sumarfrí
Ýmislegt hefur á daga mína drifið undanfarið.
Bauð vinkonum mínum í smá afmæliskaffi laugardaginn 11. júlí.
Áttum góða stund saman; ég, Gyða, Kristín, Heiður og litlu krílin; María Dís, Vignir og Arnar Geir:-)
Þriðjudaginn 14. júlí var komið að smá ferðalagi með fjölskyldunni vestur á Barðaströnd og Flateyri:-)
Við lögðum að stað um kaffileytið, ég, mamma, Jói og Gunnar Aðalsteinn..
Tókum okkur góðan tíma, stoppuðum m.a. í Búðardal til að fá okkur pizzu:-)
Vorum komin í sveitina um 10 leytið, þar sem Steingerður frænka og Árni tóku á móti okkur, spjölluðum dálítið við eldhúsborðið, komum okkur fyrir og svo var farið að sofa eftir langan, góðan og skemmtilegan afmælisdag:-)
Morguninn eftir hringdi Lára með þær fréttir að hún væri á leiðinni á spítalann því hún hafði misst vatnið, 3 vikum fyrir áætlaðan tíma..
Við breyttum því ferðaplaninu, Jói og mamma pöntuðu far með Baldri um kvöldið og Gunni kom frá Flateyri til að sækja okkur Gunnar Aðalstein.
Við notuðum tímann á meðan til að kíkja í fjöruna, fara í hjóla og gönguferð, upp í gil og keyra aðeins um ströndina:-)
Lögðum af stað frá Barðaströnd um klukkan 18:00, stoppuðum við Dynjanda og fengum okkur smá nesti, vorum komin á Flateyri um níuleytið, kíktum í smá heimsókn, komum okkur fyrir og fórum að sofa um miðnætti, lúin eftir viðburðaríkan dag;-)
Vöknuðum daginn eftir, fengum okkur að borða og fórum í skemmtilega veiðiferð á bátnum hans Valla:-)
Gunnar Aðalsteinn var áhugasamur um sjómennskuna, fiskana og fuglana, stóð við borðstokkinn með veiðistöng og fékk að sitja í stýrishúsinu farþegamegin:-)
Hann veiddi reyndar ekki neitt, en Valli veiddi nokkra þorska sem við tókum með okkur í bæinn. Vorum í c.a. tvo tíma í ferðinni, fórum svo heim, tókum okkur saman og lögðum af stað í bæinn um tvöleytið.
Áttum fínustu bílferð suður, stoppuðum m.a. í Djúpinu hjá húsarústum og fengum okkur nesti:-)
Komum í Borgarnes um kvöldmatarleytið, fórum í matarbúð og vorum á leiðinni í Hvalfjarðagöngin þegar Jói hringdi með þær fréttir að heilbrigður og flottur 14 merkur og 50 cm lítill drengur væri nýkominn í heiminn:-)
Við keyrðum í Mosó og Gunnar gisti hjá okkur, þar sem Jói og Lára gistu á spítalanum...
Daginn eftir fórum við og keyptum sængurgjöf, kíktum niður á spítala til að sjá piltinn, skiluðum stóra bróður og Gunni hjálpaði Jóa að gera klárt í íbúðinni því mæðginin komu heim um kvöldið...
Gunnar var glaður með litla bróðir og vildi m.a. hjálpa til við að sinna honum, stoltur og góður stóri bróðir:-)
Á laugardeginum fórum við Gunni í gönguferð í Mosó, gengum í kringum Blikastaðanesið, hef aldrei farið það áður, ágætis gönguleið og gaman að sjá, bara passa sig á brjáluðu kríunum:-)
Á sunnudeginum fór ég í heimsókn að sjá litla prins og taka nokkrar myndir af okkur saman:-)
Miðvikudaginn 22. júlí fór ég í heimsókn til Heiðar, við löbbuðum niður í Grasagarð, fengum okkur að borða á kaffi Flóru og gengum svo aftur heim til hennar, fínasta samverustund:-)
Laugardaginn 25. júlí hitti ég Sif litlu systur mína sem var í nokkra daga heimsókn. Við áttum góðan og skemmtilegan dag saman, fórum niður í bæ, fengum okkur að borða á kaffihúsi, spjölluðum heilmikið, löbbuðum Laugaveginn og um miðbæinn og sáum fullt af viðburðum:-)
Um kvöldið fór ég svo í heimsókn til Heiðar, spjall og vídjógláp;-)
Síðastliðinn sunnudag átti ég notalega stund með Kristínu vinkonu, hún náði í mig, við fórum á kaffihús, fengum okkur brunch og spjölluðum mikið:-)
Ég hef líka gert margt fleira, farið til tannsa, kíkt upp á Esju, séð Gunnar Aðalstein á hestanámskeiði og farið í gönguferðir og sniglaskokk, nú þarf að æfa sig fyrir 10. km hlaupið í ágúst, engin miskunn þar á ferð:-)
Já, svona er nú lífið, margbreytilegt í öllu sínu veldi, stundum gerast óvæntir atburðir og stundum er allt í rólegheitum:-)
Læt þetta nægja í bili, eigið góða daga og farið varlega um helgina:-)
Risaknús til ykkar...