Bretland
Þetta var nú meiri ævintýraferðin sem innihélt mikið af skondum atvikum en skemmtileg og góð ferð sem skilur eftir margar minningar og það var margt nýtt að sjá og upplifa. Við fengum frábært veður allan tímann, 18-20 stiga hita, sól og hita:-)
Hefst þá frásögnin:
Vinkona mín sótti mig um fjögurleytið aðfarnótt miðvikudags og við keyrðum upp í skóla þar sem hópurinn var samferða í rútu upp á völl.
Allt gekk ágætlega á vellinum, reyndar var smá vesen að tékka sig sjálfur inn og einhverjir voru stoppaðir í leitarhliðinu en allir komust um borð í flugvélina:-)
Við flugum með nýrri 260 manna flugvél með 7 sætaröðum til og frá landinu..
Fluginu frá KEF, seinkaði um hálftíma vegna bilunar í vatnskerfinu og þar með byrjuðu ævintýrin:-)
Við lentum rétt á eftir áætlun á Heathrow um klukkan 13:00 að breskum tíma og þar lentum við Íslendingarnir í smá vandræðum með vegabréfin, í stað þess að skanna þau sjálf inn í tölvu eins og algengt núna þurftum við að fara að þjónustuborðinu og tala við vörð sem hleypti okkur í gegn:-)
Þegar við komum að töskufæribandinu voru töskunar okkar týndar:-)
Við biðum í rúmlega hálftíma eftir töskunum og gengum svo í átt að komusalnum þar sem rútubílstjórinn sem við höfðum pantað átti að bíða eftir okkur.
En þá kom í ljós að hann var týndur:-0
Nú voru góð ráð dýr, við leituðum en fundum ekki gaurinn..
Við töluðum við einhvern fulltrúa eða yfirmann í rútubílaþjónustu sem við fundum þarna og hann reddaði okkur nýrri rútu og bílstjóra úti á bílaplaninu...
Loksins komum við til London eftir c.a 40 mínútna keyrslu frá flugvellinum, tékkuðum okkur inn á hótelið, hentum töskunum upp á herbergi og gengum svo af stað á barnamenningarsafnið:-)
Stoppuðum á perúískum veitingarstað á leiðinni, fengum okkur að borða og rétt náðum inn á safnið, fengum minifyrirlestur og náðum aðeins að skoða þetta flotta safn þar sem má finna gömul leikföng frá ýmsum tíma:-)
Að þessu loknu gengum við að stað í átt að ítalska pizzastaðum þar sem við áttum pantað borð.
Leiðin var lengri en við héldum svo við tókum gamaldags svartan leigubíl afganginn af leiðinni...
Maturinn var mjög góður og það var gott að setjast niður eftir viðburðarríkan dag:-)
Tókum svo leigubíl heim á hótelið og þar skiptist hópurinn, sumir fóru upp á herbergi en ég og nokkrar aðrar kíktum smástund á pöbb beint á móti hótelinu..
Þar fengum við sæti, sumir fengu sér aðeins að drekka, dönsuðum svolítið og höfðum gaman:-)
Fórum að sofa um miðnætti, þar sem við þurftum að vakna um 6:30 morguninn eftir...
Vöknuðum snemma á fimmtudagsmorgni sem átti eftir að vera langur, erfiður, skemmtilegur og ekki alveg laus við skondin ævintýri:-)
Dagurinn byrjaði á því að gera upp hótelið, tékka sig út, setja töskunar í töskugeymslu og uppgötva svo að morgunmatur var ekki innifalin í verðinu:-)
Sem betur fer var lítil kaffitería í lobbíinu þar sem við gátum fengið kaffi, brauð og jógúrt því við lögðum af stað með leigubílum kl. 08:00 að skoða útileikskóla sem var í rúmlega klukkutíma fjarlægð. Við komum á réttum tíma í skólann, þetta var flottur leikskóli og gaman að skoða hann:-)
Eftir c.a. 2 tíma heimsókn fórum við í gönguferð um bæinn í átt að lestarstöðinni, tókum lest til London og fengum okkur að borða á frönskum veitingastað þar sem við áttum pantað borð..
