Wednesday, June 29, 2005

Jaa hérna.

Var í heimsókn hjá vinkonum, ein orðin ólétt sem er hið besta mál:-)
En það sem ég ætlaði að segja var að þær hálf "plötuðu" mig( ekki það að mig langar til að fara) til að kaupa miða á Duran Duran concertinn :-) Svo ég dró upp Visað og skellti mér á einn miða í gegnum netið takk fyrir ;-) og þær líka.
Svo við gellurnar erum bara að fara á tónleika klukkan 18:00 á fimmtudaginn, takke för.
Jamm það er gaman að þessu.
Njótið sumarfrísins, það geri ég allavegna;=)

Monday, June 27, 2005

Bíla

viðskipti eru merkileg fyrirbæri. Fórum með Honduna á bílasölu í hádeginu, skildum hana eftir og nú er hún seld!
Annars er lítið að frétta, fór í heimsókn áðan og seldi eina matreiðslubók;-)
Er að jafna mig á því að hafa tapað öllu út af síðunni í gær:-/

Heyrumst...

Fór

í ágætis sunnudagsbíltúr í dag. Skrapp á Gullfoss og Geysisssvæðið,gaman að koma þarna, mörg ár síðan ég hef kíkt. Búið að breyta heilmikið. Keyrði í gegnum Laugarvatn, Flúðir, Selfoss og fleiri staði. Skemmtileg ferð, tók c.a. 4 tíma.
Hvað maður er nú í sumarfríi og þá er upplagt að fara í smá ferðalög:-)
Gaman að leika túrista í sínu eigin landi;-)
Þangað til næst...

Æ,æ

Nú fór illa fyrir mér. Eins og þið sjáið þá er ég búin að skipta um útlit því mig langaði að breyta til. En því miður duttu út allir linkarnir mínir og öll fallegu, góðu og skemmtilegu commentin sem þið hafið skrifað hér inn. Það þykir mér verst af öllu að hafa tapað þeim:-(

Ég reyndi að setja aftur inn linkana, breyta orðalagi á commentum( eins og þau voru) og gat breytt þeim í Haloscan en það kemur ekki fram á blogginu:-(
Ekki tókst mér að forrita linkana (eins og þið sjáið), þrátt fyrir að reyna að fara eftir þeim fyrirmælum sem ég fékk í fyrsta skiptið sem ég gerði síðuna, nema ég náði að skrifa titilinn ( aðrir snillingar) en það vantar einhverja skipun í forritunina þ.e. að setja inn slóðirnar á heimasíðunum, en mér tókst þó að breyta öðrum titlum svo ég er ekki alvitlaus í forritun:-)
Þar sem mér tókst ekki betur til en þetta langar mig að biðja hann Jóa minn að hjálpa mér að laga þetta(linkana, og commentin) þegar hann hefur tíma til.
Góðar stundir
Sandra

Thursday, June 23, 2005

Dunderí

Það hefur nú ekki mikið gerst í þessari viku hjá mér. Ég hef verið að dunda svona við það sem ekki hefur gefist tími til að kíkja á fyrr en nú. Fór til læknis í gær því ég var búin að vera hálfheyrnarlaus í marga daga. Vandamálið fannst strax og ég fór í útskolun og útsog á báðum eyrum. Það er ekki gott skal ég segja ykkur og frekar vont og óþægilegt. Í dag renndi ég svo upp á verkstæði og lét laga smávegis þar, ekkert smá góð þjónusta hjá Toyota :-)
Þurfti næstum ekkert að bíða, átti ekki pantaðan tíma, en þetta rann allt í gegn. Nú svo skellti ég bílunum í aðalskoðun, ég átti sko að koma í mars en fattaði það ekki fyrr en í gær! Ferlega utan við mig stundum. En það var allt í góðu og bara 1 lítil athugasemd:-)
Fór á Batman begins í gærkvöldi, fín filma þar á ferð og langbesta Batman myndin af þeim öllum. Mæli með henni.
Nóg í bili
Sandra

Monday, June 20, 2005

Helgin 17- 19 júní

Sofið út, rölt í miðbænum í sól og sumaryl innan um glaðleg börn á öllum aldri með flottar blöðrur, sleikjó og fána. Tónleikar í Ráðhúsinu, trukkadráttur, pulsa og kók í útitjaldi, lifandi tónlist berst til eyrna. Í mannhafinu birtast kunnuleg andlit, stoppað og spjallað. Síðdegislúr, vídeógláp á fínustu spólur, gos og gotterí. Tekið þátt í rannsókn um líðan og gengi nýrra kennara. Flakkað um í netheimum og legið í góðum bókum. Kaffisopi með kunningjum, skroppið í búð og snædd sunnudagasteik með fjölskyldunni.
Alveg hreint ágætis helgi, róleg og þægileg.
Gott að vera í sumarfríi og slappa af:-)

