Óður til ömmu
Elskulega amma mín.
Í dag kvöddumst við í hinsta sinn í þessu jarðlífi. Þú svafst svo djúpum friðsælum svefni í fallegri hvítri kistu með hvíta sæng. Eftir marga erfiða baráttudaga við "gleymskuveikina" eins og þú kallaðir þennan sjúkdóm yfirgafst þú örþreyttan líkmann í svefni og fékkst langþráða hvíld til að öðlast þrek fyrir næsta lífsskeið. Í 70 ár dvaldir þú á meðal okkar í leik og starfi. Síðastliðin 30 ár höfum ég og þú verið samferða amma mín. Sá tími hefur svifið hjá misjafnlega hratt, en svo margar minningar líða í gegnum hugann frá þessum árum. Amma að kenna, amma í sveitinni, amma að aðstoða okkur að baka hrískökur í Litluhlíð, amma að hjálpa mér með lærdóminn, amma að fara yfir próf. Sterkustu minningarnar tengjast starfi þínu og búsetu í sveitinni og í Logafold. Amma mín kennarinn. Börn og unglingar voru þér alltaf hugleikin og starfaðir þú með þeim stærstan hluta ævi þinnar. Alltaf varstu til staðar fyrir öll börnin og ungmennin í lífi þínu, hvar sem þú bjóst, nemendur þína í skólunum, börnin þín, barnabörnin, barnabarnabörnin, börnin á nágrannabæjunum og ungmennin sem bjuggu hjá ykkur afa í sveitinni um lengri eða skemmri tíma.
Ég kom oft í Litluhlíð og dvaldi hjá ykkur, sérstaklega yfir sumartímann. Þaðan eru margar góðar og fallegar minningar, við Ágústa að leika okkur saman, hlupum fjálsar yfir tún og völl, upp í hlíð og niður í fjöru. Jói minn og Brynja og fleiri krakkar voru líka stundum með okkur og þetta voru spennandi, fjörugir og skemmtilegir tímar og alltaf var tilhlökkun að fara vestur. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið svo mörg tækifæri til að komast í sveitina á sumrin. Ég sé það nú hvað þetta var dýrmætur tími. Ég var stuttan tíma í skólanum á Barðaströnd þar sem þú varst að kenna. Ég man óljóst eftir því vegna þess að ég var svo ung að árum, en gleymi aldrei þegar við vorum í leikfimi að labba eins og köngulær. Svo fluttuð þið afi suður og gerðust frumbyggjar í Grafarvoginum. Óteljandi minningar tengjast Logafoldinni og varði ég mörgum góðum stundum þar á bæ. Mér er minnistætt þegar við fórum í berjamó í hlíðinni fyrir ofan, þar sem síðar reis Hamrahverfið. Amma mín, öðru sinni vorum við í sama skólanum þegar þú komst til starfa í hverfisskólanum mínum, Hólabrekkuskóla. Aldrei kenndir þú mér þar, en það var notalegt og mikið öryggi í því að vita af þér í skólanum og mikil upphefð í því að segja hinum krökkunum og kennurunum frá því að þú værir amma mín.
Svo margar dýrmætar minningar hafa safnast saman og svo fáar komnar á blað. Hjartans þakkir fyrir að hafa verið til staðar í lífi mínu, í gleði og sorg, sýnt stuðning og aðstoð í öllu því sem ég var að vinna að og hugsa um. Þú átt stóran þátt í því að ég valdi mér þann starfsvettvang sem ég starfa á núna, mér fannst starf þitt spennandi og áhugavert og ung ákvað ég að verða kennari. Ég man eftir því að einu sinni þegar ég var lítil var ég heima og var að leika mér að skrifa orð á krítartöflu og ímynda mér að fyrir framan mig væru nemendur mínir að læra stafsetningu.
Elsku amma. Ég óska þér alls hins besta í nýja lífinu og sé þig nú fyrir mér í skólastofu með marga áhugasama nemendur í kringum þig. Ég er þess fullviss að við hittumst aftur, en í hvaða hlutverki,umhverfi, eða aðstæðum veit engin. Það verður spennandi að vita en þangað til mun ég hlýja mér við fallegu og góðu minningarnar um þig elsku amma mín.
Bestu kveðjur
þín Sandra
<< Home