Monday, October 26, 2020

Eitt og annað

 Í dag eru 25 ár síðan stóra og mannskæða snjóflóðið féll á Flateyri þar sem gífurlegt eignartjón varð og 20 manns dóu, blessuð sé minning þeirra.💟

Strákarnir gistu hér þarsíðasta föstudagskvöld. 

Við fórum svo í göngu- og fjöruferð á Gróttu á Seltjarnarnesi fyrir hádegi á laugardeginum, tíndum skeljar og kuðunga og löbbuðum út að vitanum:-)

 Ég er búin að vera undanfarna daga í vetrarfríi sem endar á morgun, gott að fá smá pásu frá grímunotkun allan daginn og komast í " hálfgerða sóttkví".

Byrjaði fríið á fimmtudaginn á því að fara í flensusprautu og kíkti svo eftir hádegið í Kringluna og var að sjálfsögðu með grímu allan tímann...

Tók því rólega dagana á eftir og var heima í rólegheitum..en á laugardagskvöldið fékk ég hita, magaverk og slappleika sem ég ætla að tengja við sprautuna því ég hef fengið slappleika áður eftir svona sprautu og þar að auki er sagt að bóluefnið sé frekar öflugt þetta árið og virki við fleiri tegundum stofna en áður...

Í gær var ég áfram tuskuleg og þorði ekki öðru en að panta mér tíma í skimun. Fór í hana í morgun og seinnipartinn fékk þá niðurstöðu að ég er sem betur fer ekki með C-19😏

Er ennþá drusluleg og reikna með að vera heima á morgun...

 Fjölskylda mín og vinkonur eru laus úr sóttkví og einangrun sem betur fer..

Það hafa komið upp örfá smit hjá nemendum og starfsfólki í skólanum mínum, en þeir einstaklingar greindust í sóttkví og því höfum við ekki þurft að fara í sóttkví vegna þeirra smita...

Með hertum reglum og tilælum sem settar voru í byrjun oktober og gilda til a.m.k. 3.nóvember til að ná tökum á útbreiðslu veirunnar, hefur samfélagssmitum fækkað jafnt og þétt og ástandið var byrjað að lagast aðeins. 

En 22. október kom upp smit á Landkoti þar sem veikir aldraðir einstaklingar dvelja og hefur það breiðst út hjá viðkvæmasta hópnum bæði innan spítalans og utan, m.a. á önnur hjúkrunar og dvalarheimili fyrir eldri borgara. Samtals hafa um 80 manns, sjúklingar, starfsmenn og aðstandendur veikst í þessu klasasmiti  og sér ekki fyrir endann á því, en ekki hafa greinst smit í samfélaginu ennþá tengd þessu smiti, en það kæmi ekki á óvart að það myndi gerast...

Nú eru um 50 manns á Covid deildinni og á Landspítalanum og af þeim sökum er spítalinn kominn á neyðarstig í fyrsta skipti..og ástandið er mjög slæmt;-(

Í dag eru 2468 manns í sóttkví, 1030 í einangrun, 50 á spítala,  3 á gjörgæslu og 1469 í skimunarsóttkví..

nóg í bili...

Eigið góða viku..

Thursday, October 08, 2020

Gunnar

 var hjá okkur síðastliðna helgi, kom á föstudegi og fór á mánudagsmorgni..

Á dagskrá var sjónvarpsgláp, sögustund, tölvuleikjahangs, gönguferð, sundferð og spilastund:-)

Hann var líka duglegur í heimanáminu, lestur í hljóði, sögugerð og stærðfræðiverkefni:-)

Já, fínasta helgi að baki..

en nú er ástandið slæmt á Fróni...

3 bylgjan sem byrjaði um miðjan september breiðist um landið, byrjaði með 13 smitum en undanfarna daga hafa greinst 50-100 smit á dag og er um helmingur þeirra sem greinast í sóttkví;-(

Þessi bylgja er farin að líkjast 1 bylgjunni sem var hér í feb-maí...

Reglur hafa verið hertar um allt land, nú mega 20 manns koma saman, og skemmtistöðum, líkamsræktastöðvum og börum verið lokað, nota skal 1 metra regluna og andlitsgrímur þar sem þjónusta krefst nálægðar. 

Stórar verslanir mega hafa 100 manns inni í einu ef hægt er að tryggja fjarlægðarmörk. 

En höfuðborgarsvæðið ( Reykjavík, Seltjarnarnesbær, Mosfellsbær, Kjósarhreppur, Hafnarfjörður, Garðabær og Kópavogur) sker sig úr því þar eru flest smitin, almannavarnir eru komnar á neyðarstig og reglur hafa verið hertar verulega hér í borginni.

Þessar rástafanir gilda til 19. október til að byrja með..

Búið er á höfuðborgarsvæðinu að loka öllum söfnum, spilasölum leikhúsum, menningarstofnunum, sundlaugum, skemmtistöðum, börum, líkamsrætarstöðvum og öllum stöðum sem veita þjónustu sem krefjast nálægðar, s.s. klippistofum, nudd og snyrtistofum. 

En sem betur fer er heilbrigðisþjónusta, s.s. læknar og tannlæknar ennþá opin:-)

 Allt íþróttastarf fellur niður hjá öllum aldurshópum, tveggja metra reglan gildir og grímunotkun aukin almennt í samfélaginu, veitingastaðir loka kl. 21:00, mælst er til að aðeins einn af hverju heimili fari í matarbúð ef hægt er og nota á grímu ef ekki er hægt að tryggja 2 metra fjarlægð..

 Auk þess sem fólk er beðið um ferðast ekki til og frá borginni að nauðsynjalausu....og reyna að halda sig heima eins mikið og hægt er, vinna heima ef það er í boði og fresta öllum viðburðum og félagstarfi....

Einnig er fólk beðið um að forðast alla hópamyndun sama hver tilgangurinn er, t.d. kóræfingar, hlaupahópar, saumalúbbar, vinnufundir o.s.frv...

 En leik- og grunnskólastarf helst að mestu óbreytt, lítið sem ekkert hólfað niður og hverjum skóla í sjálfsvald sett að útfæra frekari sóttvarnir og stuðla að góðri heilsu og öryggi nemenda og starfsmanna eins og hægt er..

Það eina sem breytist hjá nemendum á höfuðborgasvæðinu er að skólasund fellur niður og íþróttatímar verða kenndir úti þar sem ekki má nota íþróttahúsin. 

Í mínum skóla höfum við aukið sóttvarnir, reynt að minnka samgang starfsmanna, m.a. með ákveðnum kaffi og matartímum fyrir hvert stig, fellt niður fundi og viðburði og komin er grímuskylda á skólatíma hjá starfsmönnum...

Tölfræði dagsins:

 Nýgengi, innanlandssmit 198,8

Í sóttkví eru  4345 manns, í einangrun 864 manns, 23 eru á sjúkrahúsi, 3 á gjörgæslu og öndunarvél..

Já, þetta færist nær og nær og undanfarna daga hefur hluti af fólkinu mínu ýmist verið eða er í sóttkví og einangrun;-(

En ég stend enn uppi, vinnustaðurinn minn hefur sloppið vel hingað til og við tökum bara einn dag í einu...

Eigið góða helgi og farið vel með ykkur..

Stubbaknús..

Sandra