Saturday, June 18, 2005

17. júní

Íslendingar nær og fjær, til hamingju með daginn.
Ég mæli með víkingahátíðinni í Hafnarfirði. Ég kíkti þangað í gær og var það hin mesta skemmtun:-)
Spurning um að kíkja í bæinn á eftir, kemur í ljós.
Eigið góðan þjóðhátíðardag:-)
Sandra

Wednesday, June 15, 2005

Lýsing

Iðagræn tún með gulum túnfífilsblettum, hestar á beit, í hlíðinni fyrir ofan gul grafa sem étur upp grasið og skilur eftir sig brúnan flekk, rétt þar fyrir ofan er bein svört slóð þar sem bílar bruna á miklum hraða fram og aftur. Menn á óræðnum aldri, nokkrir berir að ofan, sumir standa við steypivél sem snýst, aðrir príla upp á hálfkaraðann steypukubb og berja með hamri og enn aðrir rölta um með stórar tréplötur. Hinum megin við götuna er umgirt grænt tún með stórri gröfu í miðjunni sem kroppar sífellt stór, djúp, löng sár og eys mold og sandi í vörubíla sem standa á færibandi og bíða eftir að fá hlass á bakið, keyra svo burt og leyfa næsta að fá.
Ungmenni að reyta arfa og planta trjám með bros á vör. Litlar mannverur í grænum vestum ganga samhliða í röð hlæjandi og segja frá því sem þau hafa uppgötvað á leiðinni.
Já, svona er lífið í sveitinni og það sem fyrir augu ber þar sem ég sit úti á svölum.

Saturday, June 11, 2005

Hugleiðingar

um svo margt. Verð að skrifa um upplifanir og þetta er kannski allt í belg og biðu og ekki í samhengi en það er allt í lagi. Hugur minn er á fullu núna og orðin brjótast út allt of hratt og þannig er það oft að ekki er mögulegt að koma öllu á blað sem er að ske í heilabúinu.
Einn dagur gefur svo margar upplifanir mismunandi góðar,slæmar,jákvæðar,neikvæðar.
Fór í bæjarferð áðan og hafði samskipti, samveru og samtöl við marga. Sumt var jákvætt og hafði góð áhrif, en annað var neikvætt og hafði mikil áhrif á mig. Eitt orð, setning, atvik, persóna, aðstæður getur komið af stað svo flóknu og miklu hugsunaferli og hugurinn fer út um víðan völl. Minngar koma í bútum, ein örstutt mynd af lífinu birtist vegna einnar setningar. Til dæmis fór ég í heimsókn til ömmu á elliheimilið. Að koma inn um dyrnar, þar gengur gamla fólkið um í sínum eigin heimi, er með koddann eða bangsann í fanginu og þarf svo lítið til að líða vel. Hvað hugsar það? Kannski er koddinn litla barnið eða gæludýrið sem það átti einu sinni. Þau samskipti sem skiptu mestu máli í þessari heimsókn var að vera á staðnum, labba með og sýna hlýju og áhuga. Ekki að tala eða segja frá. Nálægin er nóg. Að horfa á ömmu þarna var í senn mjög sorglegt ( þó það venjist hægt og sígandi)en um leið ágætt því nú er hún í öruggu umhverfi og hefur sitt herbergi og sína hluti. Um leið rifjaðist upp svo margt, myndir birtust örstutt og hurfu svo eins og fiðrildi. Amma að kenna, amma í sveitinni, amma að baka, amma að hjálpa mér með lærdóminn, amma að fara yfir próf, amma í sínum eigin heimi, tannlaus, með koddann sinn í fanginu...Kannski enda ég svona einhvern tímann, af hverju ekki. Það eru sömu forsendur hjá okkur báðum..
Fleiri myndir, tilfinningar, upplifanir úr deginum. Önnur heimsókn, þurfti að sýna mikla þolinmæði, einbeitingu, nálægð, hjálpsemi, finna réttu orðin, uppörvun. Var að hjálpa við að sortera lyf og setja í rétt hólf. Húsið hlaðið af minningum, munum, hlutum, bókum, elli. fékk þakklæti og góðar kveðjur. Kaffisopi og með því, rúsinur og kleinur.
Hugsanatengsl, keðjuverkun, vonbrigði, neikvæðir straumar, jafnvægi, stóísk ró, kvíði, gleði, rólegheit, þakklæti, söknuður, depurð,efi,eftirsjá. Orð sem við eigum til nöfn yfir sem við höfum lært á lífsleiðinni. Tilfinningar sem komu fram í dag.
Orðin sem lýsa mér í gengum daginn eru jafnaðargeð, þolinmæði, stóísk ró og taka lífinu með ró og eins og það kemur fyrir. Ég er ánægð með það því þetta hefur vantað stundum hjá mér í vetur og þarf að koma oftar fyrir í minni persónu, sérstaklga fyrir haustið.
Orðin sem skrifuð eru hvar sem er, eru einungis litlar myndir og lífsbrot sem gleymast fljótt en geta svo komið upp á yfirborðið seinna. Skrýtið hvernig heilinn virkar og hvað hugurinn getur geymt mikið magn af alls konar efni.