Sátum þar, fengum ágætis mat og svo áttum við smá frítíma sem við gátum gert það sem við vildum..
Við þurftum að vera komnar fyrir utan hótelið kl.17:30 þar sem rútan sem við pöntuðum til að keyra okkur til Eastbourne fór kl.18:00.
Helmingur af hópnum fór að versla, en ég fór með 6 öðrum stelpum að skoða Kings Cross lestarstöðina þar sem Harry Potter myndin var tekin upp, okkur langaði að sjá þennan stað og komast í Harry Potter búðina:-)
Við fórum með neðanjarðarlestum og það tók um 30 mínútur að komast þangað..
Við tókum myndir og keyptum dót í búðinni, það var gaman að sjá þetta og mikil upplifun að koma á staðinn:-)
Við tókum stóran leigubíl til baka á hótelið eftir skemmtilegan og eftirminnilegan dag:-)
Þegar þarna var komið sögu tóku þreytan, mengunin og hraðinn í lestarkerfinu, hitinn og allt áreitið(mannhaf, vinstri uppferð, hávaði) sinn toll og rétt eftir að ég steig inn í leigubílinn helltist yfir mig bílveiki, höfðuðverkur og ógleði....
Við komum upp á hótel án áfalla, náðum í töskunar og svo birtist stór tveggja hæða rúta til að ná í okkur:-)
Við sátum allar að sjálfsögðu uppi á efri hæðinni, enda var það nýtt fyrir flestar okkar...
Ég var ekki alveg búin að jafna mig þegar við lögðum af stað og við vorum ekki komin langt í þessari bílferð sem átti að taka c.a. tvo tíma þegar ég kastaði upp;-(
Sem betur fer var ég með poka með mér og svo var klósett á neðri hæðinni..
Eftir uppköstin leið mér betur og var þokkaleg það sem eftir var ferðarinnar...
Þegar ég kom af klósettinu tók ég eftir að rútan var stopp á miðri hraðbrautinni og þá kom í ljós að hún var biluð:-0
Við þurftum að bíða í klukkutíma eftir nýrri rútu og komumst loks til Eastbourne um kl. 10:30.
Eastbourne er 100.000 manna lítill strandbær þar sem hægt er að labba í miðbæinn og verslunarmiðstöðina..
Þar gistum við á kózý litlu gestahúsi, vorum með allt húsið fyrir okkur fyrir utan tvö herbergi:-)
Eigendurnir voru yndislegir og þjónustan frábær, fínn morgunmatur sem var innifalin og við vorum alveg við ströndina:-)
Jæja við vorum komnar á áfangastað, þreyttar og svangar eftir langan dag, hentum töskunum upp á herbergi og næst á dagskrá var að finna eitthvað að borða.
Það var nú ekki auðvelt þar sem búið var að loka flestum veitingastöðum en við fundum nokkra skyndibitastaði þar sem við gleyptum eitthvað í okkur og fórum svo heim að sofa:-)
Vöknuðum um 9 leytið morguninn eftir, fengum okkur morgunmat, fórum í sturtu og fórum svo út í rútu sem keyrði okkur í vísindasafn..
Þar sáum við m.a. eldgamla risastóra stjörnusjónauka og ýmisleg skemmtileg tæki og tilraunir fyrir krakka:-)
Þegar við vorum búnar að vera smástund í safninu uppgötvaði Heiður að hún hafði týnt símanum sínum..
Hún leitaði í rútunni og á safninu, við hringdum í gistiheimilið en engin svaraði þar og ekki fannst síminn;-(
Hún fann svo símann þegar við komum heim aftur, þá hafði hún gleymt honum við morgunverðaborðið og var óskaplega fegin að finna hann:-)
Við fengum fyrirlestur um sjónaukana og skoðum svo allt safnið, fengum óæta tómatsúpu í kaffiteríunni og fórum svo aftur í rútuna eftir c.a. eins og hálftíma skoðunarferð..
