um svo margt. Verð að skrifa um upplifanir og þetta er kannski allt í belg og biðu og ekki í samhengi en það er allt í lagi. Hugur minn er á fullu núna og orðin brjótast út allt of hratt og þannig er það oft að ekki er mögulegt að koma öllu á blað sem er að ske í heilabúinu.
Einn dagur gefur svo margar upplifanir mismunandi góðar,slæmar,jákvæðar,neikvæðar.
Fór í bæjarferð áðan og hafði samskipti, samveru og samtöl við marga. Sumt var jákvætt og hafði góð áhrif, en annað var neikvætt og hafði mikil áhrif á mig. Eitt orð, setning, atvik, persóna, aðstæður getur komið af stað svo flóknu og miklu hugsunaferli og hugurinn fer út um víðan völl. Minngar koma í bútum, ein örstutt mynd af lífinu birtist vegna einnar setningar. Til dæmis fór ég í heimsókn til ömmu á elliheimilið. Að koma inn um dyrnar, þar gengur gamla fólkið um í sínum eigin heimi, er með koddann eða bangsann í fanginu og þarf svo lítið til að líða vel. Hvað hugsar það? Kannski er koddinn litla barnið eða gæludýrið sem það átti einu sinni. Þau samskipti sem skiptu mestu máli í þessari heimsókn var að vera á staðnum, labba með og sýna hlýju og áhuga. Ekki að tala eða segja frá. Nálægin er nóg. Að horfa á ömmu þarna var í senn mjög sorglegt ( þó það venjist hægt og sígandi)en um leið ágætt því nú er hún í öruggu umhverfi og hefur sitt herbergi og sína hluti. Um leið rifjaðist upp svo margt, myndir birtust örstutt og hurfu svo eins og fiðrildi. Amma að kenna, amma í sveitinni, amma að baka, amma að hjálpa mér með lærdóminn, amma að fara yfir próf, amma í sínum eigin heimi, tannlaus, með koddann sinn í fanginu...Kannski enda ég svona einhvern tímann, af hverju ekki. Það eru sömu forsendur hjá okkur báðum..
Fleiri myndir, tilfinningar, upplifanir úr deginum. Önnur heimsókn, þurfti að sýna mikla þolinmæði, einbeitingu, nálægð, hjálpsemi, finna réttu orðin, uppörvun. Var að hjálpa við að sortera lyf og setja í rétt hólf. Húsið hlaðið af minningum, munum, hlutum, bókum, elli. fékk þakklæti og góðar kveðjur. Kaffisopi og með því, rúsinur og kleinur.
Hugsanatengsl, keðjuverkun, vonbrigði, neikvæðir straumar, jafnvægi, stóísk ró, kvíði, gleði, rólegheit, þakklæti, söknuður, depurð,efi,eftirsjá. Orð sem við eigum til nöfn yfir sem við höfum lært á lífsleiðinni. Tilfinningar sem komu fram í dag.
Orðin sem lýsa mér í gengum daginn eru jafnaðargeð, þolinmæði, stóísk ró og taka lífinu með ró og eins og það kemur fyrir. Ég er ánægð með það því þetta hefur vantað stundum hjá mér í vetur og þarf að koma oftar fyrir í minni persónu, sérstaklga fyrir haustið.
Orðin sem skrifuð eru hvar sem er, eru einungis litlar myndir og lífsbrot sem gleymast fljótt en geta svo komið upp á yfirborðið seinna. Skrýtið hvernig heilinn virkar og hvað hugurinn getur geymt mikið magn af alls konar efni.