Friday, June 10, 2005

Rólegheit

þessa dagana enda komin í sumarfrí:-)
Á miðvikudaginn slitum við skólanum og útskrifuðum 10.bekkinga. Þau voru voða fín og sæt, pæjur og gæjar enda að fara í framhaldsskóla í haust:-)
Ég er búin að fara í sund, rölta í Smáralind, glápa á dvd og kíkja í afmæli. Eitthvað fleira sem ykkur dettur í hug sem ég get dundað mér við:-)
Tók með mér bunka af námsbókum til að lesa og læra í sumar, því ég er nú að fara í 1. bekk í haust:-)
Hey, já, ég er að fara til Ameríku í haust með skólanum í náms, skemmti, verslunar og menningarferð:-)
Ef ykkur langar í fína uppskriftabók á 1000 kall(afhent í haust) hafið þá samband við mig;-)
Best að skella sér nú í sturtu og kíkja á bókasafnið
Heyrumst
Sandra

Sunday, June 05, 2005

Jæja

þá er ég búin að kveðja börnin, afhenda þeim einkunnir og senda þau í sumarfrí. Þessi stund var svolítið undarlegt moment og margar tilfinningar sem komu fram en þó féllu engin tár hjá neinum. Ég kvaddi þau með fögrum orðum og þakkaði bæði nemendum og foreldrum fyrir góða samvinnu og samveru og finnst ég hafi komist vel frá þessu öllu saman:-)

Nú eftir að börnin voru farin var komið að óvissu og drykkjuferð fullorðna fólksins þ.e. kennara og starfsfólks:-)
Öllum var smalað upp í rútu og við vorum varla fyrr sest en að byrjað var að dæla bjór í liðið. Við keyrðum sem leið lá upp í Öskjuhlíð, fyrir framan keiluhöllina og þar var okkur tilkynnt að fyrst á dagskrá væri að skipta okkur í hópa og fara í ratleik um Öskjuhlíð að finna kanínur:-) Við skipt okkur í hópa en þegar við ætluðum af stað var sagt að þetta væri nú bara grín og í staðinn fórum við öll í keilu sem var rosalega gaman og myndaði góða stemmingu og samhug í hópnum:-). Ég var í 2. sæti í mínum hópi:-) í fyrsta skotinu skaut ég niður allar keilurnar, ógesslega góð:-)
Að þessari skemmtun lokinni var farið upp í Heiðmörk og grillað, sungið, drukkið og trallað. Það var líka mjög næs, en sumir orðnir ansi blautir:-)
Upphaflega ætluðum við að koma heim um 6. leytið en vorum ekki komin í bæinn fyrr en rétt um 8. Það var í góðu lagi nema hvað að ekki var fjörið búið þar sem ein af oss hafði boðið okkur í afmælispartý niðri í bæ sem var að byrja um sama leyti.
Því var brunað heim, sturtað sig, málað og farið í betri fötin, náð í stelpurnar og aftur niður í bæ. Þar vorum við í rosa stuði, dansað, sungið og borðað til tæplega 2 og það voru þreyttir, útúrdansaðir, misfullir, edrú kennarar( ég var bílstjóri) sem fóru heim að sofa eftir mjög skemmtilegan, ánægjulegan og langan dag:-)

Annars er vikan búin að vera frekar virk, skemmtileg,og full af hreyfingu og líkamsrækt;-)
Frá mánudegi til miðvikudags er ég búin að vera í göngu og skoðunarferðum 2-3 tíma á dag í æðisgengnu veðri. Niðri í fjöru, í skólagörðum, á Geldingarnesi og úti í móa, ótrúlegt hvað við höfum verið heppin með veður. Á fimmtudag var íþrótta og leikjadagur þar sem ég sá um frjálsar íþróttir, á föstudaginn var keila, rölt í Heiðmörk og dansiball, og í gær spókaði ég mig á Laugaveginum og hitti þar nota bene nokkra nemendur:-) Segið þið svo að ég stundi ekki líkamsrækt og útivist:-)
Þar af leiðir að ég er orðin skemmtilega rauðbrún og freknótt í framan, með harðsperrur og strengi út um allt:-)
Læt þetta nægja í bili.
Sandra