Saturday, April 18, 2020

jamm

vinnuvikan eftir páskafrí búin og gekk hún ágætlega, mætti kl. 08:00 þriðjudag og miðvikudag og 11:30 fimmudag og föstudag...
 Svo kemur í ljós hvernig næsta vika verður..
Veit allavega að ég á að mæta 08:00 mánudag og þriðjudag...


Gunni átti afmæli 12. apríl


 sem að þessu sinni bar upp á páskadag og af því tilefni komu Jói, Katrín, Gunnar og Birgir í matarboð, lambalæri með öllu tiheyrandi og ís og ávextir í eftirrétt:-)

Þriðjudaginn 14. apríl fór mamma í aðgerð á fótunum þar sem verið var að víkka út og setja net í æðarnar. Aðgerðin gekk vel, hún fór heim seinnipartinn og engar aukaverkanir hafa komið fram sem eru góðar fréttir, þannig að þetta virðist hafa gengið vonum framar:-)

Kórónufaraldurinn er á niðurleið hér á landi, færri greinast með smit og fjöldi manns hefur náð bata sem eru góðar fréttir:-)

Því hafa Almannavarnir ákveðið að létta aðeins á takmörkunum þann 4. maí sem felast í því að söfn og ýmis þjónusta s.s. hárgreiðslustofur, tannlæknastofur og  nuddstofur opna á ný og fjöldamörk samkomubanns miðast við 50 einstaklinga, en tveggja metra reglan helst óbreytt í öllum þessum aðstæðum...

Einnig mun skipulagt íþróttastarf barna á leik- og grunnskólaaldri verða heimilt utandyra með eftirfarandi takmörkunum: Ekki fleiri en 50 einstaklingar verða saman í hóp.
Framhalds- og háskólar mega hefja starfsemi á ný en ekki mega vera fleiri en 50 manns saman í rými..

Ennfremur mun skólastarf í leik- og grunnskólum og frístundinni verða með eðlilegum hætti.
en það á eftir að gefa betri leiðbeiningar um hvernig það verður.
Það eru margir í skólakerfinu  og þ.a.m. ég með blendnar tilfinningar gagnvart þessu..
Það verður forvitnileg að sjá hvað gerist í skólanum 4. maí en vonandi gengur þetta allt vel....
 

Nýjustu tölur eru eftirfarandi:
 Staðfest smit: 1760 manns, í einangrun eru 460 manns, 32 á spítala, 3 á gjörgæslu, 1291 hafa náð bata, 1417 eru í sóttkví, 17.667 hafa lokið sóttkví, 9 manns hafa látist og 41. 091 sýni hafa verið tekin...

Já, svona er Ísland í dag....
nóg í bili, farið vel með ykkur og eigið góða helgi...
Sandra í helgarfríi....

Tuesday, April 07, 2020

yndislegt

að komast í smá páskafrí:-)
Átti tíma bæði í klippingu og hjá tannsa í vikunni en það bíður bara betri tíma...

Jói og strákarnir komu í heimsókn á sunnudaginn.
Þeir voru bara nokkuð brattir en Gunnari fannst þetta ástand svolítið skrýtið og leiðinlegt, að geta ekki hitt vinina og lítið að gera í fríinu..

Svo lögðust af allar skipulagðar íþróttaæfingar hjá íþróttafélögum fyrir einhverjum vikum svo það er mikil breyting á rútínunni hjá strákunum..
.en þeir aðlaga sig ágætlega að þessu ástandi...
Birgir fór í leikskólann í gær og kannski fer hann í dag og morgun, veit bara ekki hvernig staðan er á því..

Kíkti aðeins í Kringluna í gær því ég átti smá erindi þangað.
Undarlegt að sjá svona fátt fólk á ferli á þessum stað en gott að fólk fylgi fyrirmælum og haldi sig heima:-)

Fór í 2 fatabúðir, Bónus og apótekið..
Í annarri fatabúðinni var engin nema ég og 1 starfsmaður og í hinni 3-4 kúnnar og 1 starfsmaður,
það var enginn í apótekinu nema ég og nokkrir starfsmenn en í Bónus var slangur af fólki..

Kom svo við hjá mömmu á leiðinni heim, við fengum okkur kaffi og horfðum á daglega blaðamannafundinn í sjónvarpinu...

Það eru stórar hópsýkingar á Ísafirði, í Bolungarvík og í Vestmannaeyjum.
Þar er stór hluti íbúa ýmist veikur, í sóttkví eða í einangrun.
Þar mega ekki koma saman fleiri en 5 manns og skólarnir eru lokaðir..

Nýjustu tölur af veirunni eru: að 1562 manns eru með staðfest smit, 1096 eru í einangrun, 37 eru á sjúkrahúsi, 11 eru á gjörgæslu, 5263 eru í sóttkví, 27.880 sýni hafa verið tekin, 12.467 hafa lokið sóttkví og 460 manns er batnað sem eru góðar fréttir..

En því miður hafa 6 einstaklingar frá ýmsum stöðum á landinu látið lífið af völdum veirunnar ;-(
Það var 1 í Bolungarvík, 1 á Ísó, 1 í Reykjavík, 2 í Hveragerði (það voru hjón) og einn erlendur ferðamaður sem dó á Húsavík...

Vil bara enda þessa færslu á að segja:
Hlýðum Víði og ferðumst innanhúss um páskana:-)