Tuesday, January 01, 2008

Góða kvöldið

og gleðilegt nýtt ár:-)
Vona að allir hafi haft það gott og skemmtilegt í gærkvöldi..
Mér liggur margt á hjarta núna, búið að vera mikið um að vera í dag..

Byrjaði daginn á því að fara á fjölmennt og frábært nýjársgongyo á Grand hótel, þar sem þrír voru að taka við Gohonzon og óska ég þeim innilega til hamingju:-)
Að dagskrá lokinni var boðið upp á glæsilegt kaffihlaðborð. Gaman að hafa svona til tilbreytingar aðeins öðruvísi, grand og á nýjum stað, því nýársdagur er nú einu sinni stærsti hátíðisdagur okkar búddista:-)

Eftir þetta allt saman fór ég aðeins heim og svo fórum við í bíó klukkan 6 og sáum myndina Bjólfskviðu í þrívídd, sem var skemmtileg upplifun. Myndin var líka ágæt og betri en ég bjóst við..

Leiðsögnin frá Ikeda kemur hér á milli því færslan endar aðeins öðruvísi núna:

1.janúar

Þeir sem vakna hvern morgun og hafa verk að vinna og áætlunarverk til að uppfylla eru hamingjusamastir allra. Þannig eru SGI meðlimir. Fyrir okkur er hver dagur, dagur æðsta tilgangs og fullnægju. Fyrir okkur er hver dagur nýjársdagur. Vinsamlega leggið ykkur fram til hins ýtrasta með þeim ásetningi að lifa hvern dag til fulls, svo þið megið skrifa dagbók lífsins til fulls.


Þegar heim var komið af bíómynd var kveikt á sjónvarpinu og allt öðruvísi mynd var næst á dagskrá. Það var mynd sem ég ætlaði alltaf að sjá, fór ekki á hana í bíó,en herti mig núna upp í að horfa á. Það er heimildarmyndin Syndir feðranna sem fjallar um Breiðavíkurmálið. Myndin var öðruvísi en ég bjóst við, og tók ekki eins mikið á og ég hafði ímyndað mér fyrirfram..
ég mæli með að þið sjáið hana, ef þið hafið ekki gert það nú þegar..

Í framhaldi af sýningu myndarinnar vil ég enda færsluna á ljóði sem varð til í huga mér þegar ég sá viðtal í sjónvarpinu við einn af piltunum og þetta ljóta og sorglega mál var í brennidepli, ekki bara Breiðavík heldur fleiri vistheimili og stofnanir.
Ég setti það á ljóðasíðuna 11. júlí 2007 en vil samt fá að setja það aftur hér..
Kveð í bili
Sandra


Frásagnir
sem skera hjartað.
Tárin brjótast fram.

Litlar sálir
strákar og stelpur
varnarlausar
fara á mis við ást og umhyggju.
Skipulega brotnar niður
með andlegum og líkamlegum
pyntingum, aðferðum og orðum.

Engin má vita hvað gengur á
hver mun trúa
hræddu barni.

Veröldin verður ljót og grimm
langt fram á fullorðinsár
afleiðingar fylgja þeim alla ævi.
Sumir einstaklinganna
ná að vinna ágætlega úr reynslunni
og byggja sig upp
en aðrir brotna enn meir
og geta ekki höndlað tilveruna.

Eftir áratuga bælingu
tekur hugrekkið völdin
og fortíðin
kemur í ljós.
Samfélagið situr orðlaust
og horfir á
meðan sársaukinn sker hjörtun.