Reynsla mín
af því að ég byrjaði að kyrja.
Reynsla sögð á umræðufundi í apríl 2006.
Set þetta aftur hér inn til upprifjunar..
Haustið 2004 var ég nýútskrifuð og byrjuð að kenna. Veturinn var erfiður af mörgum ástæðum og kennslan gekk upp og niður. Það gekk á ýmsu í stofunni, í samskiptum við foreldra og nemendur og teymisvinna við hina kennara var stundum ekki alveg nógu góð. Ég átti oft erfitt þennan vetur og leið illa. Sjálfstraustið var ekki mikið og ég var stressuð, óörugg og réði ekki alltaf við skapið í mér, hef alltaf haft áráttu og þráhyggju og miklað hlutina fyrir mér, jafnvel langt fram í tímann. En oftast var þó gaman og spennandi í starfinu. Mér fannst gott að vinna í skólanum og takast á við ýmis spennandi verkefni þar. Ég fékk margar og góðar ráðleggingar og mikla hjálp frá öðrum kennurum og starfsfólki í sambandi við nemendur og margt fleira og ég fór eftir því eins og ég gat og lagfærði ýmislegt hjá mér bæði persónulega og faglega.
Svo leið að starfsmannaviðtalinu hjá skólastjórnendum sem allir starfmenn fara í að vori til að meta stöðuna og ákveða línurnar fyrir haustið. Það eina sem ég var búin að ákveða fyrir viðtalið var að ég ætlaði ekki að gefast upp í kennslunni og langaði til að halda áfram að kenna í þessum skóla. Í stuttu máli sagt var viðtalið langt og erfitt. Við ræddum hreinskilningslega saman og ég sagði frá því hvernig mér leið og hvað gengi vel og illa og hvernig ég hefði alltaf reynt að fara eftir þeim leiðsögnum sem ég hefði fengið. Skólastjórinn sagði að það væri mjög gott að geta viðurkennt veikleika og styrkleika sína og geta lagfært það sem illa gengi. Í ljósi þess og aðallega vegna þess að ég tæki gagnrýni og tiltali svona vel ætlaði hún að gefa mér annað tækifæri og nýja byrjun næsta vetur og bauð mér stöðu í 1. bekk. Ég tók því feginshendi, bæði glöð, ánægð og með kvíðahnút í maganum vegna þeirrar ábyrgðar sem því fylgir sem og reynsluleysis við að kenna þessum aldri. Við töluðum um ýmis atriði sem ég þurfti að vinna í og lagfæra hjá mér fyrir veturinn. Þetta samtal var samt mjög gott og gagnlegt því það gaf mér spark í rassinn um að fara að vinna í sjálfri mér sem var löngu kominn tími til að ég gerði.
Svo kom sumarfríið og ég byrjaði að taka mig í gegn, meðvituð um þessi atriði og ákveðin í því að gera betur næsta vetur og ekki gera sömu mistökin aftur. Fyrst byrjaði ég að lesa sjálfshjálparbækur, slaka á, fara í sund og margt fleira. Á heimilinu var Gohonzon sem bróðir minn átti og hafði ég oft heyrt hann kyrja en hafði aldrei haft áhuga á því og hafði sagt við hann Jóa bróðir að það væri frábært hvað þetta gerði mikið fyrir hann, en að ég myndi aldrei iðka og kyrja, því það myndi ekki hjálpa mér! En svo varð ég forvitin um kyrjun og búddatrúna. Ég ákvað bara að byrja sjálf að kyrja og lesa bækur sem tengust búddista en það var ekki létt að finna réttu bækurnar svo ég las um allskyns stefnur og tegundir búddisma. Jói var út á sjó þegar þarna var komið sögu og gat því ekki leiðbeint mér. Ég kyrjaði og kyrjaði og las og fann strax að þetta var eitthvað sem var spennandi og virkaði. Ég náði að laga og breyta ýmsu hjá mér, varð rólegri, áhyggurnar minnkuðu, áráttan og þráhyggjan minnkuðu mikið og ég náði meiri sjálfsaga, jafnaðargeði og sjálfstrausti. Svo kom Jói í land og ég sagði honum að ég væri byrjuð að kyrja og lesa og hvað ætti ég að gera næst:-)
Við ræddum mikið um þennan búddisma og ég spurði mikið og langaði á fund. Svo leið sumarið og haustið kom og ég fór á marga fundi og varð mjög virk í þessu öllu, fór á haustnámskeið, skráði mig í ungrakvennadeildina og fór á fundi hjá vinnufélaga mínum sem var líka að kyrja og var í ungrakvennadeildinni. Í stuttu máli sagt breyttist ég mikið og um haustið þegar skólinn byrjaði aftur var ég örugg og leið miklu betur. Fékk nýjan samstarfskennara og nýja nemendur og veturinn er búin að vera draumur í dós og ganga eins og í sögu. Ég hef náð vel til krakkanna og verið sjálfsörugg og náð góðum tökum á mér, kennslunni, samstarfi við foreldra og samstarfsfólk.
En svo leið að starfsmannaviðtalinu núna í vor og ég undirbjó mig vel, tók fram hvað mér leið vel í skólanum og hrósaði mörgu sem verið var að gera í skólastarfinu. Setti fram þá ósk að fá að halda áfram með bekkinn og vinna áfram í skólanum, vitandi það að ef það gengi myndi ég lenda í svipuðum aðstæðum og fyrsta árið, en samt með breytingum. Ekki hafði ég áhyggjur af því að vera sagt upp, en hlakkaði mest til að vita hvort stjórnendur hefðu séð breytingar á mér og minni vinnu og að ég fengi kannski hrós:-)
Ég byrjaði viðtalið á því að þakka þeim fyrir tækifærið og seinasta viðtal sem varð til þess að ég kynnist SGI. Í stuttu máli sagt varð þetta viðtal frábært. Ég var í góðu formi, ánægð, í háu lífsástandi og búddaeðlið virkt. Ég fékk mikið hrós og góða uppbyggilega umsögn um þær breytingar sem ég hef unnið að hjá mér og skólastjórinn var ánægður með að ég vildi halda áfram með bekkinn. Við töluðum um næstu skref sem ég þarf að taka og þetta var alveg meiriháttar;-)
Eins og ég hef áður sagt var aðalmarkmiðið mitt í byrjun iðkunar og ástæða þess að ég byrjaði að kyrja sú að ná tökum á mér, aðstæðum í vinnunni, að standa mig og geta axlað þá ábyrgð og traust sem mér var sýnt. Mér hefur tekist það og er ánægð með mig núna. Þetta er mikil vinna að vera virk í iðkun og nota það í daglega lífinu og baráttan er sko ekki búin;-)
Þessi reynsla sýnir að ég valdi rétta leið í lífinu með því að byrja að kyrja og náði svo sannarlega markmiðinu sem sett var fram í upphafi. Lögmálið og kyrjunin virkar svo sannarlega og hef ég fengið margar sannanir fyrir því á undanförnum dögum, margir stórir sigrar og ávinningar fyrir mig og aðra í kringum mig sem ég hef kyrjað mikið fyrir:-)
<< Home