Saturday, March 14, 2020

sögulegir tímar

Laugardaginn 7. mars fór ég í heimsókn til Heiðar vinkonu í pizzuát, vídjógláp, spjall og gaf syni hennar loksins pakkann í tilefni af 5 ára afmæli hans sem var  9. febrúar en ég komst ekki í það þar sem ég var í 10 ára afmæli Gunnars á sama tíma:-)

Yfirvofandi verkfalli BSRB var aflýst aðfaranótt 9. mars því þeir náðu samningum við ríkið og Reykjavíkurborg, svo við mættum í skólann á mánudeginum.
Verkfalli Eflingar var aflýst daginn eftir þar sem þeir náðu líka samningum og þar með komst starfsemin í samfélaginu á rétt ról aftur, leikskóladeildir opnuðu, ruslið var tekið og skólarnir voru þrifnir þannig að á miðvikudeginum komu allir nemendur okkar aftur í skólann.

10. mars var starfsmannafundur þar sem var m.a. tilkynnt að bæði árshátíðir starfsfólks og nemenda sem átti að vera í mars ásamt ýmsum öðrum viðburðum í skólastarfinu yrði frestað vegna kórónuveirunnar..

11. mars ákvaðum við í kórnum að fresta æfingabúðum og árshátíðinni sem átti að vera núna í helgina vegna veirunnar og óvissu í samfélaginu.. og einnig erum við búin að fresta æfingum fram yfir páska...

Í  gær  kom svo tilkynning frá stjórnvöldum um samkomubann í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins. Ekki mega koma saman fleiri en 100 manns, og á það við ýmsa viðburði, verslanir, íþróttastöðvar, leikhús, skóla, heilsugæslu og margt fleira. Bannið tekur gildi á miðnætti annaðkvöld og gildir til 13. apríl...

Áður var búið að grípa til ýmissa ráðstafanna, m.a. að banna heimsóknir ættingja og vina á elliheimilin og spítalana, fyrirtæki og stofnanir senda starfsfólk heim og það vinnur heima, mörgum viðburðum, skemmtunum, tónleikum, árshátíðum og sýningum var frestað, messuhald, fermingar og jafnvel giftingar og jarðarfarir var frestað og nú er talað um haustfermingar...

Búið er að loka mennta- framhalds og háskólum en það á að reyna áfram að halda uppi einhverskonar starfi í leik og grunnskólum og frístundinni og á eftir að útfæra það nánar ásamt starfi í tónlistarskólum og öðrum íþrótta og menningarstofnunum...
og mun það koma betur í ljós í vikunni....
Það verður starfsdagur í ofnangreindum skólastigum um allt land á mánudaginn til að finna út úr þessu með starfsfólki og leiðbeiningum frá stjórnvöldum og samstarfsnefndum.....

já, þetta eru skrýtnir tímar um allan heim.
Ferðalög hafa snarminnkað, ýmis fyrirtæki, þjónusta og stofnanir munu eiga erfitt uppdráttar, atvinnuleysi mun aukast, félagslíf leggst í dvala í einhvern tíma og svo framvegis...

Núna eru um 160 manns smitaðir á Íslandi þar af einn alvarlega á gjörgæslu og um 1200 manns í sóttkví og einangrun....

Á mánudaginn verður kynningarfundur í gegnum netið um nýju samningana og svo verður kosning í framhaldi og verður áhugavert að sjá hvernig það fer...

nóg í bili, farið vel með ykkur og munið að eftir vetri kemur vor:-)