Wednesday, August 11, 2021

sumarfrí

 ég og mamma fótum í lítið ferðalag 29. júlí. Keyrðum Þrengslin og enduðum í Þorlákshöfn, mörg ár síðan ég hef komið þangað. Fengum okkur köku og kaffi á kaffihúsinu Hendur í höfn og keyrðum svo Suðurstrandaveginn heim. Sáum ekki gosið frá veginum heldur bara hraunið sem rann niður fjallshlíðina, fínasti bíltúr í góðu veðri þann daginn:-)

Daginn eftir fórum við Gunni í smá bíltúr. Keyrðum Nesjavallaveg og framhjá Soginu, stoppuðum í Þrastalundi og fegnum okkur ís og keyrðum svo Grímsnes og Hellisheiðina til baka, fínasti bíltúr í góðu veðri:-)

Birgir átti 6 ára afmæli þann 16. júlí og var haldið upp á það 18. júlí heima hjá Jóa. Við fengum köku og pizzur og áttum góða stund með fullu húsi af gestum á öllum aldri, vinafólki og fjölskyldu:-)


Ég hitti Heiði vinkonu mína 23. júlí, við áttum góða kvöldstund, skiptumst á afmælisgjöfum, fengum okkur kínamat og horfðum á bíómynd:-)

Gunnar og Birgir gistu hjá okkur síðastliðið sunnudagskvöld og á mánudeginum fórum við á útivistarsvæði hér í Mosó þar sem má m.a. finna, rennibraut, hoppubelg og aparólu. Við áttum góða stund þarna í frábæru veðri, þeir léku sér og svo fengum við okkur ís á leiðinni heim:-)

Já, nú er sumarfríinu að ljúka, vinnan byrjar á mánudaginn og rútínan tekur við...

En þá er komið að veirufréttum..

Upp úr miðjum júlí tók smitum að fjölga mikið. Smitin er flest af Delta afbrigðinu sem er bráðsmitandi og er nær allsráðandi hér á landi þessa dagana. Nú er fjórða bylgjan í fullum gangi og er fjöldi smita 50- 150 á dag. Þetta eru bæði óbólusettir og fullbólusettir sem smitast og fólk á öllum aldri, bæði innanlandssmit og landamærasmit og margir sem smitast eru utan sóttkvíar.  Vegna þessa ástands voru aðgerðir innanlands dálítið hertar þann 25. júlí og gilda aðgerðirnar til 27. ágúst eins og staðan er núna. 

  • Almennar fjöldatakmarkanir verða 200 manns. Börn fædd 2016 og síðar eru undanþegin.
  • Nándarregla verður almennt 1 metri. Börn fædd 2016 og síðar verði undanþegin.
  • Grímuskylda verður tekin upp þar sem ekki er unnt að viðhafa 1 metra reglu, til að mynda í verslunum.Þá er grímuskylda fyrir áhorfendur á íþróttaviðburðum og á menningarviðburðum á borð við leiksýningar, tónleika og bíósýningar. Börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin.
  • Hámarksfjöldi viðskiptavina í verslunum verði 200.
  • Heilsu- og líkamsræktarstöðvum sem og sund- og baðstöðum verður heimilt að hafa opið fyrir 75% af hámarksfjölda leyfilegra gesta.
  • Söfnum verður heimilt að taka á móti 75% af leyfilegum hámarksfjölda gesta.
  • Íþróttaæfingar og -keppnir barna og fullorðinna heimilar með og án snertinga með 100 manna hámarksfjölda. Hámarksfjöldi áhorfenda 200 manns í rými sem skulu skráðir í sæti. Veitingasala óheimil á keppnisstöðum.
  • Æfingar og sýningar sviðslista og sambærilegrar starfsemi heimilar með allt að 100 manns á sviði. Hámarksfjöldi áhorfenda 200 manns í rými, svo sem í bíóhúsum. Heimilt að hafa hlé en enga veitingasölu í hléum. Skrá skal gesti í sæti.
  • Hámarksfjöldi gesta við athafnir trú- og lífsskoðunarfélaga verður 200.
  • Opnunartími veitingastaða, skemmtistaða o.þ.h. verður til kl. 23:00.

 Það var líka aðeins hert á aðgerðum á landmærunum, s.s. að bólusettir einstaklingar með tengsl við Ísland eiga að fara í sýnatöku við komuna til landsins.

Það er líka fleira sem er verið að gera til að sporna við útbreiðslu veirunnar sem lýtur aðallega að bólusetningum. T.d. er almenn bólusetning hjá óléttum konum sem ekki var áður, það á að bólusetja 12-15 ára börn í enda ágúst sem er líka ný nálgun,  til skoðunar er að bólasetja eldri borgara og fólk með undirliggjandi sjúkdóma með þriðja skammtinum og svo eiga allir sem voru bólusettir með Janssen að fá skammt af Moderna eða Pfizer. Mikið af skólastarfsfólki fékk Janssen í vor og þeir voru í forgangi að fá skammtinn núna áður en skólastarf byrjar.  Ég fór í bólusetningu í gær og fékk Moderna. 

Það er ekki komið á hreint hvernig eða hvort það verða miklar takmarkanir í skólastarfi, það eina sem er vitað núna að við fylgum þeim takmörkunum sem eru í samfélaginu en það kemur í ljós fljótlega...Ég veit allavega að ég mun vera með grímu í vinnunni til að byrja með eins og næstum allan síðasta vetur:-0

Nýjustu tölur í dag eru þannig að 1376 manns eru smitaðir í einangrun, 1755 manns eru í sóttkví, 937 eru í skimunarsóttkví, 24 einstaklingar eru á sjúkrahúsi, 5 eru inniliggjandi á gjörgæslu og þar af 2 í öndunarvél..  

jæja, nóg af fréttum í bili..

Eigið góða viku og farið vel með ykkur.🌞