Monday, December 28, 2020

jæja

 þá er fyrsti skammturinn af bóluefni kominn til landsins nákvæmlega 10 mánuðum upp á dag eftir að fyrsta smitið greindist hér á landi. Það eru góðar fréttir og vonandi virkar þetta bóluefni:-)

Það hafa verið um 20 smit í heildina yfir jóladagana, bæði innanlands og á landamærunum, en meirihlutinn hefur verið í sóttkví við greiningu..

Ég sótti Gunnar til pabba síns 22. des, við komum við í sjoppunni og keyptum smávegis nammi og fórum svo í Mosó þar sem hann gisti hjá okkur:-)

Ég skutlaði honum svo aftur til pabba síns um kaffileytið á Þorláksmessu. 

Aðfangadagur var rólegur, vorum tvö í kotinu, fórum í búðina og keyptum í matinn, fengum okkur lambahrygg og meðlæti um kvöldið, ég opnaði nokkra pakka og svo tók við sjónvarpsgláp:-)

Á jóladag komu mamma, Jói, Katrín, Gunnar og Birgir um kl. 17:30. Við borðuðum hamborgarahrygg og meðlæti, svo tók við spenningur og pakkastuð og leikur með dótið, settar saman bílabrautir og kubbað og teiknað:-)

Mamma, Jói og Katrín fóru um 21:30 en prinsarnir vildu gista hjá okkur:-)

Jói kom um kaffileytið daginn eftir og sótti þá..+

Ég fékk fullt af fínum gjöfum: handklæði, dúk, servéttur, kaffi, konfekt, kjöt, gjafabréf í leikhús og Kringluna, bækur, krem, sápu, kaffibolla, snyrtivörur, húfu, pening og innrammaða mynd af frændum mínum í Noregi, kærar þakkir:-)

Veðrið síðustu daga hefur verið frekar leiðinlegt.

Á aðfangadag var grenjandi rigning og rok, á jóladag var mikill vindur og snjókoma, á annan í jólum var komin dálitill snjór, lítill vindur, frost og smá snjókoma og í gær hlýnaði þannig að eitthvað af snjónum fór og það var mikill vindur en úrkomulítið og í dag hefur kólnað og smá vindur..

Jamm svona er nú staðan á Fróni þessi jólin:-)

Læt þetta duga í bili, óska ykkur góðra daga og vona að nýja árið verði ykkur gott og farsælt..

Saturday, December 12, 2020

jahérna

 það er bara komin 12. des 2020:-)

og veðrið er fínt, 6 stiga hiti, smá rigning og vindur og er áfram spáð svipuðu veðri í næstu viku..


 

Við erum búin að setja jólaljós í gluggana og á svalirnar, en jólatréð bíður væntanlega niðri í geymslu viku í viðbót...

Það er búið að kaupa allar jólagjafirnar, sumar voru keyptar inni í búðunum en aðrar voru keyptar í netverslunum innanlands og eru á leiðinni hingað með heimsendingum og á pósthúsinu:-)

Búið er að útbúa litaviðvörunarkerfi(svipað og með veðurviðvaranir) fyrir landið, eftir því hvernig staðan er á smitum og í dag er staðan svona:

Þetta þýðir  Rautt ástand - mikil fjöldatakmörkun. Miklar líkur á mjög miklum samfélagslegum áhrifum. Strangar og íþyngjandi sóttvarnaaðgerðir á samkomum og jafnvel ferðum fólks innanlands. Mikil hætta á smitum og fólk beðið að halda sig innan síns nánasta tengslahóps og fara sérstaklega varlega í þjónustu og umgengni við viðkvæma hópa. Heilbrigðiskerfið er við þolmörk og álag á viðbragðsaðila mikið.

 Nú er samt aðeins búið að rýmka reglurnar og gilda þær fram í miðjan janúar um allt land.

Ennþá mega bara 10 manns koma saman, tveggja metra reglan er í gildi og grímuskylda í verslunum og þjónustu. Helstu breytingarnar eru að sundstaðir eru opnir almenningi með fjöldatakmörkunum, allar verslanir mega taka við 100 manns að hámarki í stað 10 manns áður,  sviðslistir, bíósýningar og aðrir menningarviðburðir eru opnir með fjöldtakmörkunum, búið er að opna íþróttahúsin fyrir æfingar barna og fullorðina með fjöldatakmörkunum, starfsemi og þjónusta sem krefst snertingar milli fólks er leyfð með þeim skilyrðum að notast sé við andlitsgrímur og 10 manna hámarksfjölda og grímuskylda hjá börnum yngri en 16 ára er afnumin.

Það eru aðeins aðrar reglur í skólastarfi sem verða endurskoðaðar um áramótin. 

Þar eru helstu breytingar að skólasund og skólaíþróttir innadyra eru leyfðar, ekki er grímskylda hjá nemendum í 1-10. bekk, yngsta- og miðstig er í mat í hádeginu og yngsta stigið er saman úti í frímínútum..

Faraldurinn er á viðkvæmum stað núna, vorum búin að ná smitum niður í 4-8 smit á dag og nær allir sem greindust voru í sóttkví en í fyrradag kom bakslag þegar það kom upp 12 manna hópsmit í Hafnarfirði og í gær voru 5 manns smitaðir þar af 3 í sóttkví..

Það eru 28 manns látnir vegna C-19, þar af 18manns í þessari bylgju sem er í gangi núna;-(

já , þetta er öðruvísi aðventa og jólahátíð en bara fínt að hægja aðeins á jólastressinu í samfélaginu :-) 

Það er líka öðruvísi stemming í skólanum núna fyrir jólin, Lúsían og helgileikurinn fellur niður, engin kirkjuferð og ekki jólamatur eða jólagleði fyrir starfsfólkið, en við fáum að dansa í kringum jólatréð, einn bekkur í einu og vera með stofujól og koma með sparinesti:-)

 Mamma á afmæli á morgun og ætlum við halda upp á daginn með matarboði hjá Jóa, Katrínu og strákunum:-)

 Er að vinna alla næstu viku og svo er loksins komið jólafrí:-)

Ætla að hitta vinkonu mína um næstu helgi eins og við gerum alltaf fyrir jólin, skiptumst á jólagjöfum og eigum góða samverustund.

Í þetta skiptið kíki ég heim til hennar og við ætlum að panta okkur pizzu eða annað gott að borða:-)

Læt þetta nægja í bili, farið varlega og eigið góða aðventu:-)