsunina hjá þessum litlu krílum.


Afhverju er allur þessi ófriður í heiminum, af hverju getur sumt fólk (sérstaklega þeir sem hafa völd og ráða miklu) ekki skilið og viðurkennt að lífið gengur miklu betur, fólk er hamingjusamara, jákvæðara og umhyggjusamara og að heimurinn er miklu öruggari ef að friður ríkir allsstaðar. Hvað er málið? Af hverju þarf fólk alltaf að vera með minnimáttarkennd, í samkeppni, valda og vopnabrölti og vera með endalausa frekju til að ná sínu fram. ÞEtta er bara oft svo óþolandi og yfirgengilegt!!

Kosen-rufu, kosen rufu, kyrjun fyrir friði í heiminum :-) , ekki veitir af..
Nam - mjóhó- renge - kjó

Af hverju missir fólk sig í aðstæðum /umhverfi þar sem maður síst býst við því?
Fólk sem maður hefur kannski bara séð eina hlið á,
ok allir eru mannlegir og allt það en sumt (pirring, áhyggjur...) skilur maður bara eftir heima, tekur ekki með sér út í bæ /í ákveðnum félagsskap!

Ég er bara aðeins að pústa, ekki bara alltaf jollý dagbókarfærslur :-/ Þetta eru pælingar sem ég er að velta fyrir mér núna..

Eigið gott kvöld, það ætla ég að gera og hlakka til að horfa á Karnival í kvöld:-)

Saturday, October 08, 2005

Er

búin að vera á heljarinnar málþingi/ráðstefnu um "nám í nútíð og framtíð" niðri í Kennó í gær og dag. Var í dag frá 8:30-15:30. og í gær í c.a klukkutíma, beint eftir kennslu.
Fór á marga fróðlega og skemmtilega stuttfyrirlestra/erindi (hver um 20 mín). Lærði og hlustaði á erindi m.a. um byrjendalæsi, orðaforða barna, þróun læsis, rannsóknir um lestrarerfiðleika, niðurstöður úr PISA rannsókn, samstarf heimils og skóla, náttúrufræði sem grunnur að samþættingu, tónlist með börnum, úrræði fyrir nemendur með lesblindu o.fl.
Já fjölbreytt og margvíslegt efni og það var erfitt að velja úr þeim tæplega 90 erindum sem voru í boði!
Þetta málþing var liður í endurmenntun og það verður fróðlegt að sjá hve marga tíma þetta gefur..
Þegar öllu þessu var lokið skutlaðist ég niður í HÍ að ná í hann Jóa minn, og kíktum við svo saman á Kaffibrennsluna, Jói á nördafund, en ég að hafa það huggulegt eftir langan dag yfir stórum caffe latte í glasi með vanillusírópi og gómsætri súkkulaðiköku með ís og súkkulaðisósu, nammi namm:-)
Annars er búið að ganga vel í vikunni, börnin mín dugleg, áhugasöm, dúlluleg og góð, og mjög dugleg og duglegri en ég að hlaupa í Norræna skólahlaupinu sem við tókum þátt í á mánudaginn (ég fór nú samt einn hring). Ég fór líka á hverfisfund í vikunni, þar sem við tókum langa og góða kyrjun og undirbjuggum næsta mánuð.
Góða nótt og sofið rótt..
Nam mjóhó renge kjó :-)

Monday, October 03, 2005

Námsefnisgerð.

Er að dunda mér við eitt og annað í sambandi við kennsluna. ég geri nú fleira en að föndra:-) Það er svo gaman að geta kennt og fengist við allskonar verkefni, námsgreinar, kennsluaðferðir og sköpun sem ég hafði því miður ekki tækifæri til í fyrra en nýt þess í botn núna. Má þar nefna jóga, slökun, leikræna tjáningu, vinna með tónlist, og fleira:-)
Var að búa til bullsögur áðan sem ég ætla að nota á morgun:-)
Hér er lítil dæmi, gjörið svo vel og skemmtið ykkur við að leysa þetta:-)

Í víkReykur býr stelpa lítil sem heitir hvítMjall. Hún á heima í húsi gömlu með kringlóttu þaki og bröttum gluggum. hvítMjall er hærð rauð, með blá augu og æfir leikafim

hannaJó og bogiFinn ætluðu að veiða bleikljósa laxa. En fyrst þurftu þau að fara að finna maðkaáðna sem beitu fyrir laxinn. Þau fundu einn og tuttugu áðnamaðka á tímahálf . Þau fengu lánaðan bátára sem afi bogaFinn átti.


Loksins, loksins er Karnival að byrja aftur á RÚV.
Ætla sko ekki að missa að því.
Góðar stundir
Sandra

Saturday, October 01, 2005

Kvikmyndagagnrýni, draumar o.fl.

Hef horft á nokkrar bíómyndir undanfarið. Mæli sérstaklega með tveimur myndum:
1. Night Watch sem er sýnd í bíóhúsum núna, rússnesk mynd, fersk, frumleg, skemmtileg, öðruvísi og flott, pínu halló en samt með dálítið af amerískum áhrifum og tæknibrellum, án þess þó að það trufli mann.

2.Downfall/ Der Untergang . Þýsk mynd sannsöguleg mynd sem lýsir seinustu tíu dögum í lífi Adolf Hitlers. Mjög sterk, áhrifarík og átakanleg mynd með góðum leikurum sem margir hverjir sýna snilldartaka og frábæran leik.

Dreymdi furðulegan og erfiðan draum um daginn, í honum kom m.a. við sögu: mikil reiði, ótti, væntumþykja, gleði, flótta og björgunarleiðangur, sjór, skip, nokkrir nemendur og ættingjar mínir. Hef ekki hugmynd um hvað draumurinn merkir og þarf ekkert að vita það,hef ekki mikla löngun til þess, þ.e. ætla ekki að leita sérstaklega í draumráðningabókum.

Við 1. bekkjarkennarar héldum foreldrakvöld um daginn þar sem foreldrar komu í skólann til að fá smá fræðslu. Við bekkjarkennarar fylgdum þeim allan tímann. Við hlustuðum á frábæran fyrirlestur, borðuðum saman, fórum í skoðunarferð um skólann og á kynningu hjá list/verk/íþróttakennurum og enduðum svo inni í okkar stofum þar sem við höfðum sett upp sýningu á námsgögnum, héldum smá ræðu, fengum okkur kaffi, og spjölluðum saman. Kvöldið tókst með ágætum og mæting var góð.

Ekki má gleyma að minnast á leikskólakennaranemana sem voru hjá okkur í áheyrn alla síðustu viku. Það var nú skemmtilegt og pínu fyndið að fá nema á sínu öðru starfsári:-)Þær voru mest í hinni stofunni, enda var samstarfskennari minn viðtökukennari þeirra en kíktu þó í mína stofu og fylgdust með.
Jamm, að öðru leyti gengur allt sinn vanagang.
Kveð að sinni
Góða nótt