Saturday, January 14, 2006

Í skólastofunni

Skemmtilegt og áhugavert að sjá áhrif og úrvinnslu hjá nemendum eftir kennslustund og umræðutíma í skólastofunni, og hvað þeir eru að hugsa um og tileinka sér af námsefninu þegar heim er komið.
Við höfðum haldið áfram í verkefninu um líkamann okkar(styðjumst við námsefnið"Komdu og skoðaðu líkamann" ásamt öðrum fræðibókum) og fræddumst m.a. um skynfæri, neglur, hár, húðina, nefið og frumur. Það urðu miklar umræður um tilgang og hlutverk nefsins og lyktarskynsins. Einnig ræddum við svolítið um frumur líkamans, hvaða hlutverki þær gegna, hvernig þær líta út og hvað verður um húðfrumur þegar þær deyja. Sumir komu með þá hugmynd að hægt væri að sjá þær með stækkunargleri fyrst þær eru svona litlar og illsjáarlegar með berum augum:-)
Enduðum svo tímann á því að klippa út myndir sem tengjast lyktarskyninu og nefinu úr dagblöðum og líma í úrklippubók og bjuggum til stórt nef sem prýðir nú vegginn í skólastofunni:-)

Daginn eftir þennan fróðlega náttúrfræðitíma kom lítil snúlla til mín og gaf mér flotta og litfagra mynd sem hún hafði teiknað heima. Á myndinni stóð skrifað stórum stöfum HÚÐFRUMUR og til hliðar voru margar og mismunandi húðfrumur í mörgum og skærum litum:-)

Já, alltaf gaman og gott að sjá þegar börnin pæla í, tileinka sér, skilja, uppgötva, ræða um og vinna úr þeim fróðleik og upplýsingum sem þau heyra/læra um í umhverfi sínu:-)