Thursday, January 27, 2022

Um

 miðjan janúar voru reglurnar hertar aðeins í samfélaginu þannig að 10 manns mega koma saman, börum og skemmtistöðum var lokað, leikhúsin hafa verið lokuð síðan fyrir áramót og tónleikar, þorrablót og stórir viðburðir voru blásnir af og við erum í "jólafríi" frá kóræfingum enn um sinn..

En reglurnar voru ekki hertar í skólastarfinu og hefur ástandið og kennslan hefur verið eftir því.. Suma daga hafa nemendur í heilu og hálfu bekkjunum verið fjarverandi vegna smita, alls konar veikinda, sóttkvíar, smitgátar og einangrunar og á það einnig við um starfsmenn..

Sem dæmi má nefna að fyrir um 2-3 vikum smitaðist nemandi í bekknum. Sumir krakkar í bekknum fóru í sóttkví og aðrir nemendur og starfsmenn fóru í smitgát. Smitgát virkar þannig að fólk skráir sig í smitgát, fer í hraðpróf  á 1. og 4. degi smitgáttar og útskrifast úr smitgát með neikvæðu hraðprófi á 4. degi.. Það má mæta í vinnu og skóla, fara í búðir og taka þátt í daglegu lífi, það þarf bara að passa upp á að nota grímu, passa fjarlægðartakmörk,  spritta sig, ekki taka þátt í stórum viðburðum og takmarka umgengni við viðkvæma hópa..

Ég fór í þriðju sprautuna (örvunarbólsetning) síðastliðin föstudag  og varð slöpp af henni með bein- og vöðvaverki, kuldahrolli og mikilli þreytu og orkuleysi..

Fjöldi greindra smita helst óbreyttur dag eftir dag 1300-1600 smit á dag en vegna þess að veiruafbrigðið núna veldur ekki eins alvarlegum veikindum og er ekki eins hættulegt og fyrri afbrigði eru reglurnar að breytast þessa dagana og mikið um afléttingar í kortunum. Það á að prófa að "hleypa veirunni lausri" eins og það er kallað..

Í gær var fyrsta skrefið tekið í sambandi við sóttkví, smitgát og sýnatökur. Nú þurfa börn hvorki  að fara í sóttkví né smitgát ef smit greinist utan heimilis, s.s. í skólum, á íþóttaæfingum og í félagsstarfi, en ef smit greinist á heimili þurfa þau að fara í sóttkví. 

Fullorðnir fara heldur ekki í sóttkví ef smit greinist utan heimilis en gætu þurft að fara í smitgát sem verður þó án sýnatöku og hraðprófa. Ef smit greinist á heimili þurfa fullorðnir að fara í sóttkví, nema þeir séu þríbólusettir eða tvíbólusettir og búnir að fá covid.. Nú hefur sýnatöku á hraðprófum minnkað mjög og einnig sýnatökum í PCR prófum sem eru nú einungis tekið af þeim sem hafa covidlík einkenni..

 Varla skánar ástandið í skólastarfinu við þessar aðgerðir, þar sem verður væntanlega meira um veikindi og smit þar sem börn og fullorðnir verða ekki lengur send í sóttkví.

Á morgun verða svo enn meiri breytingar þegar ríkistjórnin kynnir nýja afléttingaráætlun eftir tillögum sóttvarnarlæknis..

Já, þetta verður stuð næstu vikur😕...

 Það voru smá breytingar hjá mér í vinnunni um miðjan janúar þegar skólastjórinn bað mig um að vera eingöngu í 5. bekk og aðstoða þar nemenda sem er nýkominn í skólann og þarf mikla aðstoð og stuðning. Það er ágætt að breyta aðeins til og það gengur  bara vel..

Nóg í bili.. eigið góða viku og farið vel með ykkur..