Saturday, November 07, 2020

Ýmislegt

Jói, Gunnar og Birgir komu í heimsókn síðastliðinn sunnudag:-)

Elduðum sunnudagssteik og áttum fína samverustund:-)

Í gær kíkti ég í kaffi til mömmu og fór svo á pósthúsið til að senda pakkana til Finnlands og sækja sendingu sem ég fékk frá einni af fatabúðunum utanlands sem ég hef verslað frá. Sendi svo pakkana til Noregs eftir helgi:-)

Um síðustu helgi voru settar hertari takmarkanir og sóttvarnarráðstafanir sem munu  gilda til að byrja með næstu 2-3 vikur um allt land. 

Má þar nefna: 10 manna fjöldatakmörk, 50 manna takmörk í matvörubúðum og apótekum, grímuskylda hjá öllum sem eru fæddir fyrir árið 2011 í verslunum, þjónustu og skólum, allt íþróttastarf innan og utanhúss og sviðslistir verður óheimilt, tveggja metra reglan er í gildi og hertar takmarkanir í skóla og frístundastarfi.

Af þessum sökum var starfsdagur á mánudaginn í öllum leik- og grunnskólum, tónlistarskólum og frístundastarfi.

Þennan dag fór ég á minn fyrsta starfsmannafjarfund í gegnum tölvuna, gott að kunna þetta ef nauðsyn krefur:-)

Og daginn eftir fór ég á mína fyrstu kóræfingu í gegnum netið, það var ágætis tilbreyting að sjá og heyra í kórstjóra og söngfélögum og ætlum við að halda því fyrirkomulagi eitthvað áfram:-)

Nú er búið að hólfa skólann meira niður og stytta viðveru starfsfólks í skólanum og er skipulagið meira í takt við það sem var í vetur og vor..

En nú mega nemendur ekki fara á milli nema með takmörkunum en starfsfólk má fara á milli og finnst mörgum það skjóta skökku við.. 

Reglugerðin um skóla- og frístundastarf er eftirfarandi:

Leikskólar:

  • Ekki skulu vera fleiri en 50 leikskólabörn í hverju rými. Leikskólabörn eru undanþegin 2 metra nálægðartakmörkun. Starfsfólk skal halda 2 metra nálægðartakmörkunum sín á milli og sé það ekki hægt skal starfsfólk nota andlitsgrímur. Skipulagt íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf barna á leikskólaaldri er óheimilt, jafnt innan og utan leikskóla.
Grunnskólar:
  • Fyrsta skólastig, þ.e. 1.–4. bekkur: Nemendur eru undanþegnir 2 metra nálægðartakmörkun og þurfa ekki að nota andlitsgrímur. Alls mega 50 nemendur vera í sama rými. Sömu reglur gilda um frístundaheimili fyrir nemendur í 1.–4. bekk.
  • 5.–10. bekkur: Nemendur mega að hámarki vera 25 í hverju rými. Um þá gilda 2 metra nálægðartakmörk og ef ekki er hægt að uppfylla þau skulu nemendurnir nota grímu. Starfsfólk skal jafnframt halda 2 metra regluna og nota grímu sé það ekki mögulegt.
  • Starfsfólk grunnskóla: Ekki skulu vera fleiri en 10 starfsmenn í hverju rými en starfsmönnum er heimilt að fara á milli hópa. Starfsmenn skulu virða 2 metra regluna sín á milli og gagnvart nemendum í 5.–10. bekk. Sé það ekki hægt skulu þeir bera grímur.
  • Fjöldamörk og blöndun hópa: Halda skal sömu hópaskiptingu nemenda í grunnskólastarfi og á frístundaheimilum þannig að ekki verði blöndun milli nemendahópa.
  • Skipulagt íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf, þ.m.t. starf félagsmiðstöðva, barna á grunnskólaaldri er óheimilt.

Núna erum við 6.-7. manna teymi með fyrsta bekk(40 börn) í tveim stofum, kennarar, þroskaþjálfi og stuðningsfulltrúar og dekkum kennslu, matarvakt og frímínútur, en list og verkgreinakennsla og íþróttir halda sér á yngsta stigi. Við erum aðallega inni í okkar stofum, bókasafnið og tölvuverið er lokað og engir sameiginlegir viðburðir eða uppákomur eru leyfðar.

 Við mætum rétt fyrir kennslu sem hefst 8:30 og eigum að fara heim þegar kennslu lýkur kl 13:40.  Nemendum á öllum stigum er hleypt inn og út um ákveðna innganga og eru sóttir af starfsmönnum.

Þetta á líka við um frímínútur og matartíma þar sem hólfin fara á sitthvorum tímunum og einnig er búið að skipta skólalóðinni í hólf. 

Við megum ekki nota skólalóðina í íþrótta og sundtímum og því höfum við farið í gönguferðir og á róló.:-)

 Miðstigið fer heim í hádeginu og unglingastig um kl. 13:00 og hjá þeim er grímuskylda..

Svona var skipulagið í síðustu viku.

En það verða væntanlega breytingar í næstu viku þar sem að smit greindist hjá kennara og nemanda á unglingastigi hjá okkur í gær og fyrradag og er búið að senda nær allt elsta stigið(börn og fullorðnir) í sóttkví fram eftir næstu viku;-(

Nú er smitum aðeins að fækka í samfélaginu, það eru að greinast 20-30 smit á dag og er 70-90% af þeim sem  greinast í sóttkví..sem eru jákvæðar afleiðingar af þessum hertu takmörkunum..

Upplýsingar um sýnatöku og smit 6.11.2020

Fjöldi smita innanlands:25

Smit með mótefni, landamæraskimun:1

Fjöldi sýna innanlands:1485

Fjöldi sýna, landamæraskimun: 264

Í dag eru 989 manns í sóttkví, 710 í einangrun, 1011 í skimunarsóttkví, 78 á sjúkrahúsi, 4 á gjörgæslu og 18 eru látnir..

Nýgengi, innanlandssmit 164,2

Nýgengi, landamærasmit 17,7

Heildartölur frá 28. febrúar 2020:

4.335 manns hafa lokið einangrun

5063 staðfest smit

43.389 hafa lokið sóttkví

195.126 sýni, innanlands

121.721 landamærasýni 1
 
48.767 landamærasýni 2
 
283 innlagnir á sjúkrahús
 
45 innlagnir á gjörgæslu
 
Já, svona er nú staðan á Fróni..
læt þetta nægja í bili..
Farið vel með ykkur og góða helgi 😘
Sandra lata..