Þaðan héldum við í miðbæinn, fórum í gönguferð þar sem rútubílstjórinn leiðbeindi okkur um svæðið og svo keyrðum við áfram og fórum í ekta gamaldags ríkramanna einkaskóla með heimavist og skólabúningum með nemendur á aldrinum 9 mánaða- 13 ára..
Það var gaman að sjá þennan skóla en þetta er svo allt öðruvísi en við erum vön..
Heimsókinni lauk um kl 16:30, þá fórum við leigubíl beint í mollið, vorum þar í klukkutíma og löbbuðum heim á gistiheimilið:-)
Fórum með dótið upp á herbergi, hvíldum okkur augnablik og hittumst í lobbíinu kl 19:00 þar sem við tókum leigubíl á fínasta steikhús sem var dálítið frá.
Fengum okkur steik og meðlæti, kaffi og köku og vorum komnar heim um 23:00.
Við fórum nokkrar að kíkja á næturlífið, fundum einn stað nálægt gistihúsinu, kíktum þar smástund inn en fórum fljótlega heim. Þar héldum við lítið notalegt náttfatapartý í setustofunni, fengum okkur nammi, spjölluðum og spiluðum á spil:-)
Laugardagurinn var frídagur:-)
Við fengum okkur morgunmat, helmingur af hópnum fór í verslunar og skemmtiferð til Brighton, en hinn helmingurinn tók því rólega í Eastbourn og ég ákvað að verða eftir, var komin með nóg í bili af þeytingi:-)
Við kíktum í bæinn, fórum í mollið, fengum okkur að borða, gengum til baka á gistiheimilið og fórum svo á ströndina..
Lágum í sólbaði, slökuðum á, fengum okkur kaffi og ís, fórum svo heim eftir notalegan og góðan dag og hittum hinar í setustofunni um kvöldmatarleytið þar sem við ætluðum að fara saman á taílenskan veitingastað þar sem við áttum pantað borð..
Tókum leigubíl á staðinn en þá kom í ljós að pöntunin hafi klúðrast og við áttum ekki borð:-)
Nú jæja, þetta var í stíl við ferðina svo við löbbuðum af stað og fundum ítalskan stað neðar í götunni:-)
Þar fengum við borð og sátum í rólegheitum, fengum ágætis mat og tókum svo taxa heim:-)
Þar var tekið til við að pakka og ganga frá, fórum að sofa um 1 leytið og vöknuðum um 07:20, fengum morgunmat, gerðum upp og rútan fór af stað um 08:30.
Rútuferðin gekk vel en á leiðinni föttuðu tvær af konunum að þær höfðu gleymt úlpunum sínum í herberginu, en það var haft samband og yfirhafnirnar verða sendar:-)
Við komust á flugvöllinn, tékkuðum okkur inn og fórum svo í gegnum leitarhliðið. Þar stóð mér ekki alveg á sama þegar flugfreyjutaskan mín var tekin til hliðar.
Þá kom í ljós að ég hafði ekki sett snyrtivörurnar í glæran poka og því þær voru skannaðar vegna sprengihættu. En þetta reddaðist allt saman og var bara eitt skondna atvikið í viðbót í ferðinni:-)
Allir komust um borð, fluginu seinkaði aðeins vegna mikillar flugumferðar en við komust heilar heim og lentum í KEF um kaffileytið á sunnudeginum:-)
Gunni náði í mig og ég kom heim seinnipartinn þreytt og ánægð með ferðina.
Jói, mamma og Gunnar komu svo í heimsókn um kvöldið.....
Já, eins og þið sjáið var þetta skemmtileg, viðburðarrík, fræðandi og góð ferð sem seint mun gleymast:-)
Myndirnar sem ég tók má sjá í myndasafninu:-)
<